132. löggjafarþing — 75. fundur,  2. mars 2006.

Þingsköp Alþingis.

225. mál
[17:32]
Hlusta

Flm. (Mörður Árnason) (Sf):

Forseti. Ég held að þetta hafi verið þörf áminning hjá hv. þm. Kjartani Ólafssyni þó að ég taki kannski ekki að fullu undir hugmyndir hans um tilhögun utandagskrárumræðu. En það sem þarf að gera þegar vélað er um störf þingsins með endurskoðun þingskapa er, að ég hygg, þrennt ef ég má fljúga nokkuð hátt yfir.

Í fyrsta lagi þarf að gæta sjálfstæðis þingsins gagnvart framkvæmdarvaldinu og öðrum greinum valdsins af ýmsu tagi á Íslandi. Það þýðir m.a. það að réttur stjórnarandstöðu sé ekki fyrir borð borinn á þinginu þótt meiri hlutinn eigi að sjálfsögðu að hafa það vald sem meiri hluta fylgir í lýðræðissamfélagi.

Í öðru lagi þarf að gæta þess að þingflokkarnir hver um sig eigi allir sinn rétt en þó með þeim takmörkunum, þar er ég sammála Kjartani Ólafssyni, hv. þingmanni, að þess sé gætt að fjölmennur þingflokkur hefur auðvitað fleiri kjósendur á bak við sig en fámennur þingflokkur. Ekki er með öllu eðlilegt að fámennur þingflokkur njóti einfalds jafnræðis gagnvart kannski sjö sinnum stærri flokki, með þeim afleiðingum t.d. að úr fámennum þingflokki taka stöðugt sömu mennirnir þátt í umræðum í því fasta formi sem utandagskrárumræðan er meðan einungis fáir komast að úr stóru flokkunum.

Í þriðja lagi held ég að það verði líka að gæta að sjálfstæði og erindi einstakra þingmanna á þinginu. Mér hefur sýnst þróunin vera sú annars vegar að þingið er ráðherraþing. Það snýst um ráðherrana meira og minna. Við vitum að hér á einum stað á þinginu — það var hér í skoti inn af efrideildarherbergi en er nú á neðri gangi milli hins gamla Alþingishúss og hins nýja skála — eru myndir af öllum ráðherrum Íslands. Ekki er ég að hallmæla þeim en í raun og veru ættu þær heima í höfuðstöðvum framkvæmdarvaldsins uppi í Stjórnarráði og einhverjar aðrar myndir hér, t.d. af öllum forsetum Alþingis eða helstu þingskörungum þingsins frá 1845. Þetta er aðeins lítið táknrænt dæmi um að þingið er farið að snúast í kringum ráðherrana. Það er skipulagt kringum innkomu ráðherranna hér í þingið og framkomu þeirra í stólnum.

Hins vegar hef ég tekið eftir því, og þar með fylgir auðvitað sú skipulagning þingsins í þágu ríkisstjórnarinnar sem leiðir af ójafnvæginu milli þings og ríkisstjórnar, að í auknum mæli eru ráðaöflin á þinginu þingflokkarnir sjálfir sem jafnvel ganga á rétt einstakra þingmanna og möguleika þeirra til að koma hér í stólinn til að ræða sín eigin sjónarmið og þá hagsmuni sem þeir vilja verja og það erindi sem þeir telja sig sjálfir hafa. Ég er ekki að mæla því kerfi bót að hér séu 63 sjálfstæðir þingmenn sem hver tali upp í annan og yfir annan um sín mál. Ég held að flokkakerfið eða samtök þingmanna, þingmenn sem sendir eru á þingið á vegum stjórnmálaflokka, sé hið æskilega ástand nú um stundir að minnsta kosti. En ég held að við verðum líka að setja nokkrar skorður við því að þingflokkarnir sjálfir, þ.e. meiri hluti þingflokkanna, eða stjórnendur þingflokkanna, geti ráðskast með einstaka þingmenn eins og þingskipulagið gerir í sífellt meira mæli ráð fyrir. Þá er ég t.d. að tala um það að í utandagskrárumræðunum, sem hv. þm. Kjartan Ólafsson minntist hér á áðan, skipa auðvitað þingflokkarnir til verka. Það eru þingflokkarnir sem velja sér sína tvo fulltrúa í hverja umræðu og síðan er það auðvitað mismunandi hvernig það velst í þingflokkunum. En það eru sem sagt ekki þingmennirnir sjálfir sem koma hér upp eftir áhugasviðum sínum eða með einhverjum öðrum hætti í utandagskrárumræðurnar.

Þegar ég hóf hér störf, það er stutt síðan, ég er hér á þriðja ári á þinginu, forseti, þá voru umræður um störf þingsins á þann veg að þingmenn gátu óhindrað tekið þátt í þeim. Nú er það orðið þannig að það er tilkynningaskylda með sérstökum reglum sem forseti hefur haft forgöngu um og þingflokkarnir eru, að mér sýnist, í sífellt meira mæli farnir að skipa mönnum líka þar til verka. Þannig að þær eru að líkjast meira og meira utandagskrárumræðunum. Þetta þýðir auðvitað að einstakir þingmenn leita sér þá að einhverjum nýjum vettvangi til að koma sínum málum að. Hver hann er núna svo sem veit ég ekki. En ég held að þetta sé ekki góð þróun í heildina. Ég held að við verðum við endurskoðun þingskapanna líka að taka tillit til þess að það eru hérna persónur af holdi og blóði og ekki eingöngu fulltrúar fimm stjórnmálastefna, hvað þá einungis litlir karlar með hönd á hnappi fyrir ríkisstjórnina.

Þetta vildi ég segja almennt í tilefni af orðum Kjartans Ólafssonar sem mér fannst út af fyrir sig þörf þótt ég þurfi meiri tíma til að melta tillögu hans í þessu efni.