132. löggjafarþing — 75. fundur,  2. mars 2006.

Þingsköp Alþingis.

225. mál
[17:46]
Hlusta

Flm. (Mörður Árnason) (Sf) (andsvar):

Forseti. Mér líst vel á þá hugmynd að nefndir geti kallað til þessa embættismenn á vegum Alþingis og farið yfir skýrslur þeirra þar sem seint mun nú verða, hygg ég, samstaða um að þeir taki beinan þátt í þingstörfum í þessum sal.

Ég vil leiðrétta það, ef það hefur verið hugsun hv. þm. Ögmundar Jónassonar, að það geti komið í staðinn fyrir það sem ég er hér að tala um því að ég er í raun og veru miklu heldur að tala um stjórnsýslu Alþingis sjálfs, þá stjórnsýslu sem forsetinn hefur á hendi frá degi til dags og varðar, eins og ég taldi upp í ræðunni, rekstur þingsins og stjórn þess, umsjón húseigna, umsjón Jónshúss og úthlutun gæða í því samhengi, t.d. dvalarheimilda fyrir fræðimenn, án þess að ég sé með nokkrum hætti að setja það í annarlegt ljós, og t.d. verkefni á borð við bókina um þingræði sem hér var til umræðu í haust — og má reyndar kalla eftir því að ekki hafa enn komið fram þær upplýsingar sem lofað var um fjármál og aðrar reiður í kringum það verk þótt nokkuð hafi verið í fréttum og ýmislegt gerst í því efni síðan umræðurnar voru.

Ég tel líka, það er best að koma því að af því að ég gleymdi því áðan, að um verkefni af því tagi og ýmis önnur sé miklu nær, frekar en að forseti ákveði það sjálfur og hafi kannski forsætisnefnd með einhverjum hætti fyrir sig, að forseti beri það fram hér í þingsályktunartillögu til þingmanna þannig að þeir geti rætt það sjálfkrafa og þurfi ekki sérstaka fyrirspurnatíma til þess og taki þannig þátt í ákvörðunum, þ.e. taki að sér ýmsar þær ákvarðanir sem forseti annast núna einn.