132. löggjafarþing — 75. fundur,  2. mars 2006.

Áfengislög.

235. mál
[17:59]
Hlusta

Jón Kr. Óskarsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Hér var mælt fyrir frumvarpi til laga um breytingu á áfengislögum nr. 75/1998, með síðari breytingum.

Ég get ekki séð, frú forseti, hvernig hægt er að banna þetta í nútímaþjóðfélagi. Við höfum aðgang að 20 til 30 fjölmiðlastöðvum úti um allan heim og þar eru víða á stærstu íþróttamótum í heimi áfengisauglýsingar, hvort sem okkur líkar betur eða verr. Á að loka fyrir þessar stöðvar, ég spyr?

Ég held að menn ættu að skoða þetta mál í sambandi við nútímann. Þetta hefði hugsanlega verið hægt fyrir 20 til 30 árum en eins og tækniframfarir eru og hafa verið á síðustu 10 til 20 árum í þessum efnum tel ég þetta mjög varasamt, fyrir utan það að íþróttahreyfingin hefur náttúrlega fulla þörf fyrir allt það fjármagn sem hún getur fengið.