132. löggjafarþing — 75. fundur,  2. mars 2006.

Áfengislög.

235. mál
[18:00]
Hlusta

Flm. (Ögmundur Jónasson) (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Aðeins örfá orð. Að sjálfsögðu virði ég þessi sjónarmið sem hv. þm. Jón Kr. Óskarsson setur hér fram. Auðvitað er það alveg rétt að við fáum hingað til lands tímarit með áfengisauglýsingum. Við horfum á kappleiki þar sem auglýsingaspjöld eru sýnileg. En ég endurtek að það er ekki bara á Íslandi sem þessi umræða og þessi barátta á sér stað. Hún á sér stað um heim allan. Og þegar talað er um nútímaþjóðfélagið og hvað sé nútímalegt og hvað ekki, ja, hver hefði þá trúað því að á breskum öldurhúsum yrðu reykingar bannaðar? Hver hefði trúað því fyrir 20–30 árum að það yrði hætt að reykja á öllum veitingastöðum í Kaliforníu og í New York og víðar?

Það er bara þetta sem er að gerast að heimurinn er að vakna til vitundar um skaðsemi tóbaks og óhóflegrar neyslu áfengis og menn vilja gera hvað þeir geta til þess alla vega að takmarka möguleika sölumanna þessara efna til að koma þeim ofan í landslýðinn. Við erum því ekkert eyland í þessu efni. Þjóðir heimsins eru að takast á um þetta. Það er mikil umræða innan Evrópusambandsins um tóbaksauglýsingar og um áfengisauglýsingar einnig. Við eigum að taka höndum saman með þeim sem vilja halda inn í nútímann, inn í heilbrigðari lífshætti í framtíðinni.