132. löggjafarþing — 75. fundur,  2. mars 2006.

Áfengislög.

235. mál
[18:18]
Hlusta

Þuríður Backman (Vg):

Hæstv. forseti. Ég ætla að leggja nokkur orð í belg um frumvarp til laga um breytingu á áfengislögum. Ég er ein af flutningsmönnum frumvarpsins sem er ein grein, þ.e. breyting á 3. mgr. 20. gr. laganna, þar sem verið er að varna því að hægt sé að nota vörumerki á áfengum drykkjum sem framleidd eru bæði sem óáfeng og áfeng vín og öl.

Það verður á einhvern hátt, hæstv. forseti, að búa svo um löggjöfina að ekki sé hægt að fara fram hjá áfengislögunum eins og gert er í dag. Menn töldu og ég hef talið það sjálf að þau væru nægilega skýr en eins og áfengisauglýsingarnar hafa verið að birtast og þá sérstaklega á bjór er auðveldlega hægt að fara fram hjá lögunum með því eingöngu að hafa örlítið merki einhvers staðar, helst til hliðar og svo lítið að það þurfi allt að því stækkunargler til að sjá að það standi „léttöl“ einhvers staðar á auglýsingunni og þá er þetta lögleg auglýsing samkvæmt dómum sem birst hafa. Þetta hefur gengið svo langt og auglýsingar eru orðnar svo ágengar og markaðssetningin á bjór er orðin svo gegndarlaus undir þessum fölsku merkjum að nauðsynlegt er að grípa inn í og stöðva þetta framferði sem er algjörlega ósiðlegt og höfðar auk þess aðallega til barna og unglinga og hvetur til meiri drykkju. Þetta er sem sé hluti af forvörnum, áfengisforvörnum. Það er betra að hefta og draga úr áfengisneyslunni í stað þess að bregðast ekki við og sitja svo uppi með afleiðingar af ofdrykkju og drykkju unglinga.

Það er, hæstv. forseti, mikil forvörn í frumvarpinu og við eigum að taka höndum saman með öðrum þjóðum til að reyna með öllu móti að draga úr áfengisdrykkju, sérstaklega hjá unglingum, því að við vitum í dag hverjar afleiðingar hún hefur.