132. löggjafarþing — 75. fundur,  2. mars 2006.

Áfengislög.

235. mál
[18:21]
Hlusta

Flm. (Ögmundur Jónasson) (Vg):

Hæstv. forseti. Í upphafi vil ég gera eina leiðréttingu og hún er sú að sennilega hafi það verið rangt hjá mér að óska eftir því að málinu yrði vísað til menntamálanefndar. Sennilega á þetta mál fremur heima í allsherjarnefnd þingsins og legg ég til að það gangi þangað að lokinni umræðu.

Ég vil þakka fyrir umræðuna, hún hefur verið ágæt og gagnleg. Fram hafa komið mismunandi sjónarmið um hvort rétt sé og hvort yfirleitt gerlegt sé að banna áfengisauglýsingar. Og eru menn þá að horfa á þessi mál í alþjóðlegu samhengi? Ég tel tvímælalaust svo vera en ég vil taka undir þau sjónarmið sem fram komu hjá hv. þm. Merði Árnasyni áðan þegar hann sagði að við ættum að sameinast um að styðja frumvarp þetta sem gengur út á að gera lögin skýrari þannig að fram hjá þeim verði ekki farið. Lagabreyting eigi ekki að verða niðurstaða af ólöglegu athæfi sem löggjafinn hafi gefist upp gagnvart og dómstólarnir einnig. Það er í raun að gerast í þessu máli hér.

Síðan getum við á sjálfstæðum forsendum tekið upp þá umræðu hvort leyfa beri auglýsingar á áfengi og það eigum við að gera á sjálfstæðum forsendum sem sérstakt aðskilið mál. Þetta gengur fyrst og fremst út á það að sjá til þess að þau lög sem eru við lýði í landinu og eru mjög skýr í mínum huga en ekki í huga allra og ekki í huga dómstólanna, verði skýrð þannig að þau nái því markmiði sem þeim er ætlað að þjóna. Síðan getum við tekið hina umræðuna um hvort leyfa beri auglýsingar á áfengi. Það er allt önnur saga, þar er ég með afdráttarlausa afstöðu að sönnu en það er svo annað mál.

Ég vona að þetta mál nái sem fyrst fram að ganga og komi til atkvæðagreiðslu hér í þingsal.