132. löggjafarþing — 76. fundur,  3. mars 2006.

Breyting á lagaákvæðum um lífeyrissjóði.

371. mál
[10:37]
Hlusta

Frsm. efh.- og viðskn. (Pétur H. Blöndal) (S):

Herra forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti um frumvarp til laga um breytingu á lagaákvæðum um lífeyrissjóði frá hv. efnahags- og viðskiptanefnd.

Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Elmar Hallgríms Hallgrímsson, Ingva Má Pálsson og Þórð Reynisson frá fjármálaráðuneyti, Hauk Hafsteinsson frá Lífeyrissjóði starfsmanna ríkisins, Þorgeir Eyjólfsson frá Lífeyrissjóði verslunarmanna, Hrafn Magnússon og Gunnar Baldvinsson frá Landssamtökum lífeyrissjóða, Friðbert Traustason frá Lífeyrissjóði bankamanna, Gylfa Arnbjörnsson frá Alþýðusambandi Íslands, Hannes Sigurðsson frá Samtökum atvinnulífsins, Stefán Aðalsteinsson frá Bandalagi háskólamanna og Bjarna Þórðarson frá Íslenskri endurtryggingu hf.

Með frumvarpinu eru lagðar til tvíþættar breytingar á lagaumhverfi lífeyrissjóða. Í fyrsta lagi er lagt til að lágmarksiðgjald til lífeyrissjóða verði hækkað til samræmis við það sem samið hefur verið um á almennum vinnumarkaði, eða úr 10% í 12% í tveimur áföngum á næstu tveimur árum. Í öðru lagi eru lagðar til breytingar sem snúa að fjárfestingarheimildum lífeyrissjóða.

Nefndin leggur til nokkrar breytingar á frumvarpinu. Í fyrsta lagi er lagt til að hækkun lágmarksiðgjalds til lífeyrissjóða um 2% verði frestað. Fram kom við umfjöllun málsins að enn ætti eftir að ganga frá kjarasamningum við nokkra hópa. Í þessu sambandi bendir nefndin á að í 2. mgr. 4. gr. laga nr. 129/1997 kemur fram að lífeyrissjóður skuli tilgreina það iðgjald sem þarf til að standa undir þeirri lágmarkstryggingavernd sem hann veitir, samkvæmt þessu ákvæði. Að teknu tilliti til þessa telur nefndin að ekki sé nauðsynlegt að gera umrædda breytingu að svo stöddu en leggur áherslu á að það verði skoðað á næsta þingi.

Í öðru lagi er lögð til lagfæring á frumvarpinu til samræmis við markmið þess að því er varðar fjárfestingarheimildir lífeyrissjóða í hlutabréfum, sbr. b-, c- og d-lið 2. tölul. í breytingartillögunum. Samkvæmt frumvarpinu var ekki ætlunin að auka heimildir lífeyrissjóða með þeim hætti að eign þeirra í skuldabréfum, víxlum, hlutdeildarskírteinum eða öðrum verðbréfum, sbr. 2., 5., 6., 8. og 9. tölul. 1. mgr. 36. gr. laga nr. 129/1997, gæti orðið allt að 60% af hreinni eign sjóðsins. Einungis var ætlunin að gefa lífeyrissjóðum kost á því að eign þeirra í hlutabréfum fyrirtækja, skv. 6. tölul. 1. mgr. 36. gr., gæti orðið allt að 60% af hreinni eign sjóðsins. Bent var á að c-liður 2. tölul. í breytingartillögunum væri óþarfur þar sem heimildin mundi felast í orðalagi 2. málsl. eins og lagt er til að hann orðist, sbr. d-lið í breytingartillögunum. Engu að síður var talið skynsamlegt að taka þetta fram með beinum hætti til áréttingar.

Í þriðja lagi er lögð til breyting á c-lið 2. gr. frumvarpsins en hann kveður á um að heimilt verði að meta hreina eign lífeyrissjóða við endurskoðað uppgjör innan ársins í stað þess að miða við síðasta ársuppgjör. Fram komu athugasemdir um að of strangt væri að uppgjör þyrfti að endurskoða innan ársins. Getur nefndin tekið undir það, og með vísun til þess sem fram kemur í athugasemdum við fyrrnefndan c-lið er lagt til að könnun endurskoðanda á uppgjöri lífeyrissjóða innan ársins sé nægileg, með öðrum orðum að eiginleg endurskoðun sé ekki skilyrði hvað þetta varðar. Þess ber að geta að samkvæmt reglum Kauphallar Íslands er nægjanlegt að árshlutauppgjör séu könnuð af endurskoðendum og könnunaráritun fylgi.

Í fjórða lagi er lagt til að kveðið verði á um það með beinum hætti að lífeyrissjóði sé heimilt að stofna til samstarfs við þá aðila sem standa að sjóðnum um innheimtu iðgjalda fyrir þá og félagsgjalda. Skilyrði er að slík innheimta hafi ekki í för með sér neinn kostnaðarauka fyrir lífeyrissjóðinn. Innheimta þessi hefur verið framkvæmd í áratugi og helgast fyrst og fremst af hagkvæmnisástæðum, enda eru þessi gjöld innheimt samhliða lífeyrissjóðsiðgjöldum og reiknast þau almennt af sama stofni og iðgjöld til lífeyrissjóðanna. Þess ber að geta að við setningu laga nr. 129/1997 var hvergi tiltekið að frá framkvæmdinni sem hafði þá staðið í áratugi ætti að víkja. Nú hefur hins vegar komið í ljós að hún kunni að brjóta í bága við ákvæði 20. gr. laga nr. 129/1997 og telur nefndin því rétt að kveðið sé á um þetta með skýrum hætti í lögunum. Við umfjöllun málsins í nefndinni kom einnig fram það sjónarmið að lífeyrissjóði og aðilum tengdum honum væri í lófa lagið að stofna sérstakt hlutafélag um þessa innheimtu að óbreyttum lögum. Í heimildinni sem lögð er til felst að lífeyrissjóðir geta efnt til samstarfs við tengda aðila sem að þeim standa, þ.e. stéttarfélög, sjúkrasjóði, fræðslusjóði, orlofssjóði og samtök atvinnurekenda, um innheimtu iðgjalda fyrir þessa aðila.

Að síðustu er lögð til breyting á gildistökuákvæðinu.

Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt með framangreindum breytingum sem gerðar eru tillögur um í sérstöku þingskjali.

Hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir var fjarverandi við afgreiðslu málsins.

Undir nefndarálitið rita hv. þm. Pétur H. Blöndal, Dagný Jónsdóttir, Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, Drífa Hjartardóttir, Lára Margrét Ragnarsdóttir, Ögmundur Jónasson, Eygló Harðardóttir og Lúðvík Bergvinsson.