132. löggjafarþing — 76. fundur,  3. mars 2006.

Strandsiglingar.

251. mál
[11:17]
Hlusta

Össur Skarphéðinsson (Sf):

Herra forseti. Ég er oftast sammála hv. þm. Ögmundi Jónassyni um það sem betur mætti fara. Þó verð ég í upphafi máls míns að segja að ég átti fremur von á dauða mínum fyrirvaralitlum en því að ég gæti orðið sammála hv. þm. Ögmundi Jónassyni um að það væri æskilegt að bjóða út rekstur. Ég hef jafnan hlýtt með athygli og stundum af nokkurri einurð stutt hv. þingmann þegar hann hefur goldið varhuga við því að menn færu of langt út á þá braut. En svo lærir sem lifir og nú allt í einu sit ég hér í þessum sal og hlusta á mína ágætu félaga í Vinstri hreyfingunni – grænu framboði flytja tillögu sem byggir á útboði á siglingum. Ég fagna því, herra forseti. Mér finnst þetta jákvæð hugarfarsbreyting hjá hv. þingmönnum, sérstaklega hjá hv. þm. Ögmundi Jónassyni. Þegar hann skrifaði sína ágætu grein 4. ágúst 2004 í Morgunblaðið var hann ekki kominn það langt á þróunarbrautinni að hann teldi heppilegt að leggja til útboð. Hv. þm. Jón Bjarnason hefur hins vegar hjálpað honum áfram á þeirri braut og leggur hér fyrir alveg prýðilega tillögu sem byggist að mörgu leyti á ýmsum hugmyndum sem nú þegar hafa verið reyndar í flugrekstri þannig að ég get ekki annað en fallist á að þetta sé jákvæður partur tillögunnar.

Sú staðreynd olli mér líka nokkurri gleði að ein af meginröksemdunum í máli hv. þm. Jóns Bjarnasonar, sem er svo rækilega í gadda slegin í greinargerðinni, er sú stefna Evrópusambandsins að taka upp strandsiglingar til þess einmitt að vernda umhverfið. Ég er algjörlega sammála þeirri röksemdafærslu, flutti svipaða ræðu hér í gær sem byggðist einmitt á ákveðnum umhverfisrökum. Ég er hins vegar ekki jafn vel að mér í Evrópusambandinu og hv. þingmenn Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs, ég gerði mér ekki ljóst að Evrópusambandið væri komið svona langt í þessu, en þetta hvort tveggja gleður mig.

Að öðru leyti, herra forseti, er ég þeirrar skoðunar að það sé meira en einnar messu virði að skoða þennan möguleika, að velta því rækilega fyrir sér, skoða og gera tilraunir með hvort hægt sé að beina umferð af vegum landsins út á hafið aftur með einhvers konar hvata af hálfu ríkisins. Þetta hefur verið reynt í flugi þegar einstök flugfélög hafa lagt af flugleiðir vegna þess að þau hafa ekki talið sig hafa nægar tekjur til þess að geta staðið undir því. Þar hefur það gefið góða raun að fara inn á þessa braut. Ég tel því gott að skoða þetta mál hvað varðar strandsiglingarnar.

Hv. þm. Kristján Möller, félagi minn í Samfylkingunni, hefur lagt á þetta mikla áherslu og ég man ekki betur en þetta sé einmitt partur af þeirri þingsályktunartillögu sem hann hefur lagt fram með öðrum þingmönnum Samfylkingarinnar um aðgerðir sem miða að því að lækka vöruverð. Þá var hv. þingmaður ásamt félögum sínum að reyna að benda á leiðir til þess að flytja vörur út á landsbyggðina með ódýrari hætti en í dag. Það eru ein rök með þessu. Önnur rök eru auðvitað þau sem komu fram hjá báðum þeim hv. þingmönnum Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs sem hér töluðu áðan, að þeir miklu flutningar sem eiga sér stað á vegunum skapa í senn vaxandi hættu fyrir aðra sem ferðast um vegakerfið og jafnframt hafa þeir í för með sér mikinn kostnað fyrir hið opinbera. Það má með vissum hætti segja að þær gríðarlegu upphæðir sem þarf að leggja í viðhald á vegakerfinu vegna notkunar þessara stóru dreka, sem svo voru kallaðir hér áðan, séu eins konar niðurgreiðsla á flutningum þeirra fyrirtækja sem í hlut eiga. Þau skipafélög tvö sem áður stunduðu strandflutninga tóku meðvitaða ákvörðun um að flytja flutninga sína af hafinu yfir á vegakerfið vegna þess að því er vel við haldið af ríkinu, og það kostar mikið. Hver af þessum drekum spænir upp vegina í jafnmiklum mæli og tíu þúsund fólksbifreiðar. Það hlýtur að hafa í för með sér mikinn kostnað.

Umhverfisleg rök eru þó að mínu viti sterkasta röksemdin fyrir tilraun af þessu tagi. Við búum við það Íslendingar að við þurfum að standast ákveðna alþjóðlega mælikvarða, axla skuldbindingar sem við höfum tekið á okkar herðar með staðfestingu Kyoto-sáttmálans, og það liggur alveg ljóst fyrir að þær aðgerðir sem ríkisstjórnin er að íhuga þessi missirin munu sprengja þá sáttmála. Ríkisstjórnin er upptekin af því að bjóða álver hér, þar og alls staðar og við vitum að af hálfu Framsóknarflokksins er fyrst og fremst um að ræða tilraun til þess að veiða atkvæði. Þetta er nokkuð örvæntingarfull viðleitni flokks sem er í vanda til þess að reyna að seilast til atkvæða.

Gott og vel, ég ætla ekki að fara út í miklar umræður um það. En ég vil ítreka það sem ég hef áður sagt að mér finnst vera mikið ósamræmi hjá ríkisstjórninni. Hún skapar annars vegar væntingar um framkvæmdir sem munu sprengja þau mörk sem við megum fara upp í varðandi losun á gróðurhúsalofttegundum en gerir hins vegar ekkert til þess að reyna að draga úr þeirri losun í samfélaginu almennt. Þriðjungurinn af þeirri losun sem stafar af mannlífi á Íslandi tengist samgöngum og það er alveg ljóst að ef hægt væri að draga úr umferð, ef t.d. væri hægt að taka upp vöruflutninga á hafi, mundi losun vegna samgangna minnka töluvert mikið. Þetta er eitt af því sem þarf að skoða og láta reikna út.

Ég sakna þess reyndar hjá hinum ágæta umhverfisvæna flokki, sem flytur þessa ágætu tillögu, að þetta skuli ekki vera veigameiri röksemd í greinargerðinni með annars ágætri tillögu. Á eina staðnum sem þessa er getið er það gert með vísan í hið ágæta samband Evrópusambandið. Út af fyrir sig er það gott að Evrópusambandið skuli vera orðið sverð og skjöldur Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs í þessu máli — það hefur löngum verið athvarf mitt í stormum tímanna og gleðilegt að fleiri skuli finna þar skjól.

Að lokum, herra forseti, vil ég ítreka að mér finnst sú leið sem hér er farin jákvæð. Hún er í samræmi við þær hugmyndir sem annar flokkur í stjórnarandstöðunni, Samfylkingin, hefur lagt fram og fyrir henni eru mörg rök. Reynsla er komin á þetta kerfi hvað varðar flugsamgöngur, þetta mundi auka öryggi á vegum landsins en það sem skiptir mestu máli er að þetta dregur úr losun gróðurhúsalofttegunda.