132. löggjafarþing — 76. fundur,  3. mars 2006.

Strandsiglingar.

251. mál
[11:25]
Hlusta

Flm. (Jón Bjarnason) (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Össuri Skarphéðinssyni fyrir mjög góða ræðu og mjög góðar undirtektir við þetta mál. Þau rök sem hann lagði áherslu á eru hin mikilvægu rök í málinu.

Hann gerði hinn umhverfislega þátt sérstaklega að umtalsefni en í tillögu okkar er vísað til sams konar tillögu sem flutt var árið 2002–2003. Ítarlega er farið í gegnum hinn umhverfislega þátt í þeirri tillögu, herra forseti, þar sem reiknaður er út samanburður á losun koltvísýrings frá flutningsbílum og skipum, t.d. á leiðinni frá Reykjavík til Akureyrar og frá Reykjavík til Ísafjarðar. Þar er farið mjög ítarlega í gegnum þessa útreikninga einmitt hvað varðar koltvísýringinn eins og hv. þingmaður lagði áherslu á. Þessi umhverfislegi þáttur er gríðarlega mikilvægur og er, eins og hv. þm. minntist á, önnur ástæðan fyrir því að Evrópusambandið gerir sérstaka undantekningu varðandi sjóflutninga, að það megi mismuna flutningsleiðum með því að ríkið styrki sjóflutninga. Evrópusambandið hefur nú haft það sem aðalsmerki sitt að allt eigi að vera gegnsætt samkeppnisumhverfi en það hefur einmitt lagt áherslu á að heimila ríkisstuðning við sjóflutninga, bæði af umhverfisástæðum og líka af samgönguástæðum, eins og hv. þingmaður kom inn á og getið er í greinargerðinni. (Forseti hringir.) Þessir þættir eru tíundaðir hér og eru að sjálfsögðu mjög mikilvægir, herra forseti.