132. löggjafarþing — 76. fundur,  3. mars 2006.

Strandsiglingar.

251. mál
[11:29]
Hlusta

Flm. (Jón Bjarnason) (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Þó að Evrópusambandið hafi vit á einhverjum hlutum þarf það ekkert að vera neitt verra fyrir það ef það er á annað borð skynsamlegt. En þannig er mál með vexti að við erum aðilar að þessum ákvæðum í gegnum samning okkar við Evrópusambandið. Sú aðild var notuð sem rök gegn tillögunni þegar við fluttum hana fyrst á þingi árið 1999 eða 2000. Þau rök voru notuð að þetta mætti ekki vegna þess að reglur innan Evrópusambandsins, sem við værum aðilar að, bönnuðu mismunun af því tagi að ríkið kæmi inn í einhvern einn flutningsmáta umfram annan. En síðan þá hefur það gerst að Evrópusambandið og Evrópska efnahagssvæðið, sem við erum aðilar að, hefur breytt þessum reglum og núna er mjög afdráttarlaust hvatt til þess að ríkisstjórnir kanni með hvaða hætti þær geta þrýst flutningum út á sjó.

Annað er nýtt í þessu, bara svona til upplýsingar: Skipafélögin hafa einmitt hvatt til þess og heimilað að einstök ríki beiti aðgerðum til þess að tryggja að þau eigi heimahafnir í viðkomandi löndum. Evrópusambandið sá að ef þessum reglum yrði beitt alveg stíft færi allur kaupskipaflotinn frá Evrópu og ætti heimahafnir í öðrum álfum og það var hin ástæðan fyrir því að Evrópusambandið breytti þessum reglum, reglum sem við erum þó aðilar að. Þetta hefur þau áhrif að það eru ekki lengur rök hér gegn því að ríkið beiti afli sínu eftir því sem skynsamlegt getur talist til þess að koma á og styrkja og efla strandflutninga.