132. löggjafarþing — 76. fundur,  3. mars 2006.

Strandsiglingar.

251. mál
[11:36]
Hlusta

Ögmundur Jónasson (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Við höfum mjög skýra afstöðu til Evrópusambandsins. Sú afstaða helgast af því að við erum alþjóðlega sinnuð. Við erum alþjóðlega sinnaður flokkur og teljum að innilokunarstefna Evrópusambandsins sé hamlandi fyrir Ísland. Þar eru reistar mjög miðstýrðar skorður við hvers kyns lýðræðislegum ákvörðunum og á slíkum forsendum höfum við mjög miklar efasemdir og erum andstæð því t.d. að Ísland gangi í Evrópusambandið, þó að við höfum að sjálfsögðu samskipti og reynum að hafa jákvæð áhrif á þróun innan Evrópusambandsins eftir þeim leiðum sem eru okkur færar.

Ég tel útboð hvorki vera góð né slæm. Útboð eru ágæt í sumum tilvikum. Ég hef stutt útboð á ýmsum sviðum. Útboð hins vegar innan velferðarþjónustunnar, heilbrigðisþjónustu o.s.frv., er allt annar hlutur. Ég hef mjög miklar efasemdir um slíkt og tel að það geti bitnað á þjónustunni og gæðum hennar. Ég held að við eigum að hrista af okkur íhaldssama hugsun. Íhaldssöm hugsun getur verið fólgin í að leggjast flatur fyrir tíðarandanum hverju sinni og líta á það sem einhvern hrikalegan hlut ef einhver leyfi sér t.d. að orða þá hugsun að samfélagið, hvort sem það er ríki eða sveitarfélög, gangist fyrir einhverju sem flokkast undir atvinnustarfsemi. Það er íhaldssöm hugsun sem ég tel að Samfylkingin og aðrir stjórnmálaflokkar á Alþingi eigi að horfa svolítið gagnrýnir á. Við erum þarna óhrædd við slíkan tíðaranda og tilbúin að fara leiðir sem áður reyndust vel ef við teljum þær skynsamlegar. Við hins vegar erum í þessu máli að leita eftir samstöðu (Forseti hringir.) til að ná niðurstöðu í það og fögnum þeim sem ganga í lið með okkur.