132. löggjafarþing — 76. fundur,  3. mars 2006.

Strandsiglingar.

251. mál
[11:38]
Hlusta

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Kjarninn í ræðu hv. þingmanns var þessi: Brjótum af okkur hlekki hugarfarsins. Ég er sammála því. Ég er sammála öllu því sem hv. þingmaður sagði um útboð í ræðu sinni áðan. Ég vona að hæstv. forseti leyfi mér, þó að ég víki að eins út af efninu sem við erum að ræða, að svara ákveðnum athugasemdum hv. þingmanns um Evrópusambandið. Brjótum af okkur hlekki hugarfarsins gagnvart Evrópusambandinu líka. Ég er sammála hv. þingmanni um að Evrópusambandið hefur í frammi ákveðna innilokunarstefnu. En ég er ósammála því að hún hafi einhverja óhagkvæmni í för með sér fyrir Ísland. Þvert á móti út frá hinum þröngu sjónarmiðum Íslands hefur hún ýmislegt jákvætt í för með sér. En hún hefur mjög neikvæðar afleiðingar fyrir aðra hluti í heiminum. Fyrir fátækari ríkin, fyrir þróunarríkin.

Þess vegna tel ég að flokkur sem nýtur stuðnings 40% fólks sem styður aðild að Evrópusambandinu eigi að brjóta af sér hlekki hugarfarsins og taka upp nýja afstöðu. Koma með okkur í þetta. Förum inn í Evrópusambandið og breytum þeirri afstöðu. Brjótum niður tollmúrana sem Evrópusambandið hefur slegið um sig til að leyfa hinum fátækari ríkjum heims, eins og Afríkuríkjunum, að notfæra sér ódýrt vinnuafl sitt, ódýrar auðlindir til að búa til vörur sem mundu geta fengið greiða leið, ef ekki væru tollmúrar, inn á markaði Evrópusambandsins. Það yrði öllum til hagsbóta, okkur sem mundum búa innan þess en miklu fremur þeim sem við þurfum að hjálpa. Því það sem skiptir máli í þessu er að jafnaðarmenn hafa alltaf sagt, og segja enn í dag, að viðskiptafrelsið er undirstaða þess að þjóðirnar brjótist til bjargálna. Þess vegna ég segi við hv. þingmenn VG: Brjótið af ykkur hlekki hugarfarsins og skoðið þessa hluti upp á nýtt. Vegna þess að ef þetta er skoðað heildstætt kemur í ljós að þetta yrði jákvætt fyrir þá sem þeir vilja hjálpa helst. Lítilmagnanum í (Forseti hringir.) heiminum.