132. löggjafarþing — 76. fundur,  3. mars 2006.

Strandsiglingar.

251. mál
[11:41]
Hlusta

Jón Kr. Óskarsson (Sf):

Virðulegi forseti. Hér er til umræðu tillaga til þingsályktunar um strandsiglingar. Í umræðunni er búið að fara út og suður í allar áttir. Kjarni málsins er að mínu mati sá að vegir landsins þola engan veginn þá þungaflutninga sem hafa verið undanfarin ár. Þetta er stórhættulegt fyrir umferð og ýmis banaslys og stórslys hafa orðið á fólki. Við þurfum að koma í veg fyrir þetta og ein leiðin er að mínu mati sú að athuga ítarlega að koma á strandsiglingum.

Talað hefur verið um eyðingu á vegum o.s.frv. En það hefur ekki verið minnst á eitt atriði sem ég tel mjög mikilsvert. Það er slit og mengun á vegum af nagladekkjum. Ég held að það sé umræða sem þyrfti að taka fyrr en seinna. Við sjáum sérstaklega á höfuðborgarsvæðinu hvernig göturnar hafa farið undanfarnar vikur og mánuði.

En ég er mjög jákvæður fyrir þessari tillögu og ég vona að hún fái brautargengi og þetta hafi góð áhrif fyrir land og þjóð.