132. löggjafarþing — 76. fundur,  3. mars 2006.

Greiðslur til foreldra langveikra barna.

389. mál
[12:02]
Hlusta

Valdimar L. Friðriksson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Hv. þingmaður hefði getað stytt þetta langa mál niður og sagt einungis eitt orð: Nei. Það kom ekki til greina af hálfu meiri hluta nefndarmanna í félagsmálanefnd að gera einhverjar breytingartillögur við frumvarp ráðherrans. Breytingartillögur í anda þeirra ábendinga sem komu frá hagsmunasamtökum sem vinna daglega að málefnum langveikra og alvarlegra fatlaðra barna.

Ég verð að viðurkenna enn og aftur að þetta eru mér mjög mikil vonbrigði. Ég hélt nú kannski, af því sá er hér stendur er tiltölulega nýr, að þingnefnd mundi skoða frumvarpið til grunna og leita að göllum og vanköntum og koma með ábendingar um bætur. En því miður var það ekki gert. Ég sé því ekki betur, þrátt fyrir allar þessar góðu og rökstuddu ábendingar, en að ástæðan fyrir því að engu var breytt sé einfaldlega að ráðherrann ræður, þ.e. þrátt fyrir að menn séu kallaðir á nefndarfundi, gestir og fleiri og kallað sé eftir umsögnum, þá er því miður alla vega í félagsmálanefnd í dag ekki hlustað neitt á það af meiri hlutanum. Þar af leiðandi hlýtur hér að vera um algert ráðherraræði að ræða.

Það svekkir mig, frú forseti, en eins og ég segi: Svarið áðan var einfaldlega nei. En ég velti því fyrir mér, og það er spurning hvort hv. formaður félagsmálanefndar geti svarað því hvaðan þessi krónutala, 93.000, kemur. Hver er ástæðan fyrir því að ekki er gerð breytingartillaga um að miða hækkanir t.d. við launavísitölu eða alla vega vera um eða yfir atvinnuleysisbótum?