132. löggjafarþing — 76. fundur,  3. mars 2006.

Greiðslur til foreldra langveikra barna.

389. mál
[12:06]
Hlusta

Jóhanna Sigurðardóttir (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Það er rétt sem kom fram hjá hv. framsögumanni félagsmálanefndar að foreldrar langveikra barna hafa haft þetta á stefnuskrá sinni lengi þetta brýna hagsmunamál í mörg herrans ár. Þess vegna veldur það ákveðnum vonbrigðum hvað hér er stigið lítið hænuskref í þessu framfaramáli. Mér finnst stjórnarmeirihlutinn hafa lítinn metnað í þessu máli og eigi að gera betur, ekki síst í ljósi þess að árið 2002 var samþykkt tillaga á Alþingi um að á þessu máli yrði tekið og það var þverpólitísk tillaga þar sem þingmenn úr öllum flokkum sameinuðust um að þetta mál yrði lögfest og hér yrði stigið myndarlegt skref í því.

Það veldur auðvitað miklum vonbrigðum að í meðferð nefndarinnar er ekkert hlustað á hagsmunaaðila og aðra þá sem koma á fund nefndarinnar vegna þess að það eru gerðar mjög alvarlegar athugasemdir við þetta frumvarp varðandi gildissviðið, gildistíma áfangagreiðslna sem eiga að koma í áföngum á þremur árum. Ekki er um að ræða nema 130 millj. þegar þetta allt er komið til framkvæmda og greiðslurnar eru afar lágar eins og hér hefur komið fram. Þegar málið kemur úr félagsmálanefnd eru engar breytingartillögur nema ein sem er raunverulega skref aftur á bak. Maður sér ekki hvaða tilgangi hún á að þjóna. Af hverju mega foreldrarnir ekki hafa þetta val, hvort þeir leita fyrst í sjúkrasjóðina til að fá þessar greiðslur?

Hérna verið að lögfesta og lögbinda að sjúkrasjóðirnir eigi að greiða þessa greiðslu fyrst. Ég spyr því: Var haft samráð við verkalýðshreyfinguna og stjórnir sjúkrasjóðanna, ASÍ, BSRB og fleiri aðila, sem komu á fund nefndarinnar og töldu óeðlilegt að lögbinda þetta? Þeir töldu að foreldrarnir ættu að hafa þetta val. Og vegna þess að rökin hafa ekki komið fram hjá hv. framsóknarmanni (Forseti hringir.) þá spyr ég um þau.