132. löggjafarþing — 76. fundur,  3. mars 2006.

Greiðslur til foreldra langveikra barna.

389. mál
[12:11]
Hlusta

Jóhanna Sigurðardóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég get alveg tekið undir að það er framfaramál að setja í lögbókina þessar greiðslur sem mjög lengi hefur verið beðið eftir. En þetta eru skammarlega lágar greiðslur. Þetta eru lægri en atvinnuleysisbæturnar og eru þær þó lágar eða 96.000 kr. Meiri hlutinn treystir sér ekki einu sinni til að fara upp í þá fjárhæð heldur staðnæmist við 93.000 sem ekki er síðan vísitölubundið. Það eru nægir erfiðleikar hjá foreldrum sem þurfa að ganga í gegnum mikil veikindi með börnum sínum og geta þess vegna ekki verið á vinnumarkaðnum. Þeim er síðan hreinlega skammtað úr hnefa af ríkisvaldinu, 93.000 kr. til að framfleyta sér og fjölskyldum sínum. Þetta eru afar lágar greiðslur og ekki hægt að neita því.

En framsögumaður félagsmálanefndar hefur ekki rökstutt hvers vegna er verið að lögbinda sjúkrasjóðina með þessum hætti. Ég hringdi í ASÍ í morgun til að grennslast fyrir um hvort leitað hefði verið eftir samráði við ASÍ um að lögbinda að greiðslur eigi fyrst að koma úr sjúkrasjóði. Þeir komu alveg af fjöllum. Þeir höfðu ekki heyrt þetta, svo ég spyr: Er þetta rétt með farið sem hv. framsögumaður félagsmálanefndar segir, að hæstv. félagsmálaráðherra hafi haft samráð við ASÍ um að lögfesta þetta með þeim hætti sem hér á að gera? Mér finnst afar mikilvægt að við ræðum við ASÍ-forustuna um þetta og kannski þarf að koma til þess að við tökum þetta mál upp milli 2. og 3. umr. til að ræða þetta.

Mér býður miklu frekar í grun, virðulegi forseti, að hér hafi Framsóknarflokkurinn eina ferðina enn verið beygður af sjálfstæðismönnum til að setja þetta inn með þessum hætti. Enda kom berlega í ljós í umfjöllun nefndarinnar að sjálfstæðismenn í nefndinni höfðu allt á hornum sér varðandi það að ekki væri skýrt neglt niður í lögin að fyrst ætti að taka greiðslurnar úr sjúkrasjóði. Þannig að þetta er örugglega runnið undan rótum íhaldsins að gera þetta (Forseti hringir.) með þessum hætti.