132. löggjafarþing — 76. fundur,  3. mars 2006.

Greiðslur til foreldra langveikra barna.

389. mál
[12:46]
Hlusta

Ögmundur Jónasson (Vg):

Hæstv. forseti. Ég vil byrja á að fagna því að frumvarp þetta er fram komið. Það sem mér er efst í huga er að áralöng barátta hefur skilað árangri. Þar vísa ég í samtök aðstandenda langveikra barna, Umhyggju og önnur samtök. Ég vísa í verkalýðssamtök og þá ekki síst í BSRB sem að öðrum samtökum ólöstuðum hafa beitt sér mjög í þessu máli. Ályktað frá stjórn samtakanna, frá þingum BSRB og tekið undir þær kröfur og óskir sem fram hafa komið frá Umhyggju, samtökum aðstandenda og öðrum hagsmunasamtökum. Innan þingsins hefur þessu máli margoft verið hreyft undir forustu hv. þm. Jóhönnu Sigurðardóttur og hér í þingsal hef ég ásamt ýmsum öðrum skipað mér í hennar sveit til að reyna að ýta þessu máli áfram. Sú barátta hefur núna skilað árangri en fyrir fáeinum árum, á grundvelli þeirrar þingsályktunartillögu sem hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir bar fram, náðist þverpólitísk samstaða um að gera loksins eitthvað í þessu brýna máli. Árið 2001 var sett niður nefnd á vegum félagsmálaráðuneytisins til að semja grunn að frumvarpi og fengu aðild að þeirri nefnd fulltrúar verkalýðssamtaka og margvíslegra hagsmunasamtaka. Er þetta frumvarp byggt á því starfi.

Meðferð ríkisstjórnarinnar og sú vinna öll hefur skilað því m.a. að nokkrar brotalamir eru þessu, því miður. Ég vil í rauninni gera að mínum orðum það sem fram kom hjá hv. 1. flutningsmanni tillagna stjórnarandstöðunnar. Þær eru settar fram af hálfu Samfylkingarinnar en eins og fram kom í máli hv. þm. Jóhönnu Sigurðardóttur hef ég einnig komið að þeirri vinnu og styð þessar tillögur.

Ég þarf ekki að hafa mörg orð um þetta. Rök okkar hafa verið skilmerkilega færð fram af hálfu hv. þm. Jóhönnu Sigurðardóttur. Efnislega snúa þessar tillögur að því að færa framkvæmd laganna til Tryggingastofnunar. Við teljum að þar eigi hún fremur heima en hjá Vinnumálastofnun. Í öðru lagi teljum við æskilegra að líta á greiðslur til þessara aðila tengjutengdar á sama hátt og gert er með Fæðingarorlofssjóð. Þetta er í samræmi við hugmyndir sem hafa komið fram hjá Umhyggju og öðrum aðilum. Auk þess eru ýmsir þættir sem lúta að lífeyrisgreiðslum sem við viljum lagfæra í breytingartillögum sem við stöndum að á þessu frumvarpi.

En það er tvennt sem er grundvallaratriði í gagnrýni okkar. Í fyrsta lagi er það sú ákvörðun ríkisstjórnarinnar og stjórnarmeirihlutans að láta þessa framkvæmd verða að veruleika í áföngum. Eins og fram kom í ræðu hv. þm. Jóhönnu Sigurðardóttur er þetta ótrúlegur nánasarháttur af hálfu ríkisvaldsins. Við erum að tala um greiðslur upp á 130 millj. kr. á ári þegar lögin eru að fullu komin til framkvæmda, en það verður ekki fyrr en á árinu 2008 samkvæmt frumvarpinu. Greiðslurnar á þessu ári yrðu hins vegar 40 milljónir. Síðan 40 milljónir til viðbótar á næsta ári og 50 milljónir á árinu 2008. Hvers vegna í ósköpunum er ekki hægt að láta þessa framkvæmd verða að veruleika þegar í stað? Við leggjum mjög ríka áherslu á að svo verði. Maður hugsar með undrun til allra þeirra verkefna sem fá nægilegt fé af hálfu fjárveitingavaldsins, ríkisstjórnarinnar og stjórnarmeirihlutans, en síðan er skorið við nögl í þessu efni. Það er óskiljanlegt að þetta skuli ekki vera gert.

Hitt grundvallaratriðið sem ég vil nefna er gildistími laganna. Barn sem greinist í desembermánuði á síðasta ári fær ekki rétt samkvæmt frumvarpinu en barn sem hins vegar greinist í janúarbyrjun fær þennan rétt. Við erum með tillögur um að sá réttur verði afturvirkari en hér um ræðir og sett opnun í lögin eins og hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir vék að áðan. Þetta teljum við vera mikilvægt mál. Þetta eru grundvallaratriði sem við teljum að þurfi að skoða.

Þá er hitt sem kom hér fram varðandi lögþvingun eða lögbindingu þess að greiðslur verði að koma úr sjúkrasjóðum áður en þær 93.000 kr. sem kveðið er á um í lögunum komi til framkvæmda. Það segir sig sjálft að einstaklingur sem á rétt úr sjúkrasjóði verkalýðsfélags síns mun að sjálfsögðu sækja þann rétt ef hann er betri en þessar greiðslur. Það segir sig sjálft, þannig að þetta þarf ekki að breyta miklu. En við þurfum að hafa í huga að ekki er lögboðið í fyrsta lagi að sjúkrasjóðirnir hafi greiðslur af þessu tagi. Sjúkrasjóðirnar búa við mjög misjöfn kjör. Í suma sjúkrasjóði er greitt tiltölulega lítið framlag af hálfu atvinnurekandans. Í aðra sjúkrasjóði er greitt tiltölulega mikið. Þannig er t.d. munur á opinbera markaðnum annars vegar og almenna markaðnum hins vegar. Opinberir starfsmenn búa almennt við betri veikindarétt en fólk gerir á almenna vinnumarkaðnum. En á móti kemur að sjúkrasjóðirnir á almennum vinnumarkaði eru sterkari en hjá hinu opinbera. Þar eru því minni fjármunir til ráðstöfunar. Engu að síður hafa þeir sjóðir ákveðið að láta stuðning af hendi við aðstandendur langveikra barna og svo mun að sjálfsögðu verða. En við teljum að þarna sé á ferðinni forræðishyggja sem sé óskynsamleg og ónauðsynleg.

Okkar tillögur, ég leyfi mér að segja okkar, þótt mitt nafn sé ekki hér á blaði — við sem stöndum að þessum tillögum og styðjum þær hvetjum stjórnarmeirihlutann að íhuga þetta rækilega.

Ég vil að lokum leggja áherslu á að það sem við teljum til grundvallaratriða, þ.e. gildistími laganna annars vegar og hins vegar framkvæmdin, verði tekin til endurskoðunar af hálfu stjórnarmeirihlutans. Við erum ekki að tala um miklar upphæðir en upphæðir sem skipta hlutaðeigandi mjög miklu máli.

Hæstv. forseti. Ég ætla ekki að hafa orð mín fleiri að sinni en legg þeim mun meiri áherslu á að ábendingar og tillögur okkar verði teknar til alvarlegrar íhugunar af hálfu stjórnarmeirihlutans á Alþingi.