132. löggjafarþing — 76. fundur,  3. mars 2006.

Greiðslur til foreldra langveikra barna.

389. mál
[14:07]
Hlusta

Pétur H. Blöndal (S):

Frú forseti. Við ræðum hér frumvarp til laga um greiðslur til foreldra langveikra eða alvarlega fatlaðra barna sem flutt er af hæstv. félagsmálaráðherra. Frumvarpið hefur verið rætt í hv. félagsmálanefnd.

Þetta er afskaplega gott mál. Það hefur löngum verið bent á þennan vanda fólks sem eignast og á börn sem verða langveik eða fötluð. Árið 2001 var sett á laggirnar nefnd til að taka á þessum vanda þar sem þetta fólk hefur í gegnum tíðina ekki verið tryggt á neinn máta í kerfinu. Síðan var það tekið inn í kjarasamninga að fólk getur fengið greiðslur í 7–10 daga. Fólk fær að sjálfsögðu umönnunarbætur, allt að 91 þús. kr. á mánuði, sem eru ætlaðar fyrir ýmsum kostnaði vegna fötlunar eða veikinda barna, þar á meðal tekjumissi. Fólk fær greiðslu fyrir dvalarkostnaði ef foreldrar neyðast til að dvelja fjarri heimilum sínum vegna veikinda barna. ASÍ er nýbúið, í kjölfar þeirrar umræðu sem átt hefur sér stað um vanda þessara foreldra, að leggja til við aðildarsamtök sín að sjúkrasjóðirnir greiði 80% af launum í þrjá mánuði, sem er náttúrlega verulega mikil bót frá því sem verið hefur. Ég vil benda á það, frú forseti, að Alþingi hefur skuldbundið alla landsmenn til að greiða 1% af launum í sjúkrasjóði. Þar kemur fjármagnið sem ætlað er til þessa. Svo kemur þetta frumvarp sem hér er lagt fram þar sem gert er ráð fyrir að ríkið greiði 93 þús. kr. á mánuði í þrjá mánuði og eftir atvikum lengur, allt að níu mánuði ef aðstæður eru þannig. Hér er því um að ræða verulega réttarbót á örfáum mánuðum eða árum sem náðst hefur fram fyrir þetta fólk. Ef maður skoðar meðalmann hjá ASÍ sem er með 300 þús. kr. laun, það eru meðallaunin hjá ASÍ, þá eru 80% í þrjá mánuði, þrisvar sinnum 240 þús. kr., 720 þús. kr. Og ef maður reiknar þrisvar sinnum 93 þús. kr. þá eru það tæplega 280 þús. kr. Það er því um ein milljón, þessi tvö atriði, sem kemur til þessa fólks sem ekki kom áður. Það er náttúrlega afskaplega mikil réttarbót fyrir það fólk að fá núna milljón til viðbótar við það sem verið hafði áður, sem var ósköp lítið, umönnunarbætur, dvalarkostnaður og laun í 7–10 daga.

Þetta hefur komið út úr þessari umræðu og ég tel það mjög jákvætt. Hins vegar getur maður ekki komist hjá því að vara við því sem gerðist þegar farið var út í læknisfræðilegt mat á örorku sem varð til þess að örorkubyrðin stórjókst bæði hjá Tryggingastofnun og lífeyrissjóðunum þannig að til mikilla vandræða horfir fyrir lífeyrissjóðina. Til dæmis þarf að hækka iðgjaldið um heilt prósent af þeim sökum, og benda á að skilyrði fyrir greiðslum eru að fyrir liggi vottorð sérfræðinga þeirrar sérhæfðu greiningar- og meðferðarstofnunar sem veitir barninu þjónustu. Það er spurningin hvort ekki verði farið að víkka út þau tilfelli sem falla undir það að fötluð eða alvarlega veik börn eru metin veik til langframa. Sú hætta er alltaf til staðar og hefur sýnt sig víða. En þegar engar bætur eru veittar er vandinn uppi engu að síður en talað hefur verið um að það séu um 40 börn sem eru alvarlega veik eða veik til langframa og þar með er sá vandi viðráðanlegur.

Ég hef hlustað á umræðuna hér í dag, frú forseti, og sú umræða hefur nú verið með ólíkindum. Þetta er svo neikvætt að það liggur við að það sé til hábölvunar að flytja þetta frumvarp. Talað er um að Framsóknarflokkurinn sé beygður af Sjálfstæðisflokknum til að gera ákveðnar breytingar. Það kemur fram í umræddu nefndaráliti og það kom fram hjá fulltrúa ASÍ á fundi í hv. félagsmálanefnd að það hefði alltaf staðið til að sjúkrasjóðirnir tækju þátt í að greiða þennan kostnað. Það kom líka fram að fólk ætti fyrst að fá greiðslu samkvæmt kjarasamningi, síðan kæmu sjúkrasjóðirnir til og að lokum þessar greiðslur. Það lá alltaf fyrir. Og hvers vegna á ekki að segja það í lögunum, frú forseti, til að þetta sé skýrt? Líka til þess að vísa fólki á sjúkrasjóðina því að mjög margir launþegar í landinu vita ekkert af tilvist þeirra. Það er meira að segja svo að fyrir skömmu síðan vissu hv. þingmenn ekki af tilvist sjúkrasjóða í landinu og fluttu frumvörp aftur og aftur sem gerðu ráð fyrir því að sjúkrasjóðirnir væru ekki til. En þeir gegna mjög mikilvægu hlutverki enda fer 1% af launum allra landsmanna í sjúkrasjóðina og það eru fleiri milljarðar sem renna þar inn í formi iðgjalda.

Framsóknarflokkurinn er því ekkert beygður af Sjálfstæðisflokknum. Hér er einungis um það að ræða að menn taka inn í lögin skýrar reglur um hvað eigi að gilda öllum til hagsbóta, sérstaklega þeim sem eru að leita réttar síns til að þeir viti hvar þeir eiga rétt og það sé skýrt hver eigi að greiða hvað á hverjum tíma. Það er ekkert verið að beygja Framsóknarflokkinn eða öfugt í því að koma með skýr lagaákvæði.

Nokkuð hefur verið rætt um séreignarsparnað. Í 11. gr. er gert ráð fyrir því að foreldri greiði að lágmarki — ég vil taka það fram, frú forseti, að lágmarki — 4% og ríkissjóður greiði á móti að lágmarki 6% með tilvísun í lög um lífeyrissjóði. Nú hefur víðast hvar verið ákveðið að hækka þetta lágmark upp í 7% og síðan 8% frá hendi atvinnurekenda og þá gildir það að sjálfsögðu, enda stendur í lögunum hér „að lágmarki“ og það er tilvísun í þetta ákvæði í reglum um lífeyrissjóðina. Hins vegar hefur hv. efnahags- og viðskiptanefnd ákveðið að hækka ekki þetta lágmark að sinni þar til allir kjarasamningar hafa verið gerðir og það ræddum við fyrr í dag.

Hvað varðar spurninguna um það hvort fólk sem er í séreignarsparnaði og lendir í þessum áföllum skuli stutt áfram í séreignarsparnaði út af þessum greiðslum. Mér finnst það kannski vera fulllangt gengið að styðja fólk í einhverjum aukasparnaði þegar það lendir í svona áföllum.

Mikið hefur verið rætt um skurðpunktinn, hvar á að skera á, hvar á að byrja með nýtt kerfi. Það er alveg sama hvar menn byrja, alltaf munu einhverjir lenda fyrir framan og alltaf einhverjir fyrir aftan. Þó að við færum tvö ár aftur í tímann kæmi einhver sem var fyrir þremur árum í þessari stöðu. Það er alveg sama hvar menn byrja, hvar menn skera á, alltaf mun verða hægt að finna einhvern sem er rétt fyrir framan skurðpunktinn og hann verður þá verr settur. Og með tilliti til þess að þetta frumvarp er ætlað til að bæta sérstaklega bráðavanda foreldra sem lenda í þessum aðstæðum, það var markmiðið með frumvarpinu, var ákveðið að láta það gilda frá síðustu áramótum, að þau börn sem greinast eftir þann tíma falli undir þetta ákvæði og skera þar á.

Frú forseti. Þrátt fyrir afskaplega neikvæða umræðu í dag af hálfu stjórnarandstæðinga, það liggur við að allt í þessu frumvarpi sé til bölvunar, þá vil ég taka fram að þetta er mjög gott mál. Með þessu frumvarpi ásamt þeim breytingum sem ASÍ hefur lagt til að gerðar verði á sjúkrasjóðunum og er búið að setja sem skilyrt og skuldbundið ákvæði inn í samþykktir sínar þannig að sjúkrasjóðirnir verða að taka þetta upp ef viðkomandi verkalýðsfélag vill vera aðili að ASÍ, þá er búið að bæta þessu fólki verulega umfram það sem er í dag. Auðvitað má alltaf segja að það megi bæta um betur, ég hugsa að það sé endalaust hægt að gera, en ég vil líka benda á að það eru margar matarholurnar sem fylla þarf í þjóðfélaginu. Við ræðum hér mjög oft um ýmiss konar mál þar sem vantar 50 milljónir hér og 100 milljónir þar og alltaf er sagt að þetta sé eitthvað sem ekki skipti máli í allri hítinni en þegar fimmtíumilljónkallarnir eru nógu margir getur það nú heldur betur safnast saman.

Ég held að menn ættu að fagna þessu máli í dag og ég reikna með að foreldrar langveikra barna muni fagna því miðað við þá stöðu sem verið hefur undanfarin ár og áratugi og aldir.