132. löggjafarþing — 76. fundur,  3. mars 2006.

Greiðslur til foreldra langveikra barna.

389. mál
[14:18]
Hlusta

Valdimar L. Friðriksson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég held að allir þeir sem hafa hlustað í dag hafi heyrt okkur í Samfylkingunni fagna frumvarpinu þó að við höfum margítrekað lýst því yfir, eins og hagsmunaaðilar hafa gert, að það gangi allt of skammt. Þetta hefðu menn heyrt sem hefðu hlustað.

Ég vil minnast á tvennt. Í fyrsta lagi tæknilegt atriði. Hv. þm. Pétur H. Blöndal talaði um að foreldrar langveikra og alvarlega fatlaðra barna fengju styrk vegna dvalarkostnaðar ef þeir þyrftu að sækja þjónustu fjarri heimili. Á það við bæði innan lands og erlendis, þ.e. ef fólk þarf að fara utan eða koma t.d. frá Patreksfirði til höfuðborgarsvæðisins?

Hitt atriðið er kannski öllu alvarlegra. Hv. þingmaður talaði um læknisfræðilegt mat og er ánægður með að það skyldi hert. Skil ég hv. þingmann virkilega rétt að hann hafi áhyggjur af misnotkun? Það lá í orðum hans að aukning á mögulegum bótum til foreldra langveikra barna geti þýtt fjölgun á langveikum börnum, fjölgun einstaklinga. Þannig skildi ég hv. þingmann og óska eftir því að hann útskýri nánar fyrir okkur hvernig í ósköpunum það geti verið samverkandi þáttur þarna á milli.