132. löggjafarþing — 76. fundur,  3. mars 2006.

Greiðslur til foreldra langveikra barna.

389. mál
[14:22]
Hlusta

Valdimar L. Friðriksson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Það var eins og mig grunaði að lesa hefði mátt á milli línanna að það er skoðun hv. þm. Péturs H. Blöndals að bæturnar sem munu koma fram með frumvarpinu muni fjölga langveikum. Það er alveg hreint með ólíkindum að talsmaður Sjálfstæðisflokksins skuli halda þessu fram. Farið hefur verið yfir það í morgun og hefur komið fram í mörgum umsóknum að enginn æskir sér þess, það er ekkert val sem foreldrar hafa að þau eignist langveik börn eða þurfi að sinna þeim. Það er hreint til skammar, frú forseti, að nokkur skuli voga sér að koma upp og telja að þegar loksins á að fara að gera eitthvað í þessum bótaflokki þýði það fjölgun, þ.e. misnotkun.

Þetta er alveg hreint með ólíkindum. (Gripið fram í.) Nei, nú á ég varla orð. (Gripið fram í.) Nei, ég mun ekki gera það. Mér finnst sorglegt að aðaltalsmaður Sjálfstæðisflokksins í félagsmálum á Alþingi skuli nánast lýsa því yfir að bótaflokkarnir verði til þess að fleiri muni telja börn sín langveik til að misnota kerfið. Svo talar hv. þingmaður um að við tölum neikvætt um frumvarpið. Við höfum alla tíð fagnað því.