132. löggjafarþing — 76. fundur,  3. mars 2006.

Greiðslur til foreldra langveikra barna.

389. mál
[14:43]
Hlusta

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Það var áberandi þverstæða í röksemdafærslu hv. þingmanns. Hún sagði í fyrsta lagi: Sjálfstæðisflokkurinn hefur alltaf haft mikinn áhuga á velferðarmálum. Hún sagði í öðru lagi: Hér er um að ræða mikla réttarbót úr engu.

Áhugi Sjálfstæðisflokksins á velferðarmálum þessa hóps samfélagsþegnanna hefur verið svo mikill að hann hefur engan rétt haft. Það er ekki fyrr en núna árið 2006, þegar samsvarandi lög hafa verið í gildi í 40 ár á Norðurlöndunum, að hv. þm. Drífa Hjartardóttir kemur og segir að sjálfstæðismenn hafi svo rosalegan áhuga á velferðinni að þeir séu fyrst núna, og ég vona að forseti afsaki orðbragðið, að hundskast til þess að stíga fyrsta skrefið. Ekki er nú áhuginn meiri en svo.

En hins vegar tek ég fram, eins og ég sagði í minni ræðu, hugsanlega að gefnu tilefni, að ég tel að hér sé um réttarbót að ræða. Ég tel það. Ég hefði viljað að það skref sem stigið er hér og kostar 130 millj. kr. hefði verið svona 220 millj. kr. virði þegar upp er staðið. Vegna þess að ég held að það sé upphafið sem nægi til að dekka þann ramma sem markaður er með breytingartillögum stjórnarandstöðunnar.

Svo er það merkilegt, frú forseti, að það er eins og maður styðji á ofurviðkvæman, sárauman blett þegar maður minnist á þá staðreynd að Sjálfstæðisflokkurinn liggur eins og mara á Framsóknarflokknum, eins og þegar háhyrningarnir eru að taka lítinn hnúfubakskálf. Þeir stökkva á hann og láta hann sökkva með þunga sínum niður í sjóinn þangað til allt verður myrkt fyrir augum hans. Það er nákvæmlega þannig sem Framsóknarflokknum líður núna þegar hann horfir framan í kannanirnar. Sjálfstæðisflokkurinn (Forseti hringir.) er búinn að höggva hann í spað eins og gamalt saltkjöt.