132. löggjafarþing — 76. fundur,  3. mars 2006.

Greiðslur til foreldra langveikra barna.

389. mál
[14:47]
Hlusta

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég velti því fyrir mér af hverju hv. þingmaður söng ekki í lok lofræðu sinnar um samstarfið: Áfram Kristsmenn, krossmenn. (DrH: Kannski gæti komið að því.)

Hins vegar er það ekki rétt hjá hv. þm. Drífu Hjartardóttur að ekkert hafi verið gert í þeirri ríkisstjórn sem ég sat í og naut þeirra forréttinda að starfa með hv. þm. Jóhönnu Sigurðardóttur, sem þá var félagsmálaráðherra. Þá var einmitt stigið fyrsta skrefið til þess að bæta kjör foreldra langveikra barna með umönnunarbótum. Það var fyrst þá sem það var gert.

Hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir hafði í framhaldi af því margvíslegar hugmyndir og tillögur til að gera hag þeirra og kjör enn betri. Það hafa menn séð í löngum straumum tillagna og alls konar þingmála, þótt sannarlega sé rétt hjá hv. þm. Drífu Hjartardóttur að þar hafa margir lagt hönd á plóg með henni.

Hins vegar hefur gengið mjög illa að ná einhverjum réttarbótum fram. Hér er fyrsta skrefið. Það er allt of stutt en samt mikilvægt skref að því leyti að það verður hlutskipti okkar, sem tökum við, að fylla betur út í þennan ramma. Þær hugmyndir höfum við sýnt í dag.

Frú forseti. Það er gaman að heyra hv. þm. Drífu Hjartardóttur tala um hve samstarfið milli Framsóknarflokksins og Sjálfstæðisflokksins sé svo gott. Það er eins og hún standi enn þá á sviðinu í Borgarleikhúsinu og sé að vinna enn einn leiksigurinn. Maður sér ekki einu sinni á henni þegar hún segir þetta að hún sé að segja eitthvað annað en hinn kórrétta sannleika. Hann felst hins vegar í því að ég man ekki eftir því að það hafi verið jafnstirt milli samstarfsflokka mjög lengi. Þar getur maður tekið hvert málið á fætur öðru, t.d. bara álmálið nýlega þar sem hæstv. viðskiptaráðherra var akkúrat höggvinn í spað eins og gamalt saltkjöt.