132. löggjafarþing — 76. fundur,  3. mars 2006.

Greiðslur til foreldra langveikra barna.

389. mál
[14:49]
Hlusta

Frsm. meiri hluta félmn. (Siv Friðleifsdóttir) (F):

Virðulegur forseti. Umræðan um þetta mál hefur verið góð og fróðleg. Menn hafa þó verið fullgagnrýnir eins og hér hefur komið fram. Ég vil draga fram að nefndin, sem vann það starf sem frumvarpið byggir á, komst að sameiginlegri niðurstöðu. Henni fylgdi bókun frá nokkrum aðilum, þ.e. frá Þórunni Sveinbjörnsdóttur, Rögnu K. Marinósdóttur og Jens Andréssyni. Mig langaði aðeins að minnast á þessa bókun af því að þar kemur fram kannski viðhorf þessara aðila til þessa áfanga sem er verið að stíga hérna.

Hér segir, virðulegi forseti:

„Nú þegar kemur að því að nefndin ljúki störfum vil ég láta eftirfarandi koma fram: Þessi niðurstaða sem nefndin er nú að skila af sér er mikilvægur áfangi á lengri leið til þess að tryggja réttarstöðu foreldra langveikra barna og þar með stöðu barnanna þannig að ásættanlegt sé.“

Þarna er þetta kallað mikilvægur áfangi. En það er líka sagt að þetta sé áfangi á lengri leið. Það höfum við líka alltaf sagt, að þetta sé áfangi á lengri leið. Það verður látið reyna á þessi lög og ég er viss um það að auðvitað verður þeim breytt í einhverjum atriðum í framtíðinni hvort sem um er að ræða greiðslurnar eða eitthvað annað, við sjáum það ekki fyrir. En þetta er mikilvægur áfangi og því skal haldið hér sérstaklega til haga.

Í umræðunni komu fram vangaveltur sem mig langar að fjalla um. Það var t.d. rætt um bæturnar, af hverju þær eru 93 þús. kr. en ekki einhver önnur upphæð? Því er til að svara, sérstaklega af því að það var verið að miða við atvinnuleysisbætur, að atvinnuleysisbætur í dag eru ekki 96 þús. kr., eins og gefið var í skyn áðan. Atvinnuleysisbæturnar hækkuðu um áramótin um 2,5% í um 93 þús. kr. En það hefur komið fram opinberlega að til stendur að hækka þær meira, um það er ákveðið samkomulag en það er ekki búið að hækka þær. Ég held að til þess þurfi líka lagabreytingu. Þessi upphæð var hækkuð úr 90 þús. kr., frá upphaflegum hugmyndum upp í 93 þús. kr., m.a. vegna hækkana á atvinnuleysisbótum. Í frumvarpinu stendur því núna talan 93 þús. kr.

Það kemur líka fram í frumvarpinu að upphæðin geti breyst miðað við fjárlög á hverju ári:

„Fjárhæð greiðslna skv. 1. mgr. kemur til endurskoðunar við afgreiðslu fjárlaga ár hvert með tilliti til þróunar launa, verðlags og efnahagsmála. Þá er félagsmálaráðherra heimilt, að fengnu samþykki ríkisstjórnar, að breyta fjárhæðinni til hækkunar ef verulegar breytingar verða á launaþróun og þjóðhagsforsendum frá afgreiðslu fjárlaga. Þegar framangreind skilyrði leiða til hækkunar á fjárhæð greiðslna skal félagsmálaráðherra breyta fjárhæðinni í reglugerð.“

Það er ákveðið svigrúm í frumvarpinu en varðandi það að ekki skyldi valin leiðin sem farin var í fæðingarorlofinu þá er mjög eðlilegt að spyrja um það. En ég vek athygli á því að væntanlega yrðu það hærri greiðslur. En það er nokkuð sem kemur til skoðunar þegar reynir á þetta kerfi í framtíðinni, hvort það eigi að fara úr því kerfi að hafa fasta greiðslu, eins og kerfið núna, fasta greiðslu upp á 93 þús. kr. en ekki prósentugreiðsla af launum eins og fæðingarorlofslögin gera ráð fyrir. Atvinnuleysisbæturnar hafa verið föst greiðsla en til skoðunar hefur komið að tengja atvinnuleysisbætur við prósentu af launum eins og er í fæðingarorlofsgreiðslunum. Það er önnur aðferð við að fara í þetta mál.

Varðandi réttindin var spurt af hverju aðrir aðilar væru ekki tilgreindir í frumvarpinu, t.d. þeir sem eru á atvinnuleysisbótum og aðrir hópar. Fá þeir greiðslurnar eða ekki? Þetta frumvarp byggist á fólki sem er á vinnumarkaði, sem er í starfi eða námsmenn. Hins vegar kemur fram í frumvarpinu að ráðherra geti skilgreint hvað sé samfellt starf. Aftast í greinargerðinni um 8. gr. segir, með leyfi forseta:

„Enn fremur er gert ráð fyrir að félagsmálaráðherra sé heimilt að skilgreina nánar hvað átt er við með samfelldu starfi.“

Rétt er að taka fram að í fæðingarorlofslögunum er sambærileg nálgun. Atvinnulausir eru þar skilgreindir í samfelldu starfi. En það er verið að skoða málin í félagsmálaráðuneytinu varðandi þessar skilgreiningar. Það kemur til skoðunar eins og fæðingarorlofslöggjöfin.

Hér hefur svolítið verið rætt um hve langan tíma hinar tímabundnu greiðslur eigi að ná yfir. Núna er hámarksrétturinn níu mánuðir, þegar búið er að þrepa inn öll réttindin. Það kemur fram í skýrslu nefndarinnar sem frumvarpið byggist á að könnun sýndi að foreldrar sem lögðu niður störf í kjölfar veikinda barna sinna voru að meðaltali sex mánuði frá vinnu. Það var miðgildið en frumvarpið byggir á hugmyndafræðinni um að þetta séu tímabundnar greiðslur. Þetta eru ekki endalausar greiðslur heldur eru þetta tímabundnar greiðslur. Þær hafa upphaf og endi og þær eiga að koma inn við bráðaaðstæður, þegar barn greinist. Því er eðlilegt að þeim ljúki á einhverjum tímapunkti. Í frumvarpinu er gert ráð fyrir að þeim ljúki eftir níu mánuði. Þess vegna er ekki, eins og ég heyri að stjórnarandstaðan er að ræða um, opið fyrir að hafa greiðslurnar í gangi meðan barn er veikt. Hugmyndafræðin á bak við þetta frumvarp er ekki greiðslur í anda umönnunargreiðslna sem eru í gangi í dag.

Umönnunargreiðslurnar í dag eru þannig að 100% greiðsla er rúmlega 90 þúsund eða 91 þús. kr. Þær greiðslur eru langvarandi greiðslur. Það á reyndar að endurmeta barn á fimm ára fresti en þær greiðslur eru langvarandi greiðslur. Við erum ekki að fara inn í sama kerfi við hliðina á umönnunargreiðslunum, nýtt kerfi sem ætti að gilda í mjög langan tíma eins og umönnunargreiðslur. Það er ekki hugmyndafræðin með þessu frumvarpi. Hugmyndafræðin er: Þetta eru bráðaaðstæður, ekki viðvarandi aðstæður. Þetta eru bráðaaðstæður. Þess vegna er skorið á réttindin og þeim lýkur níu mánuðum eftir að barn verður langveikt.

Hv. þm. Pétur Blöndal fór yfir ákvæðin sem var spurt um varðandi lífeyrissjóðina. Ég sé ekki ástæðu til þess að endurtaka það. Komið hefur verið inn á að starfið í félagsmálanefnd hafi verið sýndarmennska. Mig langar að gera athugasemd við það. Ég er algjörlega ósammála því. Þótt frumvörp taki ekki stórkostlegum breytingum í nefnd er starfið engin sýndarmennska. Það eru reyndar gerðar breytingar á frumvarpinu þótt þær breytingar séu alls ekki stórvægilegar. Ég ætla ekki að gera mikið úr henni. Það kom fram í nefndinni að sú breyting hefði í raun líklega mjög litla praktíska þýðingu af því að viðkomandi aðilar sem lenda í þessum aðstæðum munu hvort eð er velja fyrsta möguleikann, sem er sjúkrasjóðurinn. Ég skil ekki alveg af hverju menn gera svona mikið veður úr þessu, sem er ekki stórvægileg breyting.

Ég tel mjög mikilvægt — og mér er mjög annt um að halda því til haga sem formaður nefndarinnar — að nefndin starfi faglega og fái allar þær upplýsingar sem hægt er að fá og ég hef lagt mig fram um það. Ég verð því að viðurkenna að sú er hér stendur tekur það svolítið nærri sér þegar svona er sagt. Ég fullyrði að við unnum mjög vel að þessu máli eins og öðrum málum í nefndinni og þetta starf er sko alls ekki sýndarmennska. Við fengum alla gesti sem um var beðið, fjölda umsagna o.s.frv. Sumar þessara umsagna hafa áhrif á mann og aðrar ekki og það er bara eins og gengur og gerist.

Ég vil þakka hv. þm. Össuri Skarphéðinssyni fyrir að tala um að þetta sé áfangasigur, þessi niðurstaða hér. En hann spurði: Af hverju á ekki að framlengja þetta yfir þessa níu mánuði? Ég var einmitt að fjalla um það hérna áðan að þetta er tímabundin aðgerð. Þetta er ekki nýtt kerfi sambærilegt og umönnunargreiðslukerfið. Ef svo væri hefðum við bara getað breytt umönnunargreiðslukerfinu. Þetta er annað kerfi, þetta er tímabundið kerfi, tímabundnar greiðslur sem koma fram í bráðavanda.

Það kom líka fram hjá hv. þm. Össuri Skarphéðinssyni að það hefðu ekki komið fram nein rök varðandi breytingu meiri hlutans á að skilyrða greiðslurnar þannig að fyrst ættu foreldrarnir að fara til sjúkrasjóðanna og svo til ríkisins. Þetta er ekki rétt, ég dró einmitt hérna fram í máli mínu að það er í anda frumvarpsins að hafa reglurnar þannig af því að þetta er vinnumarkaðstengt. Það er verið að halda tengslum foreldranna við vinnumarkaðinn. Það er ekki verið að reyna að halda tengslum foreldranna við ríkið eða neitt með þeim hætti. Það er verið að reyna að halda tengslum foreldranna við vinnumarkaðinn og þá er eðlilegt að leita til sjúkrasjóðanna fyrst. Það eru sömu rökin fyrir því að það sé skoðað og það kemur fram í greinargerðinni að það er stefnt að því að Vinnumálastofnun höndli með þessi réttindi. Það kemur reyndar ekki fram í frumvarpinu beint, það er sagt að félagsmálaráðherra velji framkvæmdaraðila en í greinargerðinni stendur að það sé stefnt að því að það sé Vinnumálastofnun. Það er vegna þess að þetta eru vinnumarkaðsaðgerð. (JóhS: Hvað með fæðingarorlofið sem er hjá Tryggingastofnun?)

Já, það er mjög góð spurning: Af hverju er fæðingarorlofið hjá Tryggingastofnun, af því að það er eiginlega líka vinnumarkaðshugsun í því? Og samkvæmt því sem ég hef heyrt og það hefur reyndar komið fram í fjölmiðlum líka þá er einmitt verið að skoða hvort færa eigi þessar greiðslur frá Tryggingastofnun yfir til Vinnumálastofnunar, þannig að þetta eru alveg gild rök, af því að annaðhvort er maður að hugsa þetta sem vinnumarkaðsaðgerð eða sem veikindaaðgerð eða sjúkraaðgerð eða eitthvað sem fellur undir Tryggingastofnun. Mér finnst því mjög eðlilegt að Vinnumálastofnun komi til skoðunar í þessu sambandi af því að þetta er vinnumarkaðsaðgerð.

Varðandi tengsl og samráð við stéttarfélögin vil ég segja það að stéttarfélögin komu tvisvar á fund nefndarinnar og skiluðu inn umsögnum. Það var því ekki þannig að ekki væri talað við stéttarfélögin. Það var mikið talað við stéttarfélögin. Í seinni umferðinni þegar stéttarfélögin komu í annað skipti var sérstaklega kallað á þau til að ræða þetta með sjúkrasjóðina. Það var alveg sérstaklega hugsað af hálfu okkar í meiri hlutanum þegar við vildum fá stéttarfélögin á fundinn aftur og allir í nefndinni heyrðu það að við vorum að spyrja stéttarfélögin um þessi atriði: Af hverju ekki sjúkrasjóðirnir fyrst? Við vissum því algjörlega þeirra skoðun á því. Þetta er ekki tillaga sem þeir vildu fá hér fram, það er alveg ljóst. Þeir vildu hafa þetta opið, þeir vildu að foreldrarnir hefðu val um hvort þeir færu fyrst í sjúkrasjóðina eða fyrst til ríkisins. En það var hins vegar líka dregið fram í nefndinni að foreldrarnir mundu fara fyrst til sjúkrasjóðanna, það lægi bara í augum uppi af því að þar væru réttindin betri í langflestum tilvikum með litlum sem engum undantekningum eða mjög litlum undantekningum. Það kom því alveg fram að þetta væri ekki stór breyting og líklega engin breyting nema af praktískum ástæðum, en sjúkrasjóðirnir og stéttarfélögin vilja hafa þetta frelsi varðandi tengslin við löggjafann eða afskipti löggjafans og það er svo sem skiljanlegt að mörgu leyti. En þetta er ekki stór breyting.

Ég vil líka benda á í þessu sambandi, af því að ég tel þetta alls ekki vera svo stórfenglega breytingu að við þurfum að hafa áhyggjur af henni, að í nefndinni þar sem aðilar vinnumarkaðarins sátu, og ég ætla að lesa hverjir sátu í þessari nefnd svo að það sé bara alveg skýrt. Hanna Gunnsteinsdóttir formaður, Björk Vilhelmsdóttir, Brynhildur Jónsdóttir, Hrafnhildur Stefánsdóttir, Guðrún Ósk Sigurjónsdóttir, Jens Andrésson, Ingibjörg Georgsdóttir, Ragna Marinósdóttir og Þórunn Sveinbjörnsdóttir.

Nefndin segir í skýrslu sinni varðandi nákvæmlega þetta atriði:

„Jafnframt telur nefndin mikilvægt að sjúkra- og styrktarsjóðir stéttarfélaga tryggi félagsmönnum sínum rétt til greiðslna í a.m.k. þrjá mánuði vegna veikinda barna þeirra. Gerir nefndin ráð fyrir að foreldrar nýti rétt sinn hjá sjúkrasjóðnum a.m.k. fyrstu þrjá mánuðina af veikindum barnsins en síðan taki við þær greiðslur sem lagt er til að ríkið greiði til foreldra langveikra eða alvarlega fatlaðra barna.“

Þetta er það sem kom út úr nefndarstarfinu þannig að ég tel að það sé ekki um stórvægilega breytingu að ræða.

Ekki var ég nú fluga á vegg á fundi hæstv. félagsmálaráðherra og ASÍ en mér er kunnugt um að það var fundur þar sem ýmis mál voru rædd og þar á meðal þetta. En mér er líka fullkomlega kunnugt um afstöðu stéttarfélaganna því að sú afstaða kom skýrt fram í nefndinni og mér er alveg fullkomlega kunnugt um að þessi niðurstaða er ekki sú niðurstaða sem þeir hefðu kosið. Þeir hefðu kosið að hafa frumvarpið óbreytt. En þetta er sú niðurstaða sem meiri hlutinn kemst að og það er m.a. vegna þess að við teljum mikilvægt að viðhalda þessum tengslum við vinnumarkaðinn og við teljum að það sé eðlilegt að það sé alveg skýrt að fyrst komi sjúkrasjóðirnir, síðan komið ríkið en í praxís skipti það líklega nánast engu máli af því að menn hefðu hvort eð er leitað fyrst til sjúkrasjóðanna af því að réttindin eru betri þar.

Virðulegur forseti. Ég vil samt þakka fyrir mjög góða umræðu og fyrir starf nefndarmanna sem var félagsmálanefnd að mínu mati til mikils sóma í þessu máli. Við fórum vel yfir málið og skiljum að mínu mati mjög vel út á hvað það gengur, höfum misjafnar áherslur og það er ekkert skrýtið. Það liggur þannig í mörgum málum, stjórnarandstaðan vill gera betur óháð kostnaði, en það hækkar kostnaðinn að sjálfsögðu. Við viljum gera vel í stjórnarflokkunum og leggjum þess vegna til útgjöld, við erum hér að leggja til útgjöld upp á 150–170 milljónir, ef ég man rétt, til að taka þetta fyrsta skref. Það er alveg öruggt að þessi mál verða í sífelldri endurskoðun í framtíðinni. En mikilvægast er að sá hópur sem mest þarf á þessu að halda fái greiðslurnar og við setjum ekkert kerfi sem vinnur gegn þeim hópi.

Því miður er svolítið mikið til í því sem hv. þm. Pétur Blöndal sagði hérna áðan og hefur oft sagt að þegar verið er að bæta réttindi er tilhneigingin stundum — ég ætla alls ekki að fullyrða að það sé í þessu tilviki af því að þetta er auðvitað mjög þröngt skilgreindur hópur, langveik börn — en það er oft þannig þegar verið er að auka einhver réttindi að þá er tilhneigingin sú að menn teygi sig verulega varðandi þau réttindi og fleiri fá en kannski var að stefnt í upphafi. Þá getum við lent í því að það er erfiðara að hjálpa þeim sem virkilega þurfa á hjálp að halda af því að það verður svo dýrt þegar svo stór hópur fær greiðslurnar. Þetta er nú bara hinn kaldi raunveruleiki sem við búum við og þess vegna er mikilvægt að það sé eins skýrt og hægt er í hverju tilviki fyrir sig hvaða hópur á að njóta réttindanna og það sé skilgreint lagalega eins vel og hægt er, svo það verði sem minnst um grá svæði og sem fæst túlkunaratriði þegar sá hópur er valinn af þeim sem greiðslurnar inna af hendi.