132. löggjafarþing — 76. fundur,  3. mars 2006.

Greiðslur til foreldra langveikra barna.

389. mál
[15:10]
Hlusta

Jóhanna Sigurðardóttir (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil spyrja hv. síðasta ræðumann að því, af því að hún nefndi að það væri verið að breyta atvinnuleysisbótunum, m.a. að tekjutengja þær og hækka: Er það skoðun hv. þingmanns að þær greiðslur sem kveðið er á um í þessu frumvarpi eigi þá að fylgja atvinnuleysisbótunum þannig að þegar þær breytast þá mun hv. þingmaður væntanlega styðja það að þessar greiðslur taki þeim breytingum og verði tekjutengdar eins og við erum að leggja hér til?

Það er ekki rétt sem hv. þingmaður sagði hér áðan að ASÍ hefði lagt til að frumvarpið yrði óbreytt. Það lagði einmitt til að það tæki gildi í einu lagi en ekki í áföngum á þremur árum eins og margir aðrir umsagnaraðilar gerðu, m.a. Umhyggja, landlæknir, umboðsmaður barna o.fl., vegna þess að það er verið að mismuna fólki sem býr við sömu aðstæður allt eftir því hvenær barnið greinist með fötlun. Það jaðrar við að þetta sé brot á jafnræðisreglunni og ég spyr hv. þingmann um það hver skoðun hennar sé á því að verið sé að mismuna fólki sem býr við sömu aðstæður.

Varðandi tekjutenginguna sem við höfum verið að tala fyrir þá er þetta þannig á hinum Norðurlöndunum að það er greitt t.d. 90% af launum í Danmörku og það er greitt 100% af launum í Noreg í 260 daga og sömuleiðis er þetta líka tekjutengt í Finnlandi. Það er ríkissjóður þar sem greiðir þessar greiðslur þannig að fyrir þessu eru fordæmi.

Ég spyr líka hv. þingmann um Tryggingastofnun ríkisins. Telur hún eðlilegt að það sé verið að fara með viðkvæmar upplýsingar á milli stofnana, t.d. núna að koma þeim fyrir í Vinnumálastofnun þegar Tryggingastofnun er þegar með þessar upplýsingar fyrir hendi? Telur hv. þingmaður þetta forsvaranlegt að þeir aðilar sem eiga langveik börn þurfi að fara með þau til 14 aðila meðan þeir sem eignast heilbrigð börn þurfi að fara til tveggja aðila? Af hverju ekki að hafa framkvæmdina (Gripið fram í.) á þeim stað þar sem öll sérhæfing er til í þessu máli?