132. löggjafarþing — 76. fundur,  3. mars 2006.

Greiðslur til foreldra langveikra barna.

389. mál
[15:19]
Hlusta

Valdimar L. Friðriksson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Það var alls ekki ætlunin að særa hv. þm. Siv Friðleifsdóttur, formann félagsmálanefndar, og varla heldur ástæða til. En þegar ég talaði um að mér fyndist nefndarstarfið nánast vera sýndarmennska þrátt fyrir fjölda funda og fjölda gesta og vinnusemi formanns nefndarinnar og annarra nefndarmanna, þá er það kannski ekki það sem ég er að miða við heldur hitt hvort nefndarmenn hlusti á ábendingar og rök sem koma frá hagsmunaaðilum og noti þau til þess að bæta frumvarpið sem kemur frá ráðherranum. Þegar frumvarp kemur svona til nefndar eftir margar góðar og vel rökstuddar ábendingar sem menn hafa ekki hlustað á og hafa í sjálfu sér engin rök fyrir af hverju þær breytingar eru ekki teknar upp eða þær breytingartillögur studdar sem Samfylkingin leggur fram, þá virkar það þannig á mig, og má vera að það sé nýliðabrestur, að hér sé um algert ráðherraræði að ræða, þ.e. ráðherrann sendir frumvarp til nefndar og meiri hlutinn má ekki hreyfa neitt við því.

En ég ítreka það enn og aftur, það var alls ekki ætlunin að særa hv. þm. Siv Friðleifsdóttur, enda tel ég að hún sé jafnfögur bæði að utan sem innan.