132. löggjafarþing — 76. fundur,  3. mars 2006.

Greiðslur til foreldra langveikra barna.

389. mál
[15:20]
Hlusta

Frsm. meiri hluta félmn. (Siv Friðleifsdóttir) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þetta er nú bara það fallegasta sem ég hef heyrt í lengri tíma, svei mér þá. (Gripið fram í.) Það er gott að heyra að ekki var verið að hnýta í störf nefndarinnar af því að ég tel að störfin hafi verið mjög góð og þar hefur hv. þm. Valdimar L. Friðriksson staðið sig með mikilli prýði og lagt sig fram um að leggja gott eitt til í þeirri nefnd. Störf nefndarinnar hafa því gengið vel.

Í nefndinni komu fram ýmis rök sem við höfum farið yfir hér í allan dag. Ábendingar hafa komið fram og hagsmunaaðilar komu með ýmsar hugmyndir um hvað mætti betur fara, hærri greiðslur, lengri tíma o.s.frv. og við erum búin að rökræða það í allan morgun. En niðurstaða meiri hlutans er sú að við gerum þessa einu breytingu sem búið er að lýsa hér í löngu máli og reyndar aðra breytingu sem er tæknilegs eðlis. Við teljum að þetta sé geysilega mikið framfaramál, skipti foreldra langveikra barna mjög miklu máli, en þetta er skref á lengri leið og það eru allir sammála um það.

Ég vil ekki fallast á að í málinu hafi verið neitt ráðherraræði, af því að nokkrum sinnum var komið inn á það hér, alls ekki. En þegar verið er að fjalla um mál þarf auðvitað að ná samstöðu um þau meðal þingmanna og flokka. Í þessu máli get ég fullyrt að það var ekkert ráðherraræði sem stýrði því. Ekki var ráðherrann að leggja til þessa breytingu sem meiri hlutinn leggur til núna. Það er ekki frá hæstv. ráðherra sprottið, alls ekki. Ég tel því að þessi ráðherraumræða sé algjörlega óþörf.