132. löggjafarþing — 76. fundur,  3. mars 2006.

Tannlækningar.

252. mál
[15:46]
Hlusta

Pétur Bjarnason (Fl):

Herra forseti. Þar sem einn af flutningsmönnum þessa frumvarps, hv. þm. Magnús Þór Hafsteinsson, er upptekinn á fundi mun hann ekki tjá sig um það. Ég kem upp til þess að ítreka að Frjálslyndi flokkurinn stendur heils hugar að frumvarpinu og ég fagna því að það er komið fram. Ég þekki þessi mál frekar lítið en það hefur verið mjög fróðlegt að hlusta á greinargerð sem hv. flutningsmaður, Jón Gunnarsson, hefur haft hér frammi. Það kemur okkur sem leikmönnum á óvart að eitt skuli vera gjaldskrá sem tannlæknar nota sér til tekna og annað skuli vera gjaldskrá sem er til endurgreiðslu, og að mismunurinn á þessu tvennu geti verið um þriðjungur. Það er æði mikið, ekki síst fyrir barnafjölskyldur, ellilífeyrisþega og aðra sem lítið hafa handa á milli. Eins er tafla með norrænum samanburði afskaplega fróðleg.

Ég fagna því að þetta frumvarp er komið fram. Ég trúi ekki öðru en að um það náist samstaða. Það eru, held ég, flestir sammála um að lög, reglur og fyrirmæli af þessu tagi eigi að vera sjálfum sér samkvæm og gagnsæ.