132. löggjafarþing — 76. fundur,  3. mars 2006.

Tannlækningar.

252. mál
[15:47]
Hlusta

Flm. (Jón Gunnarsson) (Sf):

Herra forseti. Ég vil þakka þeim hv. þingmönnum sem hafa tekið þátt í umræðunum um þetta frumvarp til laga um breytingu á lögum um tannlækningar. Ég spurði ráðherra út í það á síðasta þingi hvað tannlæknar rukkuðu fyrir þjónustu sína og hvernig það passaði við þá gjaldskrá sem ráðherra og ráðuneyti notuðu og Tryggingastofnun borgaði eftir. Ég varð fyrir afskaplega miklum vonbrigðum með að sjá hve lítið samræmi var á milli þeirrar gjaldskrár sem ráðuneytið notaði og þeirrar frjálsu gjaldskrár sem tannlæknar höfðu sett sér.

Tannlæknar mega ekki hafa samráð og hver og einn tannlæknir setur gjaldskrá fyrir þjónustu sína. Það er kannski eitt af því góða sem kom út úr svarinu að það er alveg ljóst að talsvert mikil breidd er í verðlagningu þeirra. Það er því augljóst að tannlæknar hafa ekki sammælst um einhverja ákveðna frjálsa gjaldskrá sem er einhverjum ákveðnum prósentum hærri en gjaldskrá ráðherrans. Í flestum tilvikum var það þó þannig að gjaldskrá tannlækna, hin frjálsa gjaldskrá, var töluvert hærri en gjaldskrá ráðherra en dæmi voru um að tannlæknar væru á eða undir gjaldskránni sem ráðherra miðaði við. Það kom fram í svari ráðherra á síðasta þingi að einhverjir tannlæknar voru lægri en viðmiðunargjaldskráin en aðrir, og þá sérstaklega sérfræðingar, voru u.þ.b. helmingi dýrari en sú gjaldskrá. Þá er nú aldeilis farið að muna fyrir þá sem eiga von á endurgreiðslu. Menn gera sér kannski ekki grein fyrir því fyrr en aðgerðinni er lokið og reikningurinn liggur fyrir að miðað er við gjaldskrá sem er helmingi lægri. Þá fyrst gerir sjúklingurinn sér kannski grein fyrir því að hann þarf að borga u.þ.b. helminginn af reikningnum vegna þess mikla munar sem er á gjaldskránni sem ráðherra notar og gjaldskrá viðkomandi tannlæknis.

Það er til vansa fyrir heilbrigðisráðuneytið og hæstv. ráðherra að ekki skuli meira lagt í að reyna að ná einhverri niðurstöðu um að þessi viðmiðunargjaldskrá sé færð nær raungjaldskrá tannlækna. Á sínum tíma, þegar reynt var að ná samkomulagi um þetta, slitnaði upp úr þeim viðræðum, það náðist ekki niðurstaða um þessa viðmiðunargjaldskrá og síðan hefur hún í raun og veru ekki fylgt verðlagshækkunum, hún hefur ekki fylgt þeim kostnaðarhækkunum sem orðið hafa í landinu, hvorki í launum né öðrum kostnaði, þannig að hún hefur frekar verið að dragast aftur úr heldur en hitt. Því hljótum við að velta fyrir okkur hvort ekki sé kominn tími til þess fyrir hæstv. heilbrigðisráðherra og heilbrigðisráðuneytið að slá í klárinn og reyna að færa þessa gjaldskrá nær raunveruleikanum en vera ekki að miða við einhverja gjaldskrá sem er þar langt frá.

Ég hefði haldið, eins og hv. þm. Hlynur Hallsson, að tannlæknar mundu fagna því að hafa tækifæri til að láta neytendur vita, t.d. á heimasíðu sinni, þannig að menn gætu kannað það heima hjá sér, hver kostnaður við algengustu aðgerðir er. Það er alveg ljóst að aldrei verður hægt að birta einhverja gjaldskrá sem er míla á lengd þar sem allar aðgerðir sem tannlæknar bjóða upp á eru taldar upp. En alla vega ættu notendur að geta gert sér grein fyrir því út frá einhverri grunngjaldskrá hvernig viðkomandi tannlæknir verðleggur þjónustu sína og borið það saman við grunngjaldskrá einhvers annars. Ef um er að ræða flóknar og miklar aðgerðir trúi ég ekki öðru en að fólk reyni að leita eftir því hvað hún kemur til með að kosta. Ég trúi ekki öðru en að tannlæknirinn sinni þeirri skyldu sinni, eins og Samkeppnisstofnun hefur mælst til, að ef gert er ráð fyrir því að sú aðgerð kosti meira en 100 þús. kr. þurfi hann að leggja fram skriflega áætlun um verkið og gera notendunum grein fyrir því áður en aðgerðin hefst hve dýr hún verður.

Samanburðurinn við hin Norðurlöndin sýnir að þar meta menn það svo að tannlæknirinn þurfi að skila slíkri skriflegri áætlun þegar um er að ræða aðgerð sem kostar 20–25 þús. kr. Af hverju er miðað við 100 þús. kr. á Íslandi þegar tannlæknar í Danmörku, Svíþjóð og Noregi þurfa að leggja fram skriflega kostnaðaráætlun og gera sjúklingnum grein fyrir kostnaði ef gert er ráð fyrir að aðgerðin fari yfir 20–25 þús. kr.? Af hverju 100 þús. kr. á Íslandi? Af hverju er ekki hægt að breyta þeirri viðmiðun? Það getur Samkeppnisstofnun gert, það þurfum við ekki að gera í lögunum.

Flutningsmenn þessa frumvarps, og það kemur fram í greinargerð, gera sér grein fyrir því að auglýsingar geta hækkað verð á þjónustu. Sá sem veitir þjónustuna þarf aftur að ná inn kostnaði sem hann verður fyrir. Því er gert ráð fyrir að ráðherra verði heimilt að takmarka auglýsingaskylduna við algengustu liði gjaldskrárinnar, að tannlæknar þurfi ekki að auglýsa alla gjaldskrána þar sem sá kostnaður gæti reynst óhóflegur og íþyngjandi. Í frumvarpinu og greinargerðinni er því gert ráð fyrir því að reyna að draga úr þessum kostnaði eins og hægt er en ná samt sem áður því grundvallarmarkmiði að upplýsingarnar séu aðgengilegar á einum stað, menn viti að þeir geti sótt slíkar upplýsingar til t.d. Tannlæknafélags Íslands, Tryggingastofnunar, Neytendasamtakanna eða einhverra slíkra stofnana. Ef ég ætlaði að fara með barnið mitt til tannlæknis og ætti rétt á 50% endurgreiðslu gæti ég kannað fyrir fram hvort sú væri raunin ef ég færi til tannlæknis a eða tannlæknis b. Ég þyrfti ekki að fara í algerri blindni og vakna við það eftir á að reikningurinn, sem ég hélt ég fengi helminginn endurgreiddan af, væri það hár að ég fengi ekki nema 30% endurgreiðslu og þyrfti að borga 70% sjálfur.

Enn og aftur þakka ég þá góðu umræðu sem hér hefur orðið. Ég vona satt að segja að þetta frumvarp fái afgreiðslu í heilbrigðis- og trygginganefnd, hef ákveðnar vonir um að svo verði vegna þess að meðal flutningsmanna eru margir þeir sem sitja í þeirri nefnd. Ég hlakka til að sjá umsagnir sem berast, hvort sem það verður frá Neytendasamtökunum, Félagi eldri borgara, tannlæknum eða samtökum þeirra eða hverjum þeim sem gefst tækifæri á að senda inn umsagnir. Í ljósi viðbragða, sem ég lýsti í fyrri ræðu minni, frá einstaka tannlæknum og samtökum þeirra hlakka ég ákaflega mikið til umræðunnar um þetta frumvarp.