132. löggjafarþing — 76. fundur,  3. mars 2006.

Uppbygging héraðsvega.

310. mál
[16:11]
Hlusta

Hlynur Hallsson (Vg):

Herra forseti. Hér erum við að ræða tillögu til þingsályktunar um átak í uppbyggingu héraðsvega sem þrír þingmenn Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs leggja fram. Þessi þingsályktunartillaga er einföld en fylgt afar ítarlega og vel eftir í góðri greinargerð.

Nú hef ég setið á þingi í nokkrar vikur sem varamaður og hef orðið átakanlega var við það hversu mikilvægar samgöngur eru fyrir hinar dreifðu byggðir. Þetta er eitt af þeim málum sem liggur fólki einmitt á hjarta. Ég held að ég hafi fengið um þrjú bréf bara á síðustu vikum frá fólki og félagasamtökum þar sem beðið er um að þrýst verði á að ákveðnum vegarköflum sé betur haldið við. Þetta er mjög skiljanlegt vegna þess að oft er fólk að reyna að byggja upp ferðaþjónustu á hinum ýmsu fallegu en jafnvel afskekktum stöðum. Hins vegar eru vegirnir þangað grundvöllur fyrir því að fá ferðamenn á staðina. Stundum eru þessir vegir alveg í skelfilegu ástandi. Það er eins og að detta bara 50 ár aftur í tímann að keyra á holóttum vegum sem væri í raun mjög auðvelt að halda miklu betur við. Ég er viss um að bara það að leggja mikla áherslu á að setja bundið slitlag á þessa vegi mundi spara Vegagerðinni peninga þegar til lengri tíma er litið vegna viðhaldskostnaðar.

Sem betur fer hefur verið gert heilmikið í þessum málum. En betur má ef duga skal. Í greinargerðinni eru hvorki meira né minna en 15 fylgiskjöl þar sem þetta er stutt ítarlega. Þetta eru bréf frá sveitarstjórnum og sveitarfélögum, frá einstaklingum líka og ábúendum á mörgum jörðum sem eru að reyna að byggja upp atvinnu með ferðaþjónustunni, sem er mikilvægt, þ.e. að reyna að byggja á því sem er fyrir á staðnum og leggja áherslu á það vegna þess að eins og við vitum verður það nú aldrei að álver komist í hvern fjörð eins og sumir stefna að, þ.e. þessi ríkisstjórn. Þetta mál er dæmi um það hvernig hægt er að byggja upp vegi og þar með auka atvinnusköpun á þessum svæðum. Þess vegna held ég að þetta sé hið besta mál og ég vona innilega að það fái skjótan framgang í þinginu.