132. löggjafarþing — 76. fundur,  3. mars 2006.

Uppbygging héraðsvega.

310. mál
[16:14]
Hlusta

Drífa Hjartardóttir (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég vil nú taka undir margt sem hv. þingmaður hafði fram að færa í sinni ræðu. Ég dreg ekki úr mikilvægi þess að svo sannarlega þarf að bæta malarvegina okkar vegna þess að við erum að flytja börn í skóla eftir þessum vegum og fólk er að sækja sér vinnu og það þurfa að vera góðar samgöngur. Samgöngur eru sá málaflokkur sem mest er talað um á öllum fundum. Það er kannski vegna þess að allt gengur svo vel í þessu landi og kröfurnar verða alltaf meiri og meiri. Það er ósköp eðlilegt.

Ég vil bara halda því til haga hér að aldrei hefur verið gert annað eins í samgöngumálum Íslendinga og núna síðustu ár, aldrei nokkurn tíma. Við höfum aldrei séð meira gert af því að malbika vegi og breikka þá. Við erum að útrýma einbreiðum brúm, sem betur fer. Þær eru, að ég tel, flestar í mínu kjördæmi núna í Hornafirði. Þar eru þær mjög margar en þeim hefur verið að fækka. En það er eins og með annað það sem gert er að það tekur helst enginn eftir því. Síðan er náttúrlega verið að bæta vegina og gera jarðgöng. Ég vil bara halda því til haga að aldrei hefur verið gert annað eins til að bæta samgöngur og bæta öryggi í umferðinni og núna síðustu ár.