132. löggjafarþing — 76. fundur,  3. mars 2006.

Uppbygging héraðsvega.

310. mál
[16:17]
Hlusta

Drífa Hjartardóttir (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Enn getum við bara verið þokkalega sammála, ég og hv. þingmaður. (EMS: Það er aldeilis.) Við erum nú öll hér oft sammála í þessu og ég held að (Gripið fram í.) við séum flest afskaplega sammála í samgöngumálum. Ég svo sannarlega fagna þeim jarðgöngum sem hafa verið gerð í kjördæmi hv. þm. Einars Más Sigurðarsonar, (EMS: Alveg til fyrirmyndar.) sem er hér að kalla fram í, og ég veit að Austfirðingar eru ánægðir með þau. Það sama má segja um Almannaskarðsgöngin. Allt eru þetta miklar vegabætur.

En meðan verið er í stórum framkvæmdum verða hin smærri út undan. En ég er alveg á því að um leið og við mögulega getum eigum við að leggja mikla áherslu á að bæta vegina, bæta héraðs- og tengivegina. Þeir vegir eru lífæðar í hverju héraði og ég get svo sannarlega tekið undir þetta allt.

Ég er alveg viss um að þegar stærstu verkefnin eru búin, ef ég tek mitt kjördæmi, tvöföldun Reykjanesbrautar, og búið að tvöfalda veginn yfir Hellisheiði og frá Hveragerði að Selfossi, þá kemur að hinum vegunum sem svo sannarlega er þörf á. Ég held að við eigum að heita okkur því að koma því í framkvæmd og láta það ekki dragast of lengi því það er mjög þjóðhagslega hagkvæmt að hafa góðar samgöngur.