132. löggjafarþing — 76. fundur,  3. mars 2006.

Uppbygging héraðsvega.

310. mál
[16:19]
Hlusta

Hlynur Hallsson (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Já, það er gott að hv. þingmaður Sjálfstæðisflokksins, Drífa Hjartardóttir, er okkur í Vinstri hreyfingunni – grænu framboði sammála í þessum málum og hárrétt hjá hv. þingmanni að oft erum við sammála í samgöngumálum. Hins vegar kom aðeins fram hjá hv. þingmanni þetta um forgangsröðunina og þingsályktunartillagan kemur einmitt inn á það.

Ég les það hérna beint, með leyfi forseta:

„Sérstaklega skal hugað að lagningu bundins slitlags á þessa vegi. Til þess verði varið a.m.k. 4 milljörðum kr. sem dreifist jafnt á næstu fimm ár. Komi sú fjárveiting til viðbótar þeim fjármunum sem ætlaðir eru þessum vegaflokkum í núgildandi samgönguáætlun.“

Eins og staðan er í dag sé ég ekki fram á það. Ég var einmitt farinn að vona að eftir þessar ferlegu framkvæmdir við Kárahnjúka og alla þá sprengingu mundi fara að róast aðeins í hagkerfinu og þá þyrftum við einhverja innspýtingu í vinnu og slíkt og menn mundu einhenda sér í að fara í samgöngubætur. Þessi tillaga miðar einmitt að því. Nú er hins vegar verið að tala um tvö álver í viðbót og þá getur maður farið að velta fyrir sér: Bíðum nú við, verður þá ekki gert eins og fyrir þremur árum, rétt eftir kosningar, að sagt verður: Ja, bíðum aðeins við, núna þurfum við að hægja á okkur, núna þurfum við að skera niður og fresta framkvæmdum. Það finnst mér því miður dapurleg framtíðarsýn, herra forseti.