132. löggjafarþing — 76. fundur,  3. mars 2006.

Uppbygging héraðsvega.

310. mál
[16:35]
Hlusta

Mörður Árnason (Sf) (andsvar):

Forseti. Ég hef fylgst af áhuga með þessum umræðum og blaðað í þeim gögnum sem fylgja þingsályktunartillögunni sem hér er rædd. Hér er t.d. bréf frá sveitarstjórn Þingeyjarsveitar þar sem brúnni yfir Skjálfandafljót í Útkinn er lýst en hún var byggð árið 1935, er 196 metrar að lengd og einbreið. Burðargeta hennar var miðuð við múgfjölda, eða 400 kíló á hvern fermetra, þannig að brúin þoli það að fjórir þéttholda karlar standi á einum fermetra. Maður sér fyrir sér þegar Kinnungar eru komnir á brúna og standa fjórir á hverjum fermetra. Það yrði mikil sjón og merkileg.

Ég vil hins vegar, um leið og ég fagna þessari merku umræðu um héraðsvegi, eða safn- og tengivegi, spyrja flutningsmanninn að því, án þess að draga úr mikilvægi málsins, hvort ekki væri nær í framtíðinni að þessi gerð af vegum væri á sveitarstjórnarstiginu þannig að sveitarstjórnirnar sjálfar hefðu um það að segja og létu gera þessa vegi og bæru af því kostnað, auðvitað með einhvers konar heildarsamræmingu sem skipulagslög gætu væntanlega tryggt. Mér sýnist að heimamenn sjái langbest, sé það á bréfum hér, hvar skórinn kreppir í þessum efnum og væri nær að þetta væri hjá sveitarstjórnum frekar en vélað sé um það í samgönguráðuneytinu og á Alþingi Íslendinga.