132. löggjafarþing — 76. fundur,  3. mars 2006.

Uppbygging héraðsvega.

310. mál
[16:37]
Hlusta

Flm. (Jón Bjarnason) (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Merði Árnasyni fyrir góðar undirtektir við málið í heild. Burðarþolsgeta vega og brúa á sínum tíma, eins og hann var að lýsa hér, hefur staðist býsna vel. Sá mælikvarði sem oft og tíðum var notaður þá hefur reynst býsna góður og margar af þessum brúm frá fyrri áratugum hafa reynst óhemjulega endingargóðar, og mætti sjálfsagt af því læra nú á tímum.

En varðandi það hverjir eiga að fara með forsjá þessara vega þá er í sjálfu sér ekki verið að taka á því máli í þessari tillögu. Eins og málum er nú háttað heyrir þetta undir ríkið og vegáætlun eins og hv. þingmaður kom inn á. Hvort sem þessir vegaflokkar eru á höndum sveitarfélaga eða ríkisins þá vantar sárlega fjármagn til þeirra. Ég held að það sé mjög óvarlegt að ætla að taka þessa ábyrgð frá ríkinu því að í hlut eiga strjálbýlustu hrepparnir þar sem vegalengdir eru lengstar. Þegar grunnskólarnir voru færðir yfir til sveitarfélaganna urðu þessir sömu hreppar hvað harðast úti. Þeirri verkaskiptingu fylgdu alls ekki tekjustofnar. En verkaskiptingin er í sjálfu sér annað mál. Það skiptir mestu máli að gera þarf stórátak í samgöngumálum innan héraða víða um land í skipulagi sveitavega, sem ég kalla svo, eða héraðsvega. Að því miðar þessi tillaga.