132. löggjafarþing — 77. fundur,  6. mars 2006.

Yfirlýsing Alcan um lokun álversins í Straumsvík.

[15:10]
Hlusta

Ögmundur Jónasson (Vg):

Hæstv. forseti. Ég vil biðja hæstv. forsætisráðherra að kynna sér þær samþykktir sem gerðar hafa verið í Orkuveitu Reykjavíkur. Þegar hann hefur gert það mun hann hætta þessum tilraunum til útúrsnúninga. (Forsrh.: Geturðu upplýst okkur um þær?)

Hitt finnst mér vera áhyggjuefni af hve mikilli léttúð og hve miklu alvöruleysi hæstv. forsætisráðherra fyrir hönd ríkisstjórnarinnar tekur á þessum málum og hann svarar því ekki þegar þeirri spurningu er beint til hans hvort stefna ríkisstjórnarinnar um að gera þriðjung af efnahagsstarfsemi á Íslandi feli ekki í sér hættur og hvort þetta sé ekki áminning um þær hættur þegar stórfyrirtæki, auðhringur á borð við Alcan setur okkur stóllinn fyrir dyrnar á þann hátt sem hér hefur verið upplýst um.