132. löggjafarþing — 77. fundur,  6. mars 2006.

Yfirlýsing Alcan um lokun álversins í Straumsvík.

[15:11]
Hlusta

forsætisráðherra (Halldór Ásgrímsson) (F):

Frú forseti. Það hefur verið stefna ríkisstjórnarinnar að styðja atvinnuuppbyggingu í landinu og skoða alla möguleika í því sambandi. Við teljum að það skipti svo miklu máli að sem flestir hafi atvinnu í þessu landi að við tökum því ekki af neinni léttúð þegar verið er að tala um ný störf. Ég heyri að hv. þingmaður Ögmundur Jónasson vill taka það af léttúð og útiloka ákveðna hluti, það megi ekki einu sinni ræða þá. Það finnst mér vera ábyrgðarleysi gagnvart hinum vinnandi manni í þessu landi. En ég skora á hv. þingmann að upplýsa Alþingi um allar þessar bókanir Vinstri grænna í Reykjavík þannig að við vitum hverjar þær eru. Ég hef ekki heyrt um þær og ég vona að þeim hafi ekki verið stungið undir stól en ég vildi gjarnan fá að sjá þær.