132. löggjafarþing — 77. fundur,  6. mars 2006.

Útgáfa starfsleyfa til stóriðju.

[15:20]
Hlusta

Jóhann Ársælsson (Sf):

Hæstv. forseti. Það er þá alveg skýrt að hæstv. ráðherra er að segja okkur að það eigi að reikna út meðaltalið. En þetta sé ekki meðaltal innan ársins. Þetta þýðir að hæstv. ráðherra virðist vera sátt við að gefa út starfsleyfi þegar kemur til loka þessa tímabils, til fyrirtækja sem væru að framleiða fram yfir íslenska ákvæðið þannig að Íslendingar gætu þá ekki skrifað undir nýtt samkomulag sem yrði samhljóða því sem var skrifað undir síðast. Ég spyr hæstv. umhverfisráðherra: Er hún tilbúin að skrifa undir slíkt ef á á að herða? Ég spyr líka: Telur umhverfisráðherra að það sé viðunandi staða sem hún er í, ef menn ákveða að flytja inn mengunarkvóta að þá sé hægt að gera það endalaust? Og að óbreyttum lögum verði hæstv. umhverfisráðherra að skrifa undir starfsleyfi til allra fyrirtækja sem sækja um að fá að framleiða ál á Íslandi svo framarlega sem þeir flytji inn mengunarkvóta fyrir þeirri starfsemi sem þeir eru með? Er það viðunandi (Forseti hringir.) að mati hæstv. ráðherra?