132. löggjafarþing — 77. fundur,  6. mars 2006.

Skatttekjur af umferð.

[15:29]
Hlusta

Kristján L. Möller (Sf):

Frú forseti. Ég verð auðvitað líka taka undir að ég er sammála því að hæstv. fjármálaráðherra kann að reikna. Reikna upp skatta á landsmenn. Hann og hæstv. ráðherra og fyrrverandi fjármálaráðherra, núverandi formaður Sjálfstæðisflokksins, eru snillingar að reikna upp skatta, samanber það sem kemur hér fram. Skattahækkanir á umferð og bílainnflutningi sem hafa orðið síðastliðin 10 ár eru líklega heimsmet. Við höfum verið að ræða hér um aðra skatta á almenning í landinu, hvernig þeir hafa verið reiknaðir upp og hafa stórhækkað, sem hefur verið staðfest af prófessorum og öðrum og nýlega í Ríkisútvarpi allra landsmanna. Þó svo að hæstv. ráðherra hafi skrifað þeim og mótmælt því.

En virðulegi forseti. Þótt það komi hér fram hjá hæstv. ráðherra að kannski verði fjögurra krónu afsláttur af hverjum olíulítra vegna olíugjalds framlengdur þá spyr ég auðvitað um þessa ofurskatta vegna þess að þeir leggjast mjög misjafnt á fólk, t.d. er það ljóst að áður en þungaskattinum var breytt yfir í olíugjald þá hækkaði hann mjög mikið og olíugjaldið er líka svimandi hátt. Þetta leiðir til stórhækkunar flutningskostnaðar (Forseti hringir.) hér innan lands og ég hlýt að spyrja ráðherra hvort þetta komi ekki til tals vegna þess að það hefur verið rætt innan ríkisstjórnarinnar (Forseti hringir.) að lækka þessa flutningsskatta af umferð.