132. löggjafarþing — 77. fundur,  6. mars 2006.

Skatttekjur af umferð.

[15:32]
Hlusta

Kristján L. Möller (Sf):

Frú forseti. Það er sannarlega samræmi í málflutningi núverandi og fyrrverandi hæstv. fjármálaráðherra hvað það varðar að sækja tekjur ríkissjóðs og skattleggja eins og raun ber vitni um.

Virðulegi forseti. Ég spyr t.d. um það og hef ekki fengið svar við því, vegna þess að rætt var um það innan ríkisstjórnarinnar fyrir síðustu kosningar að lækka t.d. álögur á flutningskostnaði. Ég tók dæmi um þungaskattinn, ég tók dæmi um olíugjaldið. Það hefur verið fjallað um þetta innan ríkisstjórnarinnar, þrjú ráðuneyti voru látin skila skýrslu rétt fyrir kosningar. Hæstv. iðnaðarráðherra hefur hins vegar sagt að hún hafi gefist upp á því að berjast fyrir lækkun flutningskostnaðar, svo ég taki bara það dæmi, vegna andstöðu Sjálfstæðisflokksins í ríkisstjórninni. (Viðskrh.: Ég hef aldrei sagt það.) Það hefur komið þar fram. Þess vegna er eðlilegt að spyrja hæstv. fjármálaráðherra, sem er með ríkissjóð þar sem flæðir núna út úr af skatttekjum af umferð, þar með talið af flutningskostnaði, hvort ekki sé ráð að fara þá leið að lækka þessa skattheimtu og auðvelda þar með t.d. rekstrarskilyrði fyrirtækja á landsbyggðinni sem eiga mjög í vök að verjast núna út af þessum svimandi háu flutningsgjöldum. (Forseti hringir.) Auðvitað fer þetta líka beint út í verðlag til fólks.