132. löggjafarþing — 77. fundur,  6. mars 2006.

Skatttekjur af umferð.

[15:33]
Hlusta

fjármálaráðherra (Árni M. Mathiesen) (S):

Frú forseti. Eins og kom fram í frammíkalli frá hæstv. viðskiptaráðherra fór hv. síðasti ræðumaður með rangt mál hér í ræðustólnum (KLM: Það er ekki rétt.) hvað varðar flutningskostnaðinn.

Hv. þingmaður nefndi áðan að sennilega væri um heimsmet að ræða í auknum álögum á umferðina. Ég get svo sem ekki fullyrt um það, (KLM: Enda dálítið …) ég ætla hins vegar ekki að fullyrða um nein önnur heimsmet. Ég ætla hins vegar að fullyrða að það sé mjög erfitt, og hv. þingmaður þarf að leita um langan veg og sennilega jafnvel í langan tíma, til að finna aðra eins stöðu hvað varðar hagvöxt og kaupmáttaraukningu og þá sem hér hefur verið á undanförnum árum. Það er hún sem er að koma fram í hinum auknu tekjum hjá okkur. Við gerum hins vegar líka ráð fyrir því í langtímaáætlun í ríkisfjármálum að þessi mikli hagvöxtur verði ekki viðvarandi næstu árin og þá munum við þurfa á öllum okkar tekjum að halda plús það sem við höfum þegar lagt til hliðar til að halda uppi framkvæmdum á næstu árum til þess að geta (Forseti hringir.) haldið áfram að bæta kjör landsmanna.