132. löggjafarþing — 77. fundur,  6. mars 2006.

Vatnalög.

268. mál
[16:17]
Hlusta

Frsm. meiri hluta iðnn. (Birkir Jón Jónsson) (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég taldi að í máli mínu áðan hefði ég gert ítarlega grein fyrir því að aðgengi almennings að vatni yrði ekki skert samkvæmt þessu frumvarpi. Hv. þm. Ögmundur Jónasson kemur hér upp og lætur að því liggja að verið sé að skerða réttindi almennings hvað varðar aðgengi að vatni. Ég fór yfir það áðan, hæstv. forseti, hvert aðgengi almennings er að neysluvatni. Ég fór yfir það áðan hvaða breyting hefði verið gerð á frumvarpinu á milli 131. og 132. löggjafarþings. (ÖJ: Þær eru ekki miklar.) Ég fór yfir það. Þar er talað um það, hæstv. forseti, að almannaréttur standi óhaggaður hvað varðar aðgengi að vatni. Hv. þm. Ögmundur Jónasson kemur hér upp og dylgjar um að hér sé hugsanlega verið að skerða réttindi almennings að vatni. Það er beinlínis rangt. Ég fór yfir það í upphafsorðum mínum og ég bið hv. þingmann í þeirri miklu umræðu sem fram undan er að sýna mér og þingheimi fram á það hvernig í ósköpunum verið er að skerða réttindi almennings hvað varðar aðgengi að vatni. (ÖJ: Alveg sjálfsagður hlutur.)