132. löggjafarþing — 77. fundur,  6. mars 2006.

Vatnalög.

268. mál
[16:20]
Hlusta

Hlynur Hallsson (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Við fórum ítarlega yfir það í störfum nefndarinnar og við ræddum þetta mál einmitt mjög oft. Það var formaður Lögmannafélagsins, Jóhannes Rúnar Jóhannesson, (Gripið fram í: Formaður laganefndar.) formaður laganefndar Lögmannafélagsins, sem sagði okkur frá því þegar hann fékk þá beinu spurningu hvort ríkið yrði bótaskylt að einhverju leyti gagnvart landeigendum ef vatnið yrði skilgreint sem sameign þjóðarinnar. Formaðurinn sagði nei, hann væri mjög efins um það. Um þetta snýst málið að verulegu leyti, hvort hægt sé að segja að ríkið sé bótaskylt að einhverju leyti ef hlutirnir eru látnir vera eins og þeir hafa verið frá 1923 með þeim ágætu lögum sem þá voru samþykkt og hafa dugað okkur vel hingað til.