132. löggjafarþing — 77. fundur,  6. mars 2006.

Vatnalög.

268. mál
[16:23]
Hlusta

Frsm. minni hluta iðnn. (Jóhann Ársælsson) (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Mér finnst hv. formaður nefndarinnar vera að sveipa málið í einhverja þoku og vitleysisgang. Ég veit ekki til þess að neinn úr minni hlutanum hafi nokkurn tíma lagt það til að þrengt verði að réttindum þeirra sem hafa réttindi til vatns í landinu. Við höfum bara talað um að halda óbreyttum þeim réttindum sem menn hafa haft. Það sem verið er að gera með þessu þingmáli er að skilgreina vatnið upp á nýtt. Verið er að skilgreina eignarhald á vatni. (Gripið fram í: Það er ekki verið að því.) Það er aðalmarkmið frumvarpsins. Samkvæmt því sem þar stendur er aðalmarkmið frumvarpsins að skilgreina eignarhaldið upp á nýtt. Síðan koma menn hér upp og reyna að rökstyðja það að verið sé að taka réttindi af mönnum og það sé jafnvel stjórnarskrárbrot. Hefur það stjórnarskrárbrot þá staðið síðan 1923? Af hverju hafa menn ekki leitað réttar síns? Hvað er eiginlega á ferðinni og hver er þessi Karl Axelsson? Er þetta Karl Marx? Hvað er þetta eiginlega, hefur hv. þingmaður (Forseti hringir.) ekki sjálfstæðar skoðanir?