132. löggjafarþing — 78. fundur,  7. mars 2006.

Breyting á ráðherraskipan.

[13:33]
Hlusta

forsætisráðherra (Halldór Ásgrímsson) (F):

Frú forseti. Á ríkisráðsfundi í morgun voru gerðar breytingar á ríkisstjórninni. Árna Magnússyni var þá veitt lausn frá embætti félagsmálaráðherra en hann hefur ákveðið, sem kunnugt er, að víkja af vettvangi stjórnmálanna. Við þetta tækifæri vil ég færa Árna Magnússyni þakkir fyrir störf hans í ríkisstjórninni og hér á hinu háa Alþingi.

Árni hefur verið farsæll þingmaður og ráðherra og ég óska honum og hans fjölskyldu velfarnaðar í framtíðinni.

Á ríkisráðsfundinum var Jón Kristjánsson enn fremur skipaður félagsmálaráðherra og Siv Friðleifsdóttir skipuð heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra.

Ég vildi, frú forseti, greina þingheimi frá þessu nú í upphafi þingfundar.