132. löggjafarþing — 78. fundur,  7. mars 2006.

Greiðslur til foreldra langveikra barna.

389. mál
[13:44]
Hlusta

Magnús Þór Hafsteinsson (Fl) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Það er mikið fagnaðarefni að þetta frumvarp til laga um greiðslur til foreldra langveikra eða alvarlega fatlaðra barna skuli koma til atkvæðagreiðslu á hinu háa Alþingi. Ég er fulltrúi Frjálslynda flokksins í félagsmálanefnd og sat á fundi þar sem frumvarpið var til umfjöllunar. Ég missti hins vegar af fundi þegar þetta frumvarp var afgreitt úr nefndinni. Mig minnir að ég hafi verið upptekinn á fundi menntamálanefndar þar sem við vorum að ræða nýtt frumvarp um Ríkisútvarpið. Þar af leiðandi erum við ekki með á breytingartillögum stjórnarandstöðunnar, þ.e. þeirri breytingartillögu sem þingmenn Samfylkingarinnar í nefndinni leggja fram. Ég kem hér upp, virðulegi forseti, til að lýsa heils hugar yfir stuðningi okkar í Frjálslynda flokknum við þær breytingartillögur sem þingmenn Samfylkingarinnar hafa gert við þetta frumvarp. Þó að það sé að mörgu leyti ágætt þá er það ekki fullkomið eins og það liggur fyrir.

Að mínu mati ættu breytingartillögur þingmanna Samfylkingarinnar að fá samþykki hér í dag þannig að við öll gætum afgreitt þetta frumvarp með þeim sóma sem mér þykir viðeigandi í þessu tilfelli.