132. löggjafarþing — 78. fundur,  7. mars 2006.

Vatnalög.

268. mál
[13:55]
Hlusta

Frsm. minni hluta iðnn. (Jóhann Ársælsson) (Sf) (frh.):

Hæstv. forseti. Nú höldum við áfram umræðu um vatnalögin. Ég tók þátt í þeirri umræðu hér í gær og hafði ekki lokið ræðu minni þegar þingfundi lauk. Sú ræða var orðin í lengri kantinum, a.m.k. mun hún vera sú lengsta sem ég hef haldið hér, en henni er ekki lokið.

Ég held öðrum þræði svona langa ræðu til þess að mótmæla afgreiðslu þessa frumvarps um vatnalög. Ég tel, eins og ég hef reynt að rökstyðja í máli mínu, að hér hafi menn gengið fram með þeim hætti að ekki sé til fyrirmyndar og ekki heldur til farsældar. Hér ætla menn að taka skilgreiningu á vatni til endurskoðunar, skilgreiningu sem hefur verið farsæl frá því að hún varð niðurstaðan árið 1923. Það er ábyrgðarhluti að gera það og það er líka ábyrgðarhluti að leggja út á þá braut að ætla að skilgreina vatn sem eign vegna þess að það er eign sem er þá af allt öðru tagi en það sem menn hafa fram að þessu skilgreint sem eign. Næsti bærinn gæti t.d. verið að menn vildu skilgreina loftið sem eign.

Því hefur brugðið fyrir í frammíköllum og andsvörum hér að við vildum gera vatnið að sameign þjóðarinnar. Það er ekki mín skoðun að það eigi að gera. Vatnið er miklu frekar sameign þjóðanna, það er ekki eign eins eða neins. Það er sameign þjóðanna og á að vera það. Með því að halda því fram að skilgreiningin sem hefur legið að baki vatnalögum fram að þessu væri óbreytt höfum við haldið því fram að það eigi að vera sá háttur sem menn hafa á.

Það getur vel verið að þessi skilgreining vefjist fyrir fólki og ég get vel skilið það. Sú umræða sem fór fram snemma á síðustu öld gefur mönnum kannski innsýn inn í þetta. Ég ætla að vitna í þá umræðu vegna þess að hún segir okkur að við erum á sama stað og menn voru hér á árunum 1917–1923. Það er ekki vafi að ég er það. Ég tel fráleitt að leggja út á þá braut að endurskilgreina vatnið með þeim hætti sem stjórnarliðar gera með þessu frumvarpi og er algjörlega á móti því að menn haldi því fram að einhvers konar einkaeignarréttur á vatni geti yfirleitt verið til. Hins vegar er ég sannfærður um að við eigum að halda okkur við þær skilgreiningar sem hafa verið, sem eru þær að einkaeignarréttur á vatnsnotum eigi áfram að vera eins og hann hefur verið og fylgja landareign.

Það er greinilegt að frjálshyggjan ríður húsum í ríkisstjórninni og Framsóknarflokkurinn lætur það yfir sig ganga — eða gerir hann það kannski ekki? Er það orðið þannig að Framsóknarflokkurinn hafi þessa skoðun, þar sé Frjálshyggjan orðin stefnan með stórum staf, að það sé ekki vegna þrýstings frá Sjálfstæðisflokknum að málið er með þeim hætti sem við sjáum það, heldur sé það vegna þess að Framsóknarflokkurinn sé orðinn sannfærður um að þannig eigi bara málin að vera? Maður gæti haldið það miðað við það sem hv. formaður nefndarinnar hefur látið frá sér fara um þessi efni, að hann tali þar fyrir munn allra framsóknarmanna.

Það er dálítið merkilegt að sjálfstæðismenn séu búnir að skipta um skoðun í málinu. Þá vísa ég til þess sem foringjar þeirra sögðu á sínum tíma um þessi málefni. Ég ætla að leyfa mér, þó að það sé kannski svolítið sérstakt, að vitna í ræðu hv. þm. Bryndísar Hlöðversdóttur sem var haldin við 2. umr. árið 1998 á málinu Rannsóknir og nýting á auðlindum í jörðu. Vegna þess að ég fann hvergi meirihlutaálit fossanefndar, en ég vitnaði í gær í ræðu minni í minnihlutaálit fossanefndar, fannst mér ástæða til þess að fá, með leyfi forseta, að vitna í ræðu hv. fyrrv. þm. Bryndísar Hlöðversdóttur því að hún hafði haft upp á gögnunum og vitnar í þau í ræðu sinni.

Hefst nú lesturinn:

,,Í þessu frumvarpi er verið að festa í sessi leið séreignarstefnunnar sem gengur út á að færa landeiganda skýlausan einkaeignarrétt yfir þeim jarðhita sem undir jörð hans er.“

Ég endurtek að umræðurnar 1998 snerust öllu fremur um jarðhitann og aðrar auðlindir en vatnið. En vatnið kemur vissulega við sögu í ræðu hv. þm. Bryndísar Hlöðversdóttur.

„Það eru ekki lítil verðmæti, herra forseti, sem þarna eru fest með lögum undir einkaeignarrétt landeiganda. En þetta frumvarp og þær hugmyndir sem í því felast koma í sjálfu sér ekki á óvart, því þær eru í takt við aðrar hugmyndir hæstv. ríkisstjórnar um það hver skuli eiga auðlindir landsmanna. Það hefur leynt og ljóst verið stefna núverandi ríkisstjórnar að færa þau verðmæti sem land þetta býr yfir undir einkaeignarréttinn í stað þess að tryggja að afrakstur þeirra gangi til sameiginlegra sjóða landsmanna og nýtist þannig landsmönnum öllum. Því miður hefur Sjálfstæðisflokkurinn villst nokkuð af leið í auðlindaumræðunni frá því á árum áður þegar forverar ráðherra Sjálfstæðisflokksins héldu á lofti annarri pólitík en nú heyrist úr því horni. Einkum er fróðlegt að lesa um fossamálið svokallaða en ég rifjaði einmitt upp það mál og aðdraganda þess í ræðu minni á laugardaginn var um þjóðlendurnar. En í upphafi aldarinnar þegar menn voru að átta sig á verðmætunum sem felast í orku fallvatna var talað annars vegar um þá sem aðhylltust séreignarstefnu, þ.e. að auðlindir á og í landi skyldu tilheyra landeiganda, og hins vegar allsherjarstefnu sem fólst í því að hið rennandi vatn skyldi ekki vera undirorpið eignarrétti landeiganda heldur skuli það vera eign ríkis og sveitarfélaga eða þá að það sé óeignarhæft“ — ég vek athygli á því orði — „en lúti umráðum ríkisvaldsins. Þessar tvær stefnur birtast í raun í þeirri umræðu sem nú hin síðustu ár hefur átt sér stað meðal landsmanna. Ríkisstjórnin hefur aðhyllst séreignarstefnuna utan þjóðlendna þar sem allsherjarstefnan virðist hafa orðið ofan á í þeim herbúðum. Flokkarnir í stjórnarandstöðu hafa hins vegar byggt málstað sinn á allsherjarstefnu í einni eða annarri mynd.

Ég vil gera örlitla grein fyrir þessum tveimur stefnum í máli mínu. Ég tel það nauðsynlegt til útskýringar og til að tengja umræðuna við umræðu sem var mjög hávær fyrr á öldinni. Ekki síst fyrir þær sakir að mér skilst að þessi ágæta skýrsla, nefndarálit meiri hluta fossanefndar, sé uppurin og ófáanleg og sakar því ekki að festa það gagnmerka efni sem í henni er í þingtíðindi.“

Efnið er komið í þingtíðindin og ég er ekki að vitna í það til þess að það komist í þau. Ég ætla að vitna í þetta til þess að menn í sölum Alþingis eða þeir sem hlusta á mál mitt átti sig á því hvað menn ræddu um á þeim árum þegar vatnalögin urðu að veruleika. Ég tel að tilvitnunin eigi ekki síður heima nú en við umræðuna um frumvarpið um rannsóknir og nýtingu á auðlindum í jörðu.

,,Vatnalöggjöf sína hafa menn byggt á mjög ólíkum grundvelli. Eignarréttur að landi er almennt viðurkenndur í siðuðum löndum. En eignarrétt að landi hafa menn svo, — að minnsta kosti í orði — látið sum staðar ná til vatns þess sem á landinu liggur. Þá stefnu mætti nefna séreignarstefnuna. En þetta leiðir aftur til þess að landeigandi er talinn eiga slíkan eða svipaðan umráðarétt yfir vatninu á landi sínu sem yfir landinu sjálfu. Takmarkanir á rétti þessum yfir vatninu eru þó miklar gerðar. Jafnvel í löndum þar sem vatnalöggjöfin er berum orðum byggð á séreignarstefnunni, eins og í Noregi, verða landeigendur (eigendur vatnsbotns og vatnsbakka) t.d. að þola umferð um vatnið og viðarfleytingu í því, auðvitað gegn bótum fyrir spjöll á veiði eða landi. Enn fremur mega þeir eigi taka til orkunýtingar nema ákveðna tölu af hestorkum fallvatns, nema leyfi (sérleyfi) ríkisvaldsins komi til. Vatnsmiðlun mega menn eigi heldur gera nema leyfi komi til. Og margar fleiri takmarkanir eru gerðar á umráðarétti manna yfir vatni, sem löggjöfin segir í orði kveðnu eign landeiganda. Því er það — og eflaust líka vegna eðlis vatns, einkum rennandi vatns — að réttarfræðingar telja rétt þann sem landeiganda er fenginn yfir vatni á landi hans, jafnvel þar sem séreignarstefnunni er fylgt, eigi til eignarréttar í þeirri merkingu sem það orð er haft í hlutaréttinum.

Önnur stefna er sú er telur vatn eigi undirorpið eignarrétti landeiganda, heldur sé það eign ríkisins eða sveitarfélaga, að minnsta kosti öll þau vötn og vatnsföll sem nokkuð kveður að. Tekur þetta þá einkum til allra skipgengra og flotfærra vatna. En sum staðar tekur þetta þó til alls óvirkjaðs vatns. Í Prússlandi eru t.d. öll skipgeng vötn og flotfær ríkisvötn. Ríkið ákveður hver þau vötn eru og getur hvenær sem það vill breytt einkavatni í ríkisvatn með því að gera það skipgengt eða flotfært, enda verða landeigendur að sæta því endurgjaldslaust. Vötn sem þar á móti eru hvorki skipgeng né flotfær eru einkaeign.

Þriðja stefnan er sú, að óvirkjað vatn, að minnsta kosti rennandi vatn, sé alls kostar óeignarhæft, bæði ríkisvaldi og einstaklingum. Þeir, sem þeirri stefnu fylgja, líta líkt á vatnið og loft, haf og ljós. Loftið o.s.frv. er almenningsgagn og verður eigi eignarhæft, nema það takist að handsama það og hefta. Af þeirri skoðun leiðir að vatn getur almennt eigi verið eignarrétti undirorpið, hvorki einstakra manna né ríkisins. Hins vegar hafa einstaklingar rétt til að nota vatnið eins og loftið, hafið og ljósið, meðan sú notkun fer eigi framar en samþýðast megi hagsmunum almennings eða ríkisins. En ríkisvaldið hefur þar ákvörðunarvaldið. Eðli málsins samkvæmt hlýtur hver landeigandi sérstaklega að nota vatn á landi sínu, alveg eins og hann notar loftið yfir landi sínu, sjóinn fyrir því — ef það liggur að sjó — og ljós sólarinnar sem á það fellur. Auk þess verður hann að þola að vatnið hvíli á og fari um land hans, og því er sanngjarnt að hann eigi nokkurn forgangsrétt til að nota það handa heimili sínu, til ræktunar á landi sínu og til atvinnu sinnar. Í Rómaveldi virðist eigi hafa verið viðurkenndur eignarréttur að vatni. Vötnum var þar að vísu skipt í tvennt: Almenningsvötn og einkavötn. En einkavötnin urðu fá, því að öll þau vötn sem eigi voru vön að þorna upp árlega voru almenningsvötn. Einkavötnin urðu þá aðallega þau vötn eða vatnsöfl sem til urðu í leysingum eða vatnavöxtum. Auðvitað máttu menn nota almenningsvötnin til þarfa sinna, ef botni þeirra eða bakka var eigi spillt, svo sem til að taka úr þeim neysluvatn og til jarðyrkju. Og máttu menn því veita vatni sem að fornu hafði verið, en eigi framar, nema leyfi ríkisvaldsins kæmi til. Það gilti ákveðin regla vorra laga, að vötn öll skuli svo renna sem að fornu hafa runnið. Lík meginregla sem í Rómaveldi gildir í Austurríki. Þar eru yfir höfuð öll vötn almenningsvötn.

Raunverulegur munur á því hvort vötn eru kölluð eign ríkisins og því að þau eru talin óhæf til eignar, heldur almenningsgagn sem ríki og héruð ráða yfir, að því leyti sem um yfirráð er að tefla, er lítill eða enginn. Báðar stefnurnar síðastnefndu hafa það sameiginlegt að vatnið sé og eigi almennt að vera undir forræði ríkisins (eða héraða), að því leyti sem þörf sé á að skipa fyrir um notkun þess, og að þeim, er til þess nái og þá sérstaklega þeim er land eiga undir því, skuli heimil not þess meðan þau fara eigi í bága við lögmæta hagsmuni annarra einstaklinga, eða almennings. Þessar tvær stefnur má því vel nefna einu nafni allsherjarstefnuna.

Þá er næst að athuga kosti og ókosti þessara stefna, séreignarstefnunnar og allsherjarstefnunnar. Virðist þá hentugast að taka til athugunar þær helstu tegundir vatnsnotkunar sem nú tíðkast og bera saman, hverju máli það skipti um hverja þeirra, hvort löggjöfin er byggð á séreignarstefnunni eða allsherjarstefnunni.

Fyrsta tegund vatnsnotkunar og gamalkunnust er notkun vatns til neyslu manna og dýra, notkun til heimilis og búsþarfa, eins og kalla mætti það. Séreignarstefnan, rökrétt tekin verður hér að halda því fram, að landeigandi eigi einkarétt til vatns á landi sínu í þessu skyni og að öðrum sé hún óheimil, nema landeigandi leyfi. Allsherjarstefnan viðurkennir að vísu, að notandi land þess sem vatnið liggur á, eigi fyrst að fá sínar þarfir fylltar. En ef vatn er afgangs þeim þörfum, þá telur allsherjarstefnan rétt að aðrir fái not þess, auðvitað gegn endurgjaldi fyrir landspjöll eða veiði, ef slík spjöll verða. En eftir séreignarstefnunni ætti landeigandi (,,vatnseigandi“) eigi að þurfa að hlíta slíkri vatnstöku endurgjaldslaust, að minnsta kosti svo framarlega sem hann gæti bent á það að vatnið hefði eitthvert verðmæti í sér fólgið honum til handa, t.d. ef hann fengi notað það til áveitu á land sitt, til iðnaðar eða iðju o.s.frv. Eftir séreignarstefnunni á landeigandi eignarrétt eða einkanotkunarrétt á vatni því sem á landi hans er hverju sinni. Og afleiðingin er sú, að hann getur bægt öllum öðrum frá, nema löggjöfin setji sérstakar takmarkanir á þeim rétti hans. En slíkar takmarkanir hljóta eftir séreignarstefnunni að hafa í för með sér skaðabótaskyldu, ef viðkomandi getur bent á tjón af sjálfri vatnstökunni.

Þá er notkun vatns til iðnaðar og iðju án orkunýtingar vatnsins, t.d. fiskþvottar og ýmiss konar iðnaðar. Séreignarstefnan hlýtur hér að leiða til hins sama sem áður segir um neysluvatn. ,,Vatnseigandi“ hlyti að eiga tilkall til endurgjalds fyrir vatnið, ef það væri frá eða af landi hans tekið, með sama hætti sem fyrr segir. Allsherjarstefnan gæti hér eigi lengra farið en svo að landeigandi ætti forgangsrétt til notkunar þess vatns sem á landi hans er til iðju og iðnaðar í þarfir þeirrar jarðar eða atvinnu sem beinlínis væri rekin í sambandi við hana eða ræktunar henni.

Sama sem sagt var um neysluvatn og iðjuvatn gildir um vatnsnotkun til jarðræktar. Séreignarstefnan, rökrétt tekin, telur landeiganda (,,vatnseiganda“) hér sem annars eigi þurfa að hlíta notum annarra af vatni á landi sínu, jafnvel þótt afgangs verði sjálfs hans þörfum. Allsherjarstefnan viðurkennir að landeigandi skuli að jafnaði ganga fyrir um notkun vatns til ræktunar lands síns, er að vatninu liggur, af því að honum er venjulega auðveldara að nota það í því skyni en öðrum. En það vatn allt er afgangs verður þörfum landeiganda, þeim er taldar hafa verið, er öðrum frjálst endurgjaldslaust.

Þá er nýting vatnsorkunnar. Hér skiptir ágreiningur milli fylgismanna þessara tveggja stefna mestu máli. Síðan mönnum tókst að taka vatnsorkuna í þjónustu stóriðjunnar hafa landeigendur, sem talið hafa sig eiga orkuvötn, ,,selt“ þau eða ,,leigt“ einstökum mönnum eða félögum. ,,Kaupendur“ þessir og ,,leigjendur“ hafa síðan framselt og framleigt réttindin og svo hafa þau verið ,,framseld“ eða ,,framleigð“ koll af kolli. Fyrsti ,,seljandi“ eða ,,leigjandi“, sem venjulega er landeigandi, hefir venjulega, að minnsta kosti hér á landi, fengið smáræði fyrir ,,réttindin“. Kaupgróðamennirnir hafa síðan haft þau og selt hver öðrum þar til þau hafa verið oft komin í geypiverð. Kaupgróðamennirnir hafa sjaldan aflað sér þessara réttinda í því skyni að virkja vötnin heldur til að láta réttindin aftur af hendi með meiri eða minni hagnaði.

Ef svo hefur til þess komið að vatnið yrði virkjað þá leggst kaupverð það er síðast var látið fyrir „réttindin“ við virkjunarkostnaðinn. En orkuverðið er aftur háð öllum þeim kostnaði sem orkuframleiðslan hefur í för með sér. Andvirðið, sem goldið hefir verið síðast fyrir orkuvatnið, hlýtur því að auka það verð er framleiðandinn setur á orkuna, er hann selur öðrum, t.d. til hitunar, lýsingar, iðnaðar o.s.frv., … Viðskiptamenn hans greiða þá að lokum, og einatt margfalt, verð það er hann hefur látið fyrir réttindin. Séreignarstefnan segir landeiganda einum auðvitað heimilt að „selja“ eða „leigja“ vatnsréttindi sín og þar á meðal orkunytjaréttinn við því verði sem hann getur fengið. Vatnið og vatnsorkan er eftir henni eign landeiganda, sem hann getur ráðstafað sem öðrum eignum sínum almennt. Vatn hans má enginn virkja nema samþykki hans komi til, eða það sé af honum tekið eða orkunýtingarrétturinn lögnámi samkvæmt lögum, ef almenningsþörf krefur, enda komi fullt verð fyrir. Og sama rétt á, eftir séreignarstefnunni, hver sá sem „keypt“ hefur eða „leigt“ vatnsréttindi, ef hann leiðir heimild sína til landeiganda, hvort sem beint er — milliliðalaust — eða óbeint — um milliliði fleiri eða færri. — Allsherjarstefnan heldur því þar á móti fram að vatnið — þar á meðal orkugæft vatn — sé allsherjargagn. Þegar þörf ber til þá geti ríkisvaldið sjálft tekið óvirkjað vatn til virkjunar eða leyft einstökum mönnum eða félögum að virkja það í orkunýtingarskyni, án þess að endurgjald sé greitt fyrir vatnsnotin út af fyrir sig, heldur aðeins fyrir tjón á landi eða mannvirkjum sem virkjun vatnsins kann að hafa í för með sér. Hún telur með öllu fráleitt að kaupgróðamenn hafi vatnsorkuna að féþúfu í viðskiptabralli sínu og að viðskiptamenn orkuframleiðandans greiði svo þær fjárhæðir sem hann hefur greitt kaupgróðamönnunum er honum seldu. Munurinn á þessum tveimur stefnum verður því sá að notandinn þarf eigi að greiða fyrir náttúruraflið — vatnsorkuna — eftir allsherjarstefnunni, og afurðir þær sem orkan skapar eða hjálpar til að skapa verða því framleiðanda að skaðlausu ódýrari en ella mundi verða. Eftir séreignarstefnunni verður orkuframleiðandinn að greiða fyrir náttúruaflið þar sem kaupgróðamennirnir hafa selt það eða leigt og það verður eigi af þeim tekið nema fullt verð komi fyrir. Eftir því sem þarfir almennings á vatnsorku hafa aukist hafa menn séð þennan mun og hversu fráleitt það er að vatnsréttindin séu höfð að féþúfu af einstökum gróðabrallsmönnum eða félögum, og svo sé almenningur auðvitað látinn borga brúsann. Allsherjarstefnan heldur því auðvitað fram að enginn nema ríkisvaldið hafi heimild til að virkja vatn svo að nokkru verulegu nemi, t.d. fram yfir 50, 100, 150 o.s.frv. eðlishestorkur, án samþykkis ríkisvaldsins. Þetta leiðir bæði af því að ríkið á forræði á vötnunum og enn fremur af því að öll meiri háttar iðjufyrirtæki skipta miklu um almenningshagsmuni. Þau þurfa mörg eða flest traustan umbúnað til þess að þau valdi eigi slysum. Þau skipta máli um þjóðerni og tungu þar sem svo hagar til að mikinn erlendan vinnulýð þarf til að reka iðjuverin. Þau geta og kæft aðra atvinnuvegi í landinu með því að draga frá þeim verkalýð landsins o.s.frv. Einnig hlýtur það að leiða af allsherjarstefnunni að enginn má koma upp vatnsmiðlunum, í hverju skyni sem þær eru gerðar, nema með leyfi ríkisvaldsins, enda sé þeim kröfum fullnægt er ríkið setur um traustleik, viðhald og notkun slíkra mannvirkja. Séreignarstefnumenn fara í þessu efni sömu leiðir. … Þá er rétt að athuga það sérstaklega hvort hagfelldara muni að byggja vatnalöggjöf Íslands á allsherjarstefnunni eða séreignarstefnunni. Um vatn til neyslu (til heimilisþarfa og bús) mun almennt vera svo ástatt hér á landi að hvert sveitaheimili hefur nóg af vatni. Þó eru undantekningar frá þessari reglu. Enn fremur er það alkunna að sumir kaupstaðir eða kauptún þurfa vatns af annarra manna löndum. Sem dæmi má nefna Reykjavíkurkaupstað og Akureyrarkaupstað. Eftir séreignarstefnunni mundu þeir sem land eiga undir vatni geta óheimilað vatnstöku í neysluskyni. Eftir stjórnarskránni, 50. gr., yrði sá er vatnið tekur að greiða fyrir vatnstökuna. Er hér eigi átt við veiðispjöll eða lands af vatnstökunni því að sjálfsagt er að bætur komi fyrir slíkt. Eftir allsherjarstefnunni kæmu bætur fyrir vatnstökuna sjálfa venjulega alls eigi til mála. Spjöll á landi eða mannvirkjum og annað óhagræði, sem vatnstakan hefði í för með sér, yrði bætt framar eigi. Líkt er um vatn til jarðræktar og iðnaðar og iðju án orkunýtingar að segja. Nú hagar hér svo til sums staðar að taka þarf vatn til jarðræktar og iðnaðar eða iðju af landi annarra manna. Eftir séreignarstefnunni þyrfti almennt að greiða endurgjald fyrir vatnstökuna, en eftir allsherjarstefnunni eigi. Skiptir þetta miklu máli því að vatnsgjaldið mundi einatt gera fyrirtækin kostnaðarsamari en ella mundi verða.“

Síðar segir í skýrslu fossanefndar, með leyfi forseta: „Hér á landi má búast við því að menn skiptist í tvo flokka um notkun fallvatna. Annar flokkurinn mun vera því mótfallinn að orkuvötn landsins verði tekin til stóriðju að nokkru ráði í einu og því reyna að hamla því að sérleyfi verði veitt í því skyni. Sá flokkur telur verða að fara mjög varlega í þeim efnum vegna hættu er þjóðerni landsmanna og atvinnuvegum stafi af stóriðjunni. Þótt stóriðjuver yrði reist þá mundi sá flokkur manna varla hirða þótt þau yrðu skammæ fyrir það að vatnsréttindin hefðu verið dýru verði keypt. Aðeins mundu þeir harma það að orka til almenningsþarfa sem slík hver kynni að selja hér yrði svo eða svo miklu dýrari en ef þau hefðu fengið náttúruaflið, vatnsorkuna, ókeypis. Hinn flokkurinn, sem telur stóriðju hér hættulausa og landinu jafnvel til stórgagns, t.d. tekjulind handa ríkissjóði, hlyti þar á móti að telja það illa farið ef iðjuverin þyrftu að gjalda fyrir orkuna verðauka er stafaði af kaupum og sölum á vatnsréttindunum svo að niður kæmi á verði afurðanna. Og þetta hlyti að verða því varhugaverðara í þessara manna augum sem aðstaða stóriðju hér á landi er eigi glæsileg.“ Þannig var komið víða við í skýrslu fossanefndar og m.a. tekist á um stefnu hvað varðar stóriðjuna.“

Eins og ég sagði hér fyrr í þessum upplestri þá töluðu menn í raun og veru um þrjár meginstefnur hvað varðar eignarhald á vatni en síðan er fjallað um þær stefnur eins og þær væru tvær. Það er töluvert mikill munur á þessari allsherjarstefnu eftir því hvort við erum að tala um eignarhald sem gæti verið í merkingunni þjóðareign eða eignarhald í þeirri merkingu að enginn eigi auðlindina. Þar er virkilega ástæða til að staldra við og ég vara menn við því að bera saman þennan rökstuðning án tillits til þessara raka. Það er í raun og veru verið að tala um allsherjarstefnuna og inni í þeirri skilgreiningu sem þar er eru báðar þessar stefnur sem ég var að tala hér um, og ég vil endurtaka það hér til þess að menn átti sig á því hvað ég er að fara. Þar er talað um séreignarstefnuna og síðan er talað um þá stefnu sem telur vatnið eigi undirorpið eignarrétti landeiganda heldur sé það eign ríkisins eða sveitarfélaga. Þriðja stefnan er sú að óvirkjað vatn, a.m.k. rennandi vatn, sé alls kostar óeignarhæft. Þessar báðar stefnur eru undir þegar menn tala í þessu áliti um allsherjarstefnu. Ég tel ástæðu til að vitna áfram í þetta gagn vegna þess að það er ýmislegt merkilega líkt í dag eins og var þá þó að munurinn á áliti manna á eignarhaldi hvað þetta varðar, sem ég nefndi hér áðan um orkunýtingarrétt og hagnýtingarrétt á auðlindunum í sjálfu sér, hafi breyst og hafi í raun og veru breyst vegna vatnalaganna frá því sem hér er fjallað um.

Það er augljóst að framfylgd vatnalaga og greinarnar í vatnalögunum sjálfum hafa verið hugsaðar út frá því að fasteignaeigendur og landeigendur ættu fyrst og fremst rétt til að nýta orku, til að nýta þær auðlindir sem eru á þeirra landi. Samt sem áður er skilgreiningin á landinu undir allsherjarreglunni og þá í þeirri merkingu sem ég nefndi hér áðan, þ.e. að enginn eigi vatnið. Ég er á þeirri skoðun að það sé farsælasta skilgreiningin á vatninu, að við eigum að líta á vatnið og loftið sem sameign þjóðanna í þessum heimi og Íslendingar eigi svo sem ekkert frekar að eiga vatnið sem rennur um Ísland en aðrir eigi vatnið sem rennur um þeirra lönd. Í vatnatilskipun Evrópusambandsins er t.d. greinilega gert ráð fyrir því að þar sé engin séreign á vatni. Sú tilskipun fjallar fyrst og fremst um það hvernig menn fara með vatn, hvaða skyldur menn hafa við vatnið og hún er auðvitað hugsuð út frá því að vatnið er svo gríðarlega mikilvægt fyrir allar þjóðir heimsins, fyrir Evrópubúa alveg sérstaklega, og er horft til þess í vatnatilskipuninni.

Íslendingar ættu ekki að fletja út hugtakið þjóðareign með því að tala um þjóðareign hvað varðar vatnið sem slíkt, einfaldlega vegna þess að þjóðareign á auðvitað að gilda um auðlindir þjóðarinnar sem við ætlum að vernda til framtíðar sem sameign okkar og þeir sem nýta þær auðlindir þurfa þá að greiða fyrir það eitthvert endurgjald og það þarf auðvitað að velja á milli þeirra sem fá þær auðlindir til nýtingar með einhverjum jafnræðishætti. Það er ekki líklegt að það sé hægt að finna einhverja leið til þess að menn fari að láta ríkið veita mönnum einhvern sérstakan rétt til þess að nýta vatn og þaðan af síður það vatn sem er á þeirra eigin löndum, enda er allur rökstuðningurinn fyrir því, sem ég hef verið að fara hér yfir, í þá sömu átt að skynsamlegast og eðlilegast sé að líta á vatnið sem einskis manns eign eða sameign heimsþorpsins.

„Ágreiningurinn milli allsherjarstefnu og séreignarstefnu (eða meiri hluta og minni hluta nefndarinnar)“ — en eins og kunnugt er þá klofnaði fossanefndin — „að því er snertir rétt almennings til vatnsafnota við orkuvinnslu er nú aðallega eða eingöngu um borgun fyrir vatnsafnotin. Vér viljum láta almenning hafa rétt til þessara vatnsnota eftir svipuðum reglum sem gilda fyrir umferðarnot, þ.e. venjulega án endurgjalds fyrir vatnið sjálft en gegn endurgjaldi fyrir spjöll á veiði, landi, mannvirkjum o.s.frv. En séreignarstefnumenn vilja auk þessa leyfa landeigendum og þeim sem eignast hafa og eignast kunna „vatnsréttindi“ þeirra að taka borgun fyrir vatnið eða fyrir afnot þess til orkuvinnslu. Og um upphæð borgunarinnar vilja þeir láta gilda þá venjulegu aðalreglu fyrir kaupum og sölu að seljandinn má taka eins mikið og hann getur fengið kaupandann til að borga, en ef eigi semur og almenningur (ríkið, hérað) er kaupandinn, þó sé verðið ákveðið með mati, og matsverðið hlýtur þá, eins og venja er til, að miðast við það hvað aðrir kaupendur að áliti matsmanna mundu vilja gefa mest fyrir afnotaréttinn. Ef til vill sést einna best hvílík fjarstæða slík séreignarstefna væri hér í landi með því að hugsa sér að sams konar reglur ættu að gilda um hina aðra tegund almenningsnotkunar á vatni, umferðina. Vér skulum þá hugsa oss að sérhver landeigandi hefði rétt til að taka borgun fyrir umferð um vatn á landi hans. Komi maður að ferjuvatni verður hann, jafnvel þótt hann leggi sér sjálfur til ferjubát og fyrirhöfn, að semja við landeigandann um borgun fyrir að mega nota vatnið til þess að fleyta ferjunni yfir um á því; er þá auðséð að ef maðurinn á brýnt erindi yfir um getur landeigandi heimtað og fengið hátt gjald hjá honum, því hærra sem nauðsyn ferðamannsins til að komast leiðar sinnar er meiri. Vilji einhver sveit taka upp flutninga eftir vatni langleiðis þá verður fyrst að semja við landeigendur um borgun fyrir leyfi til að fara eftir vatninu.

Venjulega verður um það tvennt að velja fyrir notendurna, að borga landeigendum fyrir afnotaleyfið eða flytja landveg meðfram vatninu og þá gera þar veg fyrst. Auðséð er að landeigendur allir til samans geta heimtað og fengið svo háa borgun fyrir afnotarétt vatnsins að einungis verður hóti ódýrara að flytja eftir vatninu heldur en landinu meðfram því ef allur kostnaður er talinn. Verð afnotaréttarins ákvarðast eingöngu af þörf notandans en tilkostnaður seljanda kemur ekki til greina því að hann er enginn. Auðvitað hefur engin siðuð þjóð heimilað landeigendum að gera sér þarfir almennings á þennan hátt að féþúfu. En einmitt þetta sama vilja nú séreignarstefnumenn heimila hér á landi, að leyfa einstökum mönnum að gera sér þarfir almennings til ljóss, hita og vinnuafls að féþúfu. Og þótt í rauninni skipti litlu hverjir það eru eða verða sem eiga að fá þennan rétt til að taka fyrirhafnarlaust gjöld af almenningi þá er rétt að geta þess að fyrirsjáanlegt er nú þegar að það verða að mestu leyti erlendir eignamenn en að mjög litlu leyti sjálfir bakkabúarnir, þ.e. eigendur eða ábúendur vatnajarðanna sjálfra.“

Eins og heyra má af þessum upplestri upp úr nefndaráliti meiri hluta fossanefndar, sem væri full ástæða til að lesa upp í heild sinni því að þar er margan fróðleik að finna, þá hefur verið hér frá því í upphafi aldarinnar tekist á um þessi grundvallaratriði þótt vissulega hafi áherslurnar breyst að nokkru leyti. Það var þannig að í upphafi aldarinnar voru það ekki bara vinstri sinnaðir stjórnmálaflokkar sem töluðu fyrir allsherjarstefnunni heldur þvert á móti. Ég get fyrir mína parta tekið undir orð eins mikilhæfs stjórnmálamanns sem var mjög afgerandi í umræðum um auðlindir landsmanna í upphafi aldarinnar þótt sú stjórnmálastefna sem hann stóð fyrir sé að öðru leyti ekki að mínu skapi.

Ég vil vitna í þennan stjórnmálamann. Orð hans eiga við enn í dag. Það kaldhæðnislega við þetta er að sá maður sem skráði sögu þessa stjórnmálamanns hefur verið einn helsti áróðurspenni sjálfstæðismanna og hefur barist gegn því að arðurinn af auðlindum þjóðarinnar renni til landsmanna allra. Penninn heitir Hannes Hólmsteinn Gissurarson og stjórnmálamaðurinn er Jón Þorláksson. Í ævisögu Jóns er komið inn á fossamálin. Þar segir m.a., en ég er að vitna í ræðu sem Bryndís Hlöðversdóttir fyrrverandi alþingismaður flutti, með leyfi forseta:

„Fossamálið var tekið fyrir á þinginu 1919 sem stóð frá júlíbyrjun til septemberloka og reyndu menn úr fossafélögunum tveimur óspart að hafa áhrif á þingmenn. Þeir Aall og Schelderup, stjórnarmenn í Titan-félaginu, komu báðir til landsins með konum sínum og töluðu við þingmenn ásamt Klemens Jónssyni, framkvæmdastjóra félagsins. Þingið ákvað hins vegar að fresta afgreiðslu málsins en samþykkti þingsályktunartillögu um að skora á landstjórnina að taka Sogsfossa eignarnámi. Jón Þorláksson andmælti þeirri tillögu opinberlega þar sem í henni fælist viðurkenning á því að fossar væru undirorpnir eignarrétti en meiri hluti fossanefndar hefði einmitt komist að þeirri niðurstöðu að svo væri ekki. Þeir væru eins konar almenningur. Hins vegar gætu árbotnar og annað land sem vatn rynni um vissulega verið eign einstaklinga. Minni hluti minnti Jón á að í áliti sínu hefði meiri hlutinn sagt „að það óvirkjað vatn sem landeign sú er það á eða rennur um, þarf eigi til sinna þarfa, skuli vera eins konar almenning undir umráðarétti ríkisins.“

Miklar og harðar deilur urðu í blöðum um fossamálið árið 1919 og það var eitt helsta hitamál í kosningunum þá um haustið. Töldu menn ýmist eignarrétt á fossum í höndum bænda eða ráðstöfunarrétt á þeim hjá hinu opinbera en einnig skiptust menn í innilokunar- og opingáttarmenn, eins og það var kallað, eftir því hvort þeir voru með eða á móti útlendu fjármagni til virkjana og stóriðju. Heimastjórnarflokkurinn var hlynntur því að sérleyfi til virkjana yrði veitt öðru hvoru fossafélaginu enda hafði hann frá öndverðu talið rétt að fá erlent fjármagn inn í landið. Tíminn sem hafði þá nýlega hafið göngu sína og studdi Framsóknarflokkinn eindregið hafði ekki ákveðna skoðun á því máli en aðhylltist eignarrétt landeigenda á vatni. Taldi aðsópsmesti talsmaður flokksins, Jónas Jónsson frá Hriflu, að hann gæti notað fossamálið til að fylkja bændum undir merki flokksins. „Jónas frá Hriflu hugsaði sér gott til glóðarinnar að hamra á því að Bjarni frá Vogi og Einar Arnórsson væru vatnsránsmenn, eins og hann kallaði þá,“ segir Guðjón Friðriksson „og sá fram á að þetta yrði vatn á myllu flokkseiningarinnar þó að í raun og veru stríddi það gegn heildarsýn hans“ — þ.e. Jónasar — „á framtíðarþjóðfélagið.“ Hóf Jónas harðar árásir á Einar og Bjarna sem báðir voru í framboði í kosningunum og féll Einar en Bjarni hélt þingsæti sínu. Sjálfstæðismenn vöruðu hins vegar flestir við opingáttarstefnu. Gerði Jakob Möller fossamálið að árásarefni á Jón Magnússon forsætisráðherra en Jakob bauð sig fram gegn honum í Reykjavík í þessum kosningum og felldi hann.

Hið nýkjörna þing kom aðeins saman í nokkra daga í ársbyrjun 1920 til þess að staðfesta nýja stjórnarskrá vegna fengins fullveldis. Skömmu áður en reglulegt þing skyldi koma saman í ársbyrjun 1921 og afgreiða ný vatnalög tók Verkfræðingafélag Íslands fossamálið til umræðu. Steingrímur Jónsson var frummælandi á fundi þess sem var haldinn 17. nóvember 1920 ...“

Á þeim fundi var m.a. Jón Þorláksson. Um hans þátt segir hér, með leyfi forseta:

„Jón kvað það misskilning að meiri hluti fossanefndarinnar hefði lagt til að ríkið ætti að eignast öll vötn. Meiri hlutinn hefði kveðið upp úr um það að vatn væri engum eignarrétti undirorpið, hvorki ríkisins né einkaaðila, heldur væri það res nullius, einskis manns eign. „Það sem við vildum reyna að hindra var það að ágóðinn sem skapaðist við það að þetta verðmæti hækkaði í verði, rynni í vasa einstaklinga sem ekkert hefðu til þess unnið,“ sagði Jón „enda verður mönnum nógu erfitt að virkja fallvötnin þó þeir þurfi ekki að kaupa þau „spekúlanta“ verði“.“

Á fundinum kvaðst „Þorvaldur Krabbe ekki gera sér ljóst hvað Jón Þorláksson vildi í raun og veru, hvort hann vildi hagnýta fossana eða ekki og hvort hann teldi ríkið eiga að gera það eða veita öðrum sérleyfi til þess. Guðmundur Hlíðdal deildi nokkuð á tillögur Jóns Þorlákssonar og annarra í meiri hluta fossanefndarinnar, taldi hann að hindra hefði mátt gróðabrall með fossaréttindi með því að banna kaup og sölu fallvatna nema með leyfi landsstjórnarinnar, þá sagði Guðmundur að ekki væri tímabært að setja sérstök sérleyfislög. Jón Þorláksson tók til máls seint á þessum fundi og sagði að eitt hið mikilvægasta í hugsanlegum virkjunum væri að járnbraut austur yfir fjall mundi fylgja í kaupbæti. Ólíkt Guðmundi Hlíðdal væri hann þeirrar skoðunar að fossalöggjöf væri nauðsynleg. „Við verðum að sjá að vatnsaflið sé nothæft í framtíðinni þegar svo er komið að almenningi þykir þörf að það komi til notkunar.“ Ekki hefði nægt að binda kaup og sölu fallvatna við samþykki landstjórnarinnar.

Þingið 1921 afgreiddi ekki vatnalög en samþykkti frumvarp um heimild fyrir landstjórnina til þess að láta rannsaka Sogsfossa og var Jón Þorláksson öflugur stuðningsmaður þess. Árið 1923 afgreiddi þingið loks vatnalög að frumkvæði Klemensar Jónssonar sem þá var orðinn ráðherra og var þá tekið meira tillit til álits minni hluta fossanefndarinnar en tillagna meiri hlutans. Lét Jón Þorláksson mjög til sín taka í umræðum um vatnalögin og tókst honum að smeygja inn í frumvarpið fyrirvörum svo réttur landeigenda yrði ekki óskoraður. Í umræðunum greip Jón aldrei þessu vant til skáldlegra samlíkinga:

„Það má líkja þessari ónotuðu orku vatnsfallanna hér á landi við heimasætu í föðurgarði. Þeir sem falast eftir orkunni til virkjunar koma fram sem heiðarlegir biðlar heimasætunnar og er sjálfsagt að taka þeim með fullri kurteisi og velvild jafnvel þótt rétt þyki af einhverjum ástæðum að synja þeim ráðahagsins. En braskararnir vilja það eitt að gerast friðlar þessarar heimasætu, hafa af henni stundarhagnað og skilja hana svo eftir spjallaða af verðhækkun og þar með svipta því helsta yndi sem hún hafði að bjóða heiðarlegum biðli.“

Jón sagði að ýmsar hindranir hefðu hin síðari ár komið í veg fyrir að draumar sínir um notkun vatnsafls íslenskum almenningi í hag hefðu ræst. Í fyrsta lagi hefðu fossabraskarar tekið sérhagsmuni sína fram yfir almenningsþarfir. Í öðru lagi hefðu menn verið óþarflega hræddir við útlendinga, miklað málið fyrir sér, aldrei hefði verið ætlunin að reka mjög stór fyrirtæki eða fjölda útlendra verkamanna. Í þriðja lagi hefðu ýmsar vinnsluaðferðir orðið úreltar sakir tækniþróunar svo að í svip væri lítil eða engin eftirspurn eftir raforku til stóriðju frá Íslandi.

Í umræðunum um vatnalagafrumvarpið 1923 vísaði Jón Þorláksson þeirri röksemd á bug að eignarrétti manna á landi væri hætta búin væri eignarréttur á vatni ekki viðurkenndur. Hann kvaðst sjálfur ekki vera neinn sameignarmaður eins og þingmönnum væri vel kunnugt um. En þessi röksemd gæfi sér tilefni til að benda á eina hlið málsins. „Það hefur nefnilega frá öndverðu verið undirstaða vatnsréttarins að bakkabúar ættu einir þann rétt sem þeir einir gætu notað eða ættu miklu hægara með að nota en aðrir,“ sagði Jón. „En almenningur hefur á hinn bóginn frá öndverðu í öllum löndum átt rétt til þeirrar notkunar vatnsins sem allir höfðu jafna aðstöðu til.“ Til dæmis væri réttur almennings til að fleyta trjám eftir ám og sigla eftir vötnum víðast lögvarinn. Smávötn hefðu því gjarnan verið einkaeign og stór vötn almenningseign. Nú væru orðin aldahvörf. „Nú má veita orkunni svo langar leiðir að hún getur orðið í fyllsta mæli almenningseign og því er eigi nema eðlilegt að sama aðstaða skapist um þá notkun sem um hina eldri, að almenningur fái rétt til þeirrar vatnsnotkunar sem hann þarfnast.“ Þá hafnaði Jón þeirri röksemd sem fram kom í áliti minni hluta fossanefndarinnar að réttur landeiganda til vatns væri fullur eignarréttur. Hann væri takmarkaður hlutaréttur, sagði Jón, réttur til notkunar, þegar sagt hefur verið á fornum bókum að maður ætti læk hefði hann átt rétt til þess að nota lækinn á tiltekinn hátt en hann hefði ekki átt vatnið í læknum í bókstaflegri merkingu.“

Þetta sagði nú Jón Þorláksson.

„Nú er fróðlegt þegar maður veltir vöngum yfir þessum ræðum og orðum Jóns Þorlákssonar að sjá á hvern hátt söguskýrandinn, túlkandinn, kýs að túlka orð þessa stjórnmálamanns. En nú er komið að Hannesarkafla Gissurarsonar en hér segir, með leyfi forseta“ — og það er Bryndís Hlöðversdóttir sem hélt þessa ræðu í sölum Alþingis.

„Hvað var hæft í þeim röksemdum sem Jón Þorláksson og aðrir í meiri hluta fossanefndarinnar báru fram fyrir allsherjarstefnunni svonefndu? Þeim varð starsýnt á þann mun sem er á vatni og ýmsum öðrum gæðum jarðar: Vatn er sífellt á hreyfingu, það rennur ófrosið úr greipum manna. Það virðist því ekki vera fastur hlutur í sama skilningi og jörð, hús eða hestvagn. Getur vatnið þá verið háð eignarrétti? Geta menn þá átt tilkall til þess eins og til jarðar, húss, eða hestvagns? Var ekki eðlilegra að líta á það sem almenningsgagn sem allir mættu hafa not af svo framarlega sem þeir sköðuðu ekki aðra? Þegar meiri hluti fossanefndar svaraði síðustu spurningunni játandi studdist hann við álit Einars Arnórssonar. En nú sjá menn það sem fossanefndin kom ekki auga á að Einar notaði rangar röksemdir til að komast að réttri niðurstöðu — eða niðurstöðu sem er að minnsta kosti ekki röng. Vitaskuld verður vatnsafl til raforkuvinnslu að vera undirorpið einhvers konar eignarrétti af þeirri einföldu ástæðu að það er verðmæti sem meiri eftirspurn er eftir en framboð á. Það rafmagn sem einn maður notar getur annar maður ekki notað, þar gildir lögmál skortsins. Andrúmsloftið er hins vegar ólíkt vatnsafli, þegar einn maður dregur andann tekur hann ekkert frá öðrum, allir geta andað um það gildir ekki lögmál skortsins.“

Það er Hannes sem hefur orðið.

„Hafið er einnig ólíkt því að því leyti, að það er nægilega rúmgott til þess að allir sem vilja sigla, geta það án þess að skaða hver annan, svo framarlega sem þeir virða almennar siglingarreglur, um siglingar á hafi gildir því ekki lögmál skortsins ...“ — Síðan segir Hannes:

,,Jón Þorláksson hélt því fram, að réttindi landeiganda til vatns væru takmörkuð hlutaréttindi; þau væru afnotaréttindi, ekki eignarréttindi. Af því leiddi beint, að hugtakið fossaréttindi stóðst ekki. Fossafélögin, Ísland og Titan, höfðu verið að kaupa hlut sem ekki var til. Þetta kann að vera rétt. En spurningin er, hversu víðtæka ályktun má draga af því. Hvorki meiri hluti né minni hluti fossanefndarinnar gerði sér grein fyrir því að öll eignarréttindi eru í raun og veru takmörkuð hlutaréttindi, afnotaréttindi. Menn mega ekki fara með eignir sínar alveg eins og þeir vilja. Einstaklingur má til dæmis ekki leika hástöfum á flygil sinn á næturnar, ef hann býr nálægt öðru fólki.“

Það er Hannes sem hefur orðið enn. Það er ekki Hannes Hafstein. Ég held að þegar menn nú á dögum nefna Hannes og hafa ekki föðurnafnið með skilji flestir það þannig, ef verið er að ræða um pólitík, að Hannes Gissurarson sé á ferð. En það er hann sem hefur orðið. Hann sem sagt tilnefnir að einstaklingur sem leikur á flygil hástöfum á næturnar megi það ekki þótt hann eigi flygilinn.

„Eigandi hnífs má nota hann til þess að skera með brauð, en ekki til að skera með fólk (nema hann sé skurðlæknir), segir Hannes. Maður sem á veiðiréttindi í stöðuvatni á ekki nauðsynlega rétt á því að losa úrgang í vatnið eða taka þaðan vatn til neyslu eða áveitu; því síður leiðir af veiðirétti hans að hann eigi sjálft stöðuvatnið.

„Deila fylgismanna ,,allsherjarstefnu“ og ,,séreignarstefnu“ árið 1919 virðist af þessum sökum til marks um misskilning“, segir sá sem skráir sögu Jóns Þorlákssonar.“

Hannes Gissurarson kemst sem sagt að þeirri niðurstöðu að Jón Þorláksson hefði misskilið þetta allt saman. Hann hafi bara gjörsamlega verið á valdi misskilningsins. Skyldi nú Jón Þorláksson, ef hann gæti nú lesið þessi orð, hafa verið hrifinn af söguskýringu þess manns sem hefur haldið nafni hans á lofti af öðrum ástæðum í landinu? Ég held ekki. (Gripið fram í: Það reyndist nú rétt að fossafélagið Titan keypti það sem það hafði rétt á að kaupa.) Já, það reyndist síðan vera niðurstaðan að hluta til af því sem fossafélagið eða Titan keypti lönd af bændum. (Gripið fram í: Má ekki skoða orð Hannesar í því ljósi?)

(Forseti (SP): Hv. ræðumaður getur óskað eftir að komast á mælendaskrá ef hann hefur eitthvað fram að færa. En það er hv. þingmaður sem stendur í ræðustól sem hefur orðið.)

Hæstv. forseti. Ég held þá áfram ræðu minni. Já, þannig hefur sumt af því sem menn gerðu á þeim árum í trausti þess að bændur ættu eignarrétt á löndum sínum hefur reynst vera öðruvísi. Núna liggur einmitt mál til meðferðar hjá nefndum Alþingis þar sem verið er að ganga frá því að Landsvirkjun fái öruggt eignarhald á löndum sem voru keypt af einmitt þeim félögum sem hér var vitnað til. Það er ástæða til að velta þessum hlutum fyrir sér.

En ég ætla enn einu sinni að nefna að þegar talað er annars vegar um allsherjarstefnuna og hins vegar um séreignarstefnuna var í því plaggi sem ég vísaði til, þessari ræðu og tilvitnunum í meirihlutaálit fossanefndar, slegið saman allsherjarstefnunni og þá bæði átt við með því orði, þeirri stefnu, að sveitarfélögin og þjóðin ætti vatnið eða auðlindirnar og hins vegar því að enginn ætti, sem er í rauninni sú niðurstaða sem Alþingi komst að og hefur verið í gildi og full sátt verið um frá því lögin voru sett 1923. Það er í raun niðurstaðan og það er sú niðurstaða sem mér finnst vera mjög eðlileg. Ég held að einkaeignarréttarmenn, frjálshyggjupostular nútímans, þurfi að fara að horfast í augu við að ekki er miklu lengra komist í eignarhaldinu en nú þegar er. Það að ætla sér að slá einhvers konar séreignarrétti á vatnið bendir til þess að menn hljóti næst að gera það við loftið eða fugla himinsins. Mér finnst að þá sé séreignarhugtakið orðið svolítið skrýtið og ekki endilega víst að það yrði því hugtaki til framdráttar ef svo langt yrði farið sem menn stefna.

Það er æðimargt sem mætti nú ræða hér í sambandi við þetta mál. Ég hef leyft mér að tala um mál sem tengjast óvefengjanlega vatnalögunum en það er einmitt meðferð alls konar auðlinda, bæði orkuauðlinda og jarðauðlinda. Allt er þetta tengt þeim málum og þeim hugmyndaátökum sem við erum þátttakendur í, þ.e. hvernig eigi að skipa auðlindum í landi okkar. Ég nefndi í gær og fór yfir það að verið er að vinna að endurskoðun stjórnarskrárinnar. Inn í hana á að setja ákvæði um eignarhald á þjóðarauðlindum. Um það virðist vera pólitísk víðtæk sátt. Stefna allra stjórnmálaflokkanna er sú að þarna eigi að fara inn ákvæði um þjóðarauðlindir. Því er auðvitað ástæða til að fjalla um allar þær auðlindir í umræðunni vegna þess að ríkisstjórnin og stjórnarliðar á Alþingi virðast ætla að halda sínu striki og ljúka þessum hluta málsins án þess að ljúka undirbúningi að einhverri allsherjarniðurstöðu hvað þessi auðlindamálefni varðar. Því er full ástæða til að nota tímann í sölum Alþingis til að fara yfir þessi mál. Hluti af þeim auðlindum sem um er að ræða eru auðlindir vatnsins, en þær eru líka auðlindin andrúmsloft og hún tengist einmitt orkunýtingunni í landinu alveg gríðarlega. Umræða síðustu daga um stóriðju og ný stóriðjuáform gefur alveg tilefni til að farið sé svolítið yfir einmitt þennan hluta málsins.

Ég ætla, með leyfi hæstv. forseta, að vitna í grein sem er mjög merkileg og var skrifuð í október árið 2003. Það er Aðalheiður Jóhannsdóttir, sem er þá aðjúnkt við lagadeild Háskóla Íslands og stundaði um þær mundir doktorsnám í umhverfisrétti við Uppsalaháskóla, sem skrifar þessa grein. Ég held að hv. þingmenn hafi afskaplega gott af því að hlýða á það sem Aðalheiður hefur að segja í grein sinni. Og þó að einhverjir hafi lesið hana, þá gæti verið farið að fenna yfir það. Greinin birtist 12. október 2003. Aðalheiður hefur orðið og í inngangi máls hennar segir, með leyfi forseta:

„Í rúman áratug hefur verið rætt um alþjóðlegar skuldbindingar sem varða aðgerðir til þess að stemma stigu við gróðurhúsaáhrifum og loftslagsbreytingum. Nokkrum sinnum hefur verið vikið að úthlutun útstreymisheimilda og gjaldtöku, sköttun útstreymis og viðskiptum með útstreymisheimildir. Enn sem komið er hefur lítil almenn umræða farið fram um þessa þætti né virðist hafa verið litið til nágrannaþjóða okkar í þessu sambandi. Þetta er athyglisvert því að með ákvæðum Kyoto-bókunarinnar um magntakmarkanir, verður auðlindin andrúmsloft sem viðtaki fyrir gróðurhúsalofttegundir takmörkuð auðlind og grípa þarf til margs konar ráðstafana til þess að ná markmiðunum sem stefnt er að. Í eftirfarandi umfjöllun mun ég fjalla um alþjóðlega samninga sem fjalla um ofangreind vandamál, íslenska stefnumótun vegna aðildar að Kyoto-bókuninni, starfsleyfisskylda starfsemi sem losar gróðurhúsalofttegundir og viðbrögð Evrópusambandsins (ESB) og tveggja nágrannaríkja. Fyrst mun ég fjalla um helstu einkenni íslenskrar umhverfislöggjafar og nokkur almenn atriði sem varða auðlindir.“

Hér kemur síðan kafli sem hefur yfirskriftina: Íslensk umhverfislöggjöf.

„Íslensk umhverfislöggjöf hefur þanist út undanfarinn áratug. Ástæður þessar eru þrjár: (1) aukin áhersla á umhverfismál, (2) aðild að EES-samningnum, og (3) aðild Íslands að alþjóðlegum samningum um umhverfismál en fjöldi þeirra hefur farið vaxandi í kjölfar aukinnar viðurkenningar alþjóðasamfélagsins á mikilvægi umhverfisverndar fyrir núlifandi og komandi kynslóðir. Helstu einkenni löggjafarinnar eru að hún byggist á reglum sem miða að því að fyrirbyggja að tjón verði á umhverfinu. Sú aðferð að boða og banna er enn sú sem mest kveður að. Minni gaumur hefur verið gefinn að margs konar úrræðum tengdum markaðinum sem hvetja stjórnendur fyrirtækja til þess að axla meiri ábyrgð á einstökum þáttum umhverfisverndar, vegna þess að það einfaldlega borgar sig til langs tíma litið. Annað einkenni á löggjöfinni er að hún er ósamhæfð, í mörgum lagabálkum og er framkvæmdin á ábyrgð nokkurra ráðherra. Skortur er á skýrum langtímamarkmiðum í löggjöfinni, m.a. í þeim málaflokki sem þessi grein fjallar um. Til dæmis hefur löggjafinn ekki enn fjallað um margar af helstu meginreglum réttarsviðsins og látið framkvæmdarvaldinu það eftir að fjalla um þessa þætti með reglugerðum ef þeir hafa yfir höfuð verið útfærðir. Þetta á að hluta til við um nokkur grundvallaratriði sem varða efni þessarar greinar.“

Nú kemur yfirskriftin: Náttúruauðlindir.

„Eitt af því sem stuðlar að ábyrgari hegðun er að líta svo á að náttúruauðlindir og réttur til þess að nýta þær hafi verðgildi. Sú aðferð eykur virðingu fyrir viðkomandi auðlind og stuðlar að ábyrgari nýtingu hennar. Þetta á sérstaklega við ef auðlindin er af skornum skammti eða einungis tiltekinn fjöldi getur nýtt sér hana á ákveðnu tímabili án þess að skaða auðlindina varanlega. Jafnframt hvetur þetta fyrirtæki í þeirri viðleitni að fá fram hagkvæmni í rekstri og sparnaði.“

Næsta yfirskrift er: Auðlindin andrúmsloft.

„Andrúmsloft er auðlind í tvennum skilningi: Hreint og ómengað andrúmsloft er forsenda heilbrigði og velferðar mannkyns. Ómengað andrúmsloft er einnig forsenda tiltekinna gæða annarra auðlinda, svo sem vatns, jarðvegs og lífríkis, t.d. lífríkis hafsins. Í annan stað er andrúmsloft auðlind í þeim skilningi að það tekur við útstreymi lofttegunda sem stafa frá ýmiss konar starfsemi. Miðað við þá tækni sem nú er þekkt er andrúmsloft oft nauðsynleg forsenda fjölbreyttrar iðnaðarstarfsemi og annarra athafna sem losa gróðurhúsalofttegundir. Ákvæði þeirra alþjóðlegu skuldbindinga sem ég mun gera grein fyrir miða öðrum þræði að því takmarka aðgang að auðlindinni andrúmslofti sem viðtaka fyrir gróðurhúsalofttegundir.“

Sameiginlegt áhyggjuefni er yfirskrift næsta kafla.

„Styrkur nokkurra tiltekinna lofttegunda hefur aukist verulega í andrúmsloftinu undanfarin tvö hundruð ár. Aukningin veldur því að hið náttúrulega jafnvægi raskast sem leiðir til aukinnar upphitunar andrúmsloftsins og röskunar á veðurfari. Breytingarnar munu leiða af sér ýmis alvarleg umhverfisvandamál. Langlíklegast er að þær muni valda hlýnun. Samhliða henni mun meðalhæð yfirborðs sjávar hækka. Breytingunum munu fylgja þurrkar og hnignun líffræðilegs fjölbreytileika. Umhverfisvandamálin valda síðan öðrum vandamálum; minni lífsgæðum, efnahags- og félagslegum óstöðugleika og röskun á búsetu. Aukning gróðurhúsaáhrifa er afleiðing fólksfjölgunar, iðnvæðingar og ákveðins andvaraleysis. Nánar tiltekið stafar aukning gróðurhúsalofttegunda einkum af tvennu: (1) mikilli brennslu á kolefnisríkum jarðefnum (kol, olía og gas) sem losar koltvíoxíð, og tilteknum iðnaðarferlum sem losa að auki ýmsar aðrar gróðurhúsalofttegundir, og (2) aukinni gróðureyðingu og breytingum á gróðurlendum. Litið er á þennan vanda sem sameiginlegt áhyggjuefni alls mannkyns.

Eins og oft áður brást alþjóðasamfélagið við aðsteðjandi vandamálum á þann hátt að setjast að samningsborðinu. Helstu alþjóðlegu skuldbindingarnar sem lúta að aðgerðum til þess að draga úr gróðurhúsaáhrifum eru í rammasamningi Sameinuðu þjóðanna um loftslagsbreytingar og Kyoto-bókuninni við rammasamning Sameinuðu þjóðanna um loftslagsbreytingar.

Rammasamningurinn tók gildi 21. mars 1994. Ísland gerðist aðili 16. júní 1993. Aðalmarkmið rammasamningsins er að ná jafnvægi gróðurhúsalofttegunda í andrúmsloftinu til að koma í veg fyrir hættulega röskun á loftslagskerfinu af manna völdum. Í samningnum er við það miðað að tilteknir samningsaðilar, OECD ríki eða ríki á viðauka I, auki ekki útstreymi gróðurhúsalofttegunda og sleppi ekki út meira magni af þeim árið 2000 en þau gerðu árið 1990. Sambærileg skuldbinding er ekki lögð á aðra samningsaðila. Í öðru lagi er við það miðað að samningsaðilar geti uppfyllt skuldbindingar sínar einir eða í félagi með öðrum samningsaðilum. Í þriðja lagi inniheldur samningurinn margskonar ákvæði um samvinnu ríkja, t.d. aðstoð við þróunarríkin og önnur ríki, með yfirfærslu á þekkingu, tæknibúnaði o.fl. Í fjórða lagi eru yfirgripsmikil ákvæði um nánari samvinnu aðildarríkjanna, þing aðila, stofnanir og nefndir sérfræðinga o.fl.

Leiðirnar sem voru samþykktar með rammasamningnum fela í sér mismunandi skuldbindingar ríkja sem staðfestir að tilteknar þjóðir heims, þær sem mestu hafa sleppt út í andrúmsloftið í tímans rás, samþykkja að taka á sig meiri skyldur og takmarkanir en aðrir samningsaðilar. Þessi stefnumótun er síðan útfærð í Kyoto-bókuninni.“

Þá er komið að Kyoto-bókuninni sjálfri:

„Hinn 11. desember 1997 var Kyoto-bókunin við rammasamninginn samþykkt. Bókunin hefur ekki enn tekið gildi.“ — Þ.e. þegar þessi grein var skrifuð. — „Gildistökuákvæði bókunarinnar er tvíþætt. Annars vegar þurfa a.m.k. 55 aðildarríki að hafa fullgilt hana og einnig þurfa ríkin að vera ábyrg fyrir a.m.k. 55% af heildarútstreymi koltvíoxíðs miðað við árið 1990. Þegar þetta er ritað vantar enn 10,8%. Lengi hefur verið búist við að Rússland gerðist aðili en þá næðist tilskilið hlutfall af heildarútstreyminu. Hins vegar hafa Bandaríkin ekki gerst aðilar að bókuninni. Þau bera ábyrgð á um 36% af öllu útstreymi gróðurhúsalofttegunda iðnríkjanna. Ísland gerðist aðili að bókuninni 23. maí 2002.“ — Nú er þetta auðvitað breytt og bókunin komin í gildi. Það er fagnaðarefni að svo skyldi fara að lokum.

Ég les áfram úr greininni, með leyfi forseta:

„Aðalmarkmið bókunarinnar felst í því að draga úr útstreymi tiltekinna gróðurhúsalofttegunda, þ.e. koltvíoxíðs, metans, nituroxíðs, vetnisflúorkolefnis, perflúorkolefnis og brennisteinshexaflúoríðs, sem nemur a.m.k. 5% miðað við losun árið 1990 og eru ríkin á viðauka I með rammasamningnum bundin af þessari skuldbindingu. Þessu markmiði á að ná á fyrsta skuldbindingartímabilinu sem er frá 2008–2012. Hins vegar eiga ríkin að hafa náð sýnilegum árangri árið 2005.“

Ég vek athygli á því að hér og alls staðar þar sem menn fjalla um þessi mál er talað um fyrsta skuldbindingartímabilið. Hvað þýðir það? Það þýðir að með þátttöku þjóðanna í rammasamningi um andrúmsloftið munu löndin taka þátt í ferli sem er miklu lengra. Þetta er áfangi á þeirri leið sem nær fram til ársins 2012. En ráðherrar þessarar ríkisstjórnar tala eins og þessi loftslagssamningur sé búinn árið 2012 og þá geti menn byrjað upp á nýtt. Það er undarlegur skilningur sem ekki er ábyrgur og full ástæða til að fjalla um það í sölum Alþingis.

Yfirskrift næsta kafla í grein Aðalheiðar Jóhannsdóttur sem birtist í Morgunblaðinu 12. október 2003 er Siðferðileg afstaða – magntakmarkanir. Þar segir:

„Ákvæði alþjóðlegra samninga sem varða umhverfisvernd hafa í nokkurn tíma verið byggð á þeirri forsendu að taka bæri tillit til efnahags- og félagslegra aðstæðna samningsaðila. Alþjóðlegir samningar sem lúta að gróðurhúsaáhrifum og loftslagsbreytingum eru gott dæmi um þetta. Segja má að þeir byggist á þeirri meginreglu að ríki beri misjafna ábyrgð á þeim vanda sem við er að etja í ljósi sögulegra staðreynda. Með þessu hefur alþjóðasamfélagið jafnframt tekið siðferðilega afstöðu til vandamálsins. Kyoto-bókunin gengur einna lengst alþjóðlegra samninga í þessa átt. Einungis ríkin sem eru á viðauka I með rammasamningnum sæta magntakmörkunum samkvæmt viðauka B með Kyoto-bókuninni. Þar að auki taka þessi ríki innbyrðis á sig misjafnar skuldbindingar eða tilteknar magnbundnar takmarkanir.

Flest ríkin á viðauka I þurfa að minnka útstreymi um meira en 5%, t.d. öll ríki ESB. Evrópubandalagið sem slíkt þarf draga úr sem nemur 8% miðað við viðmiðunarárið 1990. Bandaríkin þurfa að draga úr sem nemur 7%. Nokkrum ríkjum er heimilt að halda sama hlutfalli, miðað við viðmiðunarárið 1990. Þetta eru Nýja-Sjáland, Úkraína og Rússland. Loks er nokkrum ríkjum heimilt að auka við útstreymi gróðurhúsalofttegunda. Ísland er í þeim hópi og er heimilt að auka um 10%. Önnur ríki í þessum hópi eru Noregur 1% og Ástralía 8%. Þetta eru þó ekki einu ríkin sem geta aukið útstreymið í raun því innan EB geta einstök aðildarríki sambandsins aukið losun verulega, en önnur ríki verða að draga úr að sama skapi.

Hvernig verða skuldbindingarnar uppfylltar? Aðilar bókunarinnar geta beitt nokkrum aðferðum til þess að uppfylla samningsskuldbindingarnar. Jafnframt geta þeir bundið kolefni með ræktun, t.d. skógrækt, sem heimilt er að telja til tekna en kolefnisbinding dregur úr gróðurhúsaáhrifum. Ákvæði Kyoto-bókunarinnar um heimildir samningsaðila á viðauka I til að losa gróðurhúsalofttegundir felur ekki í sér rétt til þess að einungis losa gróðurhúsategundir heldur verða samningsaðilar að grípa til tiltekinna aðgerða innan lands til þess að draga úr heildarlosun. Samkvæmt þessu er það ekki í samræmi við bókunina að afla sér einungis viðbótarheimilda frá öðrum ríkjum eða standa sameiginlega að því að uppfylla skuldbindingarnar. Aðildarríkin verða að sýna fram á að slíkar heimildir séu til viðbótar aðgerðum sem gripið er til innan tiltekins aðildarríkis.“

Næsti kafli heitir: Samvinna – einstök verkefni.

„Mögulegt er að uppfylla skuldbindingarnar með því að takast á hendur einstök verkefni með öðrum aðilum á viðauka I. Verkefnin verða að uppfylla ákveðin skilyrði. Mörg verkefni hafa þegar verið framkvæmd og hafa lögaðilar borið ábyrgð á þeim. Verkefnin hafa t.d. falist í þróun á tæknibúnaði fyrir almenningsvagna sem veldur minna útstreymi gróðurhúsalofttegunda og í langtímaskógræktarverkefnum. Framkvæmdin hefur verið með þeim hætti að lögaðilar í einu ríki hafa með yfirfærslu á fjármunum og þekkingu staðið fyrir framkvæmd verkefnanna í öðrum ríkjum og báðir aðilar hafa notið góðs af.

Önnur aðferð við að uppfylla samningsskuldbindingar er samningsbundið samstarf tveggja eða fleiri aðila á viðauka I með rammasamningnum. Ríkin bera þá sameiginlega ábyrgð á því að standa við skuldbindingar sínar. Takist það hins vegar ekki ber hvert ríki ábyrgð fyrir sig í samræmi við viðauka B. Augljósasta dæmið er samvinna ESB-ríkjanna og er oft vísað til ESB-bólunnar eða „EU bubble“ í þessu sambandi. Segja má að þessi tilhögun sé sniðin að þörfum ESB og aðildarríkja þess. Ekkert stendur þó í vegi fyrir því að önnur ríki á viðauka I uppfylli skuldbindingar sínar með þessum hætti og semji þau svo um, t.d. Ísland og Rússland.

Gert er ráð fyrir að samningsaðilar sem ekki eru á viðauka I með rammasamningnum njóti margþáttaðrar aðstoðar ríkja sem eru á viðauka I, m.a. við að tileinka sér kerfi um hreina þróun sem lið í því að koma á sjálfbærri þróun og til að ná lokamarkmiði samningsins. Í þessu felst að ríki sem ekki eru á viðauka I, njóta góðs af tilteknum aðgerðum í tengslum við verkefni sem leiða til minnkunar útstreymis gróðurhúsalofttegunda og ríki sem eru á viðauka I geta nýtt sér ávinninginn til þess að standa við sinn hluta af skuldbindingunum samkvæmt bókuninni.

Frá því að rammasamningurinn var samþykktur hefur legið ljóst fyrir að alþjóðleg viðskipti með útstreymisheimildir gætu átt sér stað að einhverju marki. Kyoto-bókunin gerir beinlínis ráð fyrir þessu fyrirkomulagi. Ríkin sem eru á viðauka B, ríki sem sæta magntakmörkunum, geta tekið þátt í viðskiptum með útstreymisheimildir. Viðskiptin eru bundin því skilyrði að þau verða að koma til viðbótar öðrum aðgerðum sem gripið er til innan lands. Með öðrum orðum: ekki er hægt að uppfylla skuldbindingar bókunarinnar einungis með því að afla útstreymisheimilda frá öðrum samningsaðilum.

Framkvæmd viðskiptanna lýtur ákveðnum reglum sem enn eru í mótun. Meðal annars ber sérhverjum samningsaðila að halda eftir tilteknu magni af úthlutaðri heimild sem er fundið út samkvæmt ákveðnum reiknireglum.

Skrá verður öll viðskipti sem eiga sér stað, og allar útstreymisheimildir sem samningsaðilar afla sér með bindingu kolefnis með ræktun, með samvinnuverkefnum og loks með þátttöku í hreinni tækni. Samningsaðilum ber að koma á laggirnar og reka sérstakt landsskráningarkerfi. Ljóst er að viðskipti með losunarheimildir geta farið fram á milli ríkja sem slíkra og einnig beint á milli lögaðila án milligöngu ríkja.“

Þá er komið að Íslenska ákvæðinu:

„Íslensk stjórnvöld töldu ekki mögulegt að uppfylla markmið rammasamningsins og Kyoto-bókunarinnar enda er uppbygging þessa alþjóðlega regluverks illa sniðin að þörfum smærri ríkja sem þó eru iðnvædd. Lögð var á það áhersla að fá viðurkennda sérstöðu Íslands. Það tókst, og á fundi samningsaðila í Marrakesh síðla árs 2001 var samþykkt sérstök ákvörðun 14/CP.7, sem gerði Íslandi mögulegt að gerast aðili að bókuninni. Ákvörðunin ber yfirskriftina: Áhrif einstakra verkefna á útstreymi á skuldbindingartímabilinu. Í stórum dráttum er ákvörðunin þess efnis að heimilt er að halda tilteknu magni koltvíoxíðs „fyrir utan kerfið“ og gera grein fyrir því sérstaklega. Magnið má ekki fara yfir 1,6 milljónir tonna koltvíoxíðs á fyrsta skuldbindingartímabilinu …“ — Það er 2008–2012.

„Framkvæmdin er bundin nokkrum skilyrðum og þau helstu eru:

að um einstakt verkefni sé að ræða sem sé skilgreint sem starfsstöð til iðnaðarvinnslu sem hefur verið tekin í notkun eftir 1990.“

Það virðist því vera og það er þannig í þessum samningi að það þarf að vera sérstakur áfangi sem nær þeirri stærð sem þarna er um að ræða til að þetta fáist viðurkennt sem sérstakt verkefni.

„að útstreymi koltvíoxíðs frá viðkomandi samningsaðila hafi verið minna en 0,05% af heildarútstreymi árið 1990.“

Ég fór yfir það í ræðu minni í gær hvaða grundvallarreglur væru lagðar til í þessum samningi Íslands eða á bak við íslenska ákvæðið.

„að notuð sé endurnýjanleg orka,

að notuð sé besta framkvæmd með tilliti til til umhverfisins og besta fáanlega tækni, og loks

er óheimilt framselja þessar heimildir til annarra ríkja.“

Þetta var um íslenska ákvæðið og þá kemur að því sem höfundur kallar Íslensk stefnumörkun.

„Stefnt er að margs konar aðgerðum hér á landi til þess að draga úr áhrifum af völdum útstreymis gróðurhúsalofttegunda. Stefnumörkunin birtist m.a. í fylgiskjali með tillögu til þingsályktunar um aðild að Kyoto-bókuninni: Stefnumörkun ríkisstjórnar Íslands um ráðstafanir til að standa við skuldbindingar loftslagssamningsins og Kyoto-bókunarinnar. Stefnumörkunin tekur mið af úthlutuðum útstreymisheimildum Íslands samkvæmt Kyoto-bókuninni og ákvörðun 14/CP.7. Útstreymi Íslands skal ekki aukast meira en sem nemur 10% miðað við árið 1990 og á að vera innan við 3,2 milljónir tonna koltvíoxíðígilda á ári að meðaltali, á tímabilinu 2008–2012 …“

Ég endurtek það sem þessi ágæti fræðimaður skrifar hér um stefnumörkun Íslands samkvæmt Kyoto-bókuninni:

„Stefnt er að margs konar aðgerðum hér á landi til þess að draga úr áhrifum af völdum útstreymis gróðurhúsalofttegunda. Stefnumörkunin birtist m.a. í fylgiskjali með tillögu til þingsályktunar um aðild að Kyoto-bókuninni: Stefnumörkun ríkisstjórnar Íslands um ráðstafanir til að standa við skuldbindingar loftslagssamningsins og Kyoto-bókunarinnar.“ — Ég tek það svo, en ég hef ekki það plagg hér undir höndum nú en mun að sjálfsögðu afla mér þess, að hér sé orðrétt vitnað í það fylgiskjal sem ég nefndi áðan og fylgdi þegar verið var að staðfesta þessa bókun í sölum Alþingis. Þar stendur samkvæmt þessu: — „Stefnumörkunin tekur mið af úthlutuðum útstreymisheimildum Íslands samkvæmt Kyoto-bókuninni og ákvörðun 14/CP.7. Útstreymi Íslands skal ekki aukast meira en sem nemur 10% miðað við árið 1990 og á að vera innan við 3,2 milljónir tonna koltvíoxíðígilda á ári að meðaltali, á tímabilinu 2008–2012 þ.e. á fyrsta skuldbindingartímabili Kyoto-bókunarinnar.“

Það er auðséð á framsetningunni allri að hér hefur þessi ágæti fræðimaður gengið út frá því sem ég sagði áðan að við værum að tala um meðaltal á ári og það er nokkuð ljóst að sá nýi skilningur sem ráðherrarnir hafa lagt í málið, og hæstv. umhverfisráðherra hefur staðfest að hún hefur líka, er nýtilkominn og hefur ekki litið dagsins ljós fyrr en eftir að ráðherrarnir ákváðu þessa nýju skilgreiningu frá sinni hendi.

„Í öðru lagi skal koltvíoxíðútstreymi frá nýrri stóriðju sem fellur undir íslenska ákvæðið ekki vera meira en 1,6 milljónir tonna á ári að meðaltali á sama tímabili. Áætlað er að þetta nægi fyrir núverandi og þeirri stóriðju sem er fyrirhuguð hér á landi í náinni framtíð. Aðrar aðgerðir lúta m.a. að samgöngum, fiskiskipaflotanum, aðhaldsaðgerðum til þess að halda útstreymi flúorkolefna (PFC) innan tiltekinna marka, meðhöndlun úrgangs, bindingu kolefnis með landgræðslu og skógrækt, rannsóknum og þróun, fræðslu og upplýsingagjöf til almennings o.fl.

Aðrar ákvarðanir.

Aðrar mikilvægar stefnumarkandi ákvarðanir lúta að grundvallaratriðum sem varða þá hugsun sem Kyoto-bókunin byggist á. Meðal annars segir þar: „Kyoto-bókunin felur einnig í sér ákvæði um viðskipti milli landa með útstreymisheimildir. Útfærsla íslenska ákvæðisins takmarkar hins vegar þessi viðskipti þannig að Ísland getur ekki selt frá sér útstreymisheimildir. Ríkjum er í sjálfsvald sett hvort þau takmarki útstreymi innan lands með úthlutun útstreymisheimilda og viðskiptum (sic) með þær. Að athuguðu máli er ekki talin ástæða til þess að fara þá leið hér á landi.“

Tvennt vekur hér athygli: Rýr rökstuðningur að baki þeirri ákvörðun að fara ekki þá leið sem Kyoto-bókunin byggist á, þ.e. sveigjanleika, t.d. með því að eiga viðskipti með útstreymisheimildir á markaði innan lands eða í alþjóðlegu samhengi. Í öðru lagi sú fullyrðing að Íslandi sé óheimilt að selja frá sér útstreymisheimildir. Þetta á samkvæmt orðanna hljóðan einungis við um viðskipti (sölu) á milli landa með þær útstreymisheimildir sem ákvörðun nr. 14/CP.7 tekur til. Ákvörðunin takmarkar hins vegar ekki innanlandsviðskipti með viðbótarheimildirnar né önnur viðskipti með útstreymisheimildir sem Ísland mun hafa í samræmi við Kyoto-bókunina. Því má velta fyrir sér hvort milliríkjaviðskipti með úthlutuðu heimildina, séu samrýmanleg markmiðum Kyoto-bókunarinnar að teknu tilliti til viðbótarheimildarinnar í ákvörðun 14/CP.7. Að minnsta kosti var það skilningur samningamanna þegar viðbótarheimildin sem ákvörðunin 14/CP.7 gildir um var undirbúin að ekki ætti að vera mögulegt að selja úthlutuðu útstreymisheimildirnar á alþjóðlegum markaði, þ.e. sala umfram kaup á heimildum. Hins vegar ber texti ákvörðunar 14/CP.7 þennan skilning ekki með sér. Við þetta má bæta að þótt Íslandi hafi verið úthlutað útstreymisheimildum felst í úthlutuninni í raun takmörkun á réttindum Íslands, þ.e. takmörkun á því að nýta auðlindina andrúmsloft sem viðtaka fyrir tiltekna starfsemi innan íslenskrar lögsögu. Samkvæmt almennum skýringarreglum þjóðaréttarins bæri að túlka slíkar takmarkanir Íslandi í hag.“

Þetta er mjög athyglisvert sem sá sem þetta ritar setur hér fram og leiðir auðvitað hugann að því að kannski hafa ýmsir haft þá skoðun, a.m.k. hef ég haft hana, að möguleikar væru fyrir hendi til að leyfa innflutning á losunarheimildum til landsins. Hins vegar hafa engar reglur verið settar um slíkt í landinu og er ástæða til að velta því fyrir sér hvort slíkt sé þá í raun og veru heimilt og kannski má segja að það sé þá ljóst að stjórnvöld í landinu hafi tekið þá ákvörðun að ekki ætti að notfæra sér möguleikana til þess fram til ársins 2012. Þetta hefur þó hvergi verið rætt opinberlega þannig að maður getur ekki gert sér fulla grein fyrir því hvað stjórnvöld hugsa í þessu efni. Kannski skýrist vandræðagangurinn í þessu máli öllu að einhverju leyti með því að þarna séu einhver vandamál uppi sem stjórnvöld telja sig ekki geta leyst á einfaldan hátt.

„Áhrifaríkt stýritæki.

Úthlutun útstreymisheimilda og viðskipti með þær eykur út af fyrir sig ekki umhverfisvernd. Þessi aðferð hvetur hins vegar til þess að losunin fari fram þar sem kostnaðurinn er lægstur. Aðferðin er einnig áhrifaríkt stýritæki stjórnvalda í þeim málaflokki sem hér um ræðir því fyrirsjáanlegt er að draga þurfi enn meira úr losun gróðurhúsalofttegunda eftir lok fyrsta skuldbindingartímabils Kyoto-bókunarinnar 2008–2012. Loks dregur úr beinum afskiptum ríkisvaldsins en oft og tíðum hefur verið gagnrýnd sú miðstýrða nálgun sem lengi hefur tíðkast við stjórn umhverfismála, m.a. hér á landi.

Gjöld fyrir nýtingu auðlinda.

Aðgangi að auðlindum sjávar er stýrt með ákveðnu regluverki og gjöld fyrir nýtingu auðlinda þekkjast hérlendis, samanber veiðigjald á veiðiheimildir sem tekur gildi 1. september 2004 í samræmi við V. kafla laga nr. 38/1990, um stjórn fiskveiða. Til grundvallar gjaldinu skal m.a. leggja aflaverðmæti að frádregnum ýmsum kostnaðarliðum, þar með talið liðum sem tengjast rekstri. Auk almenns veiðileyfis, sem er nauðsynleg forsenda fiskveiða í atvinnuskyni, er aflahlutdeildarkerfi (kvótakerfi) við lýði í samræmi við ákvæði ofangreindra laga og helst aflahlutdeild skips óbreytt milli ára. Aflamark hvers skips á hverju veiðitímabili ræðst hins vegar af leyfðum heildarafla viðkomandi tegundar fisks og hlutdeildar skips í þeim heildarafla. Í 1. gr. laga nr. 38/1990 er sérstaklega tekið fram að úthlutun veiðiheimilda samkvæmt lögunum myndi ekki eignarrétt eða óafturkallanlegt forræði einstakra aðila yfir veiðiheimildum. Auk þessa eru ítarlegar reglur í lögunum um hámarksaflahlutdeild, eða þak, einstakra fiskiskipa í eigu einstakra aðila, tilkynningar þegar fyrirsjánlegt er að aðilar fari umfram þau mörk sem sett eru um hámarksaflahlutdeild og fleiri atriði þessum skyld. Loks er ljóst að úthlutað aflamark er mögulegt að flytja á milli skipa og ber að tilkynna um slíkan flutning. Ekki hefur verið talin ástæða til þess að fara neinar slíkar sambærilegar leiðir þegar losun gróðurhúsalofttegunda á í hlut hérlendis og fyrir liggur stefnumarkandi ákvörðun þess efnis að úthluta ekki útstreymisheimildum og að viðskipti með þær fari ekki fram hér á landi eins og ég kom að, án þess þó að fyrir liggi gagnsær, skýr eða ítarlegur rökstuðningur að baki þeirri ákvörðun.“

Það er allt saman mikið umhugsunarefni sem hér hefur verið farið yfir og segir okkur í raun og veru svolítið um það af hverju ríkisstjórnin er í þeim vandræðum sem hún virðist vera hvað varðar útstreymi gróðurhúsalofttegunda og ákvarðanir eða skuldbindingar gagnvart nýjum virkjanakostum eða framleiðslu í stóriðju í landinu.

„Mengunarvarnir.

Lög nr. 7/1998, um hollustuhætti og mengunarvarnir, er meginlöggjöfin sem gildir um þá staðbundnu starfsemi sem sleppir út gróðurhúsalofttegundum hér á landi og fellur undir gildissvið Kyoto-bókunarinnar. Lögin gilda einnig um útblástur frá bifreiðum (dreifð eða hreyfanleg uppspretta) og um útblásturinn gilda sérstakar reglur þar sem fram koma viðmiðunarmörk. Aðrar dreifðar uppsprettur gróðurhúsalofttegunda, t.d. rekstur flugvéla og skipa, lúta ekki sérstökum reglum hvað útstreymi gróðurhúsalofttegunda varðar. Alls stafa 56% af útstreymi gróðurhúsalofttegunda hér á landi frá dreifðum uppsprettum: frá samgöngum 30% og fiskveiðum 26%. Aðrar uppsprettur gróðurhúsalofttegunda eru iðnaðarstarfsemi 32%, landbúnaður 10%, og 2% stafa frá úrgangi.“

Þær tölur sem hér eru nefndar eru frá árinu 2003.

„Starfsleyfisskylda.

Sú staðbundna starfsemi hér á landi sem sleppir út gróðurhúsalofttegundum er starfsleyfisskyld í samræmi við lög nr. 7/1998 og reglugerð nr. 785/1999, um starfsleyfi fyrir atvinnurekstur sem getur haft í för með sér mengun. Gróflega má skipta þessari starfsemi í tvo flokka:

1. Starfsemi sem losar gróðurhúsalofttegundir og meginlosunin er til komin vegna aðferða og efna sem notuð eru í viðkomandi framleiðsluferlum eða rotnunar sem á sér stað við ákveðnar aðstæður. Í þennan flokk falla t.d. álverið í Straumsvík, álverið á Grundartanga, svo og Járnblendiverksmiðjan á Grundartanga. Staðbundin starfsemi sem losar gróðurhúsalofttegundir vegna rotnunar eru t.d. urðunarstaðir og landbúnaður. Almennur landbúnaður er ekki starfsleyfisskyldur, einungis umfangsmikil svína- og alifuglarækt.

2. Starfsemi sem knúin er af orkugjöfum, svo sem olíu, sem losa gróðurhúsalofttegundir, t.d. Kísiliðjan við Mývatn, Sementsverksmiðjan og fiskimjölsverksmiðjur.“

Þá komum við að efni starfsleyfanna og útstreymisheimildum en í greininni segir, með leyfi forseta:

„Nauðsynleg forsenda viðskipta með útstreymisheimildir er að starfsleyfishafi eða aðrir sem losa gróðurhúsalofttegundir hafi nægar heimildir til þess að ráðstafa þeim. Hins vegar er spurning hvort hægt sé að líta svo á að gilt starfsleyfi fyrir tiltekna staðbundna starfsemi sem losar m.a. gróðurhúsalofttegundir feli í sér úthlutun á útstreymisheimildum, þ.e. heimild til þess að losa tiltekin tonn af gróðurhúsategundum á ákveðnu tímabili. Mín niðurstaða er sú að starfsleyfi í núverandi mynd veiti ekki slíkan sérgreindan rétt enda eru útstreymisheimildir ekki aðgreindar í starfsleyfunum og eru í raun ekki til samkvæmt íslenskum rétti. Starfsleyfi eru eins og orðið bendir til fyrst og fremst heimild til þess að reka tiltekna mengandi starfsemi á fyrir fram ákveðnum stað sem í ákveðnum tilvikum sleppir út í andrúmsloftið gróðurhúsalofttegundum. Hafa ber þó í huga að mögulegt er að framselja starfsleyfi, þ.e. starfsemina í heild sinni að uppfylltum ákveðnum skilyrðum.

Nýlega var samþykkt tilskipun … sem hefur í för með sér að ESB-ríkin verða innan skamms að taka upp úthlutunarkerfi fyrir útstreymisheimildir … og úthluta þeim til tiltekinnar starfsemi sem losar gróðurhúsalofttegundir. Þetta er gert í því skyni að uppfylla skuldbindingar Kyoto-bókunarinnar á sem hagkvæmastan hátt. Tímabilið frá 2005 til 2007 verður eins konar reynslutími áður en fyrsta skuldbindingartímabil Kyoto-bókunarinnar hefst árið 2008. Eftir það verður kerfið rekið í fimm ára tímabilum.

Ein af meginröksemdunum fyrir því að taka upp slíkt kerfi innan EB er sú að opna möguleika á að nýta sér ákveðinn efnahagslegan ávinning, þ.e. losun gróðurhúsalofttegunda mun fara fram þar sem kostnaðurinn er lægstur, rekstraraðilar geta nýtt sér tiltekinn sveigjanleika. Viðurkennt er að með úthlutun útstreymisheimilda sé tekið í notkun öflugt stýritæki til þess að ná markmiðum Kyoto-bókunarinnar. Kerfið og einstakir þættir þess eru jafnframt útfærsla á greiðslureglunni sem umhverfisstefna EB byggist á.

Starfsemi sem losar gróðurhúsalofttegundir verður að afla sér sérstaks leyfis til þess að losa gróðurhúsalofttegundir … hjá lögbæru stjórnvaldi í aðildarríkinu, og einnig er þeim sem ábyrgð bera á slíkri starfsemi úthlutað útstreymisheimildum. Fyrra leyfið er starfsleyfi í eðli sínu og er bundið viðkomandi starfsemi og starfsstöðinni. Það seinna er hins vegar ávísun á tilteknar útstreymisheimildir sem unnt er að eiga viðskipti með. Á tímabilinu 2005–2007 ber aðildarríkjunum að úthluta a.m.k. 95% útstreymisheimilda án endurgjalds. Eftir 2008 skal úthluta a.m.k. 90% án endurgjalds.

Úthlutunin á að vera í samræmi við tiltekin, fyrir fram ákveðin og sameiginleg viðmið, m.a. til þess að koma í veg fyrir röskun á samkeppni. Úthlutun útstreymisheimilda á að byggjast á landsáætlun þar að lútandi. Í henni á að koma fram heildarmagn þeirra útstreymisheimilda sem viðkomandi ríki hyggst úthluta. Taka ber mið af athugasemdum almennings við gerð slíkra áætlana. Framkvæmdastjórn EB getur hafnað áætluninni ef hún er ekki í samræmi við viðmiðin. Rekstraraðilar sem losa meira magn af gróðurhúsalofttegundum en útstreymisheimildir þeirra standa fyrir verða sektaðir af aðildarríkjunum. Sektir verða 40 evrur á tonn á tímabilinu 2005–2007, en frá 2008 verða það 100 evrur.

Einungis tilteknir flokkar staðbundinnar starfsemi verða með í EB-kerfinu til þess að byrja með. Aðildarríkin geta hins vegar óskað þess að fleiri gróðurhúsalofttegundir verði teknar inn í kerfið og fjölbreyttari starfsemi. Jafnframt er þeim heimilt að nota kerfið fyrir starfsemi sem er undir stærðarmörkum þeim sem koma fram í viðauka I með tilskipuninni. Mögulegt verður að tengjast EB-kerfinu, gagnkvæm viðurkenning, þótt viðkomandi ríki sé ekki í sambandinu.

Nýja tilskipunin mun verða hluti af EES-samningnum. Mögulegt er að óska eftir tímabundnum undanþágum til 31. desember 2007. Einungis stærri fiskimjölsverksmiðjur hér á landi falla beinlínis undir gildissvið tilskipunarinnar og e.t.v. Járnblendiverksmiðjan og álverin. Verði nýja tilskipunin tekinn inn í EES-samninginn án fyrirvara af Íslands hálfu ber að taka hérlendis upp úthlutun útstreymisheimilda, a.m.k. hvað varðar þá starfsemi sem beinlínis fellur undir gildissvið tilskipunarinnar.

Flest nágrannaríkin eru að undirbúa gildistöku Kyoto-bókunarinnar. Bæði í Noregi og Svíþjóð stendur nú yfir undirbúningur og ætla bæði ríkin að úthluta útstreymisheimildum. Norðmenn stefna að því að gera landskerfið þannig úr garði að það uppfylli bæði kröfur EB-kerfisins og ákvæði Kyoto-bókunarinnar. Að öllum líkindum munu Norðmenn úthluta útstreymisheimildum til fjölbreyttari starfsemi en EB-regluverkið gerir ráð fyrir og hugsanlega til þeirra sem bera ábyrgð á tiltekinni losun frá dreifðum og hreyfanlegum uppsprettum. Bæði Noregur og Svíþjóð munu breyta eitthvað fyrirkomulagi koltvíoxíðskatts sem nú er lagður á ýmsa mengandi starfsemi. Eitthvað verður dregið úr skattskyldu en í stað hennar verður úthlutað útstreymisheimildum. Einnig er mögulegt að hluti útstreymisheimildanna verði seldur eða boðinn upp m.a. til þess að brúa það bil sem verður vegna breytinga á koltvíoxíðskatti.“

Þá er komið að lokaorðum þessarar merkilegu greinar, með leyfi forseta:

„Ég hef nú fjallað um ýmis atriði sem varða alþjóðlegar skuldbindingar sem hafa að markmiði að draga úr gróðurhúsaáhrifum og loftslagsbreytingum. Ég vék að nokkrum stefnumarkandi ákvörðunum sem hafa verið teknar hér á landi og varða þennan málaflokk og rökstuðningnum að baki þeirri ákvörðun að fara ekki þá leið sem Kyoto-bókunin beinlínis hvetur til. Að mínu mati er sá rökstuðningur ófullnægjandi, sérstaklega í ljósi þess sem nú er í undirbúningi í nágrannaríkjunum og innan ESB, og síðast en ekki síst með tilliti til eðlis Kyoto-bókunarinnar og þess sveigjanleika sem hún gefur möguleika á og getur komið sér vel fyrir þá starfsemi sem losar mest af gróðurhúsalofttegundum. Jafnframt kann þessi ákvörðun að einhverju leyti að vera byggð á misskilningi. Loks lýsti ég nokkrum þáttum sem lúta að nýjum reglum sem taka munu gildi á öllu EES-svæðinu í fyllingu tímans.

Ef ákveðið yrði að hefja úthlutun útstreymisheimilda hér á landi í því augnamiði að eiga viðskipti með þær á markaði þarf augljóslega nýja löggjöf. Auk annars þyrfti að taka afstöðu til þess hvort einungis eigi að úthluta heimildum til tiltekinnar, staðbundinnar, mengandi starfsemi eða einnig til þeirra sem losa umtalsvert magn gróðurhúsalofttegunda þótt frá dreifðum uppsprettum sé. Ekki yrði vandalaust að úthluta útstreymisheimildum, m.a. með tilliti til jafnræðisreglu, fyrri starfsemi o.fl. Hins vegar eru sambærileg kerfi ekki nýlunda hér á landi eins og ég kom að.

Ég hef látið hjá liggja að velta fyrir mér ýmsum atriðum, t.d. atriðum sem koma inn á samkeppni á EES-svæðinu og ég hef ekki vikið að hugsanlegum núningsflötum vegna alþjóðlegra viðskipta með útstreymisheimildir samkvæmt Kyoto-bókuninni og regluverks Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar.

Því má velta fyrir sér hvort Ísland hafi átt að gerast aðili að rammasamningnum í upphafi og síðar Kyoto-bókuninni. Eins og þetta alþjóðlega regluverk hefur þróast er ljóst að það fellur ekki vel að efnahagslegri uppbyggingu smærri ríkja eins og efni ákvörðunar 14/CP.7 ber með sér og hafa verður í huga að útstreymisheimildir Íslands eru afar takmarkandi.

Hins vegar verður ekki hjá því komist að benda á þá staðreynd að e.t.v. er mögulegt að fara aðrar og fjölbreyttari leiðir við að uppfylla samningsskuldbindingarnar en fyrirsjáanlegar eru hér á landi. Hvað varðar EES-samninginn er ljóst að ekki er mögulegt að samþykkja nýju tilskipunina nema með fyrirvara, það er að segja ef íslensk stjórnvöld halda stefnu sinni í þessum málaflokki til streitu.

Umhverfisréttur þróast hratt. Ýmsar leiðir eru að ryðja sér til rúms, leiðir sem í senn draga úr miðstýringu og veita rekstraraðilum meira svigrúm, en eru samtímis öflug stýritæki til þess að ná umhverfismarkmiðum. Úthlutun útstreymisheimilda og viðskipti með þær er ein slík aðferð.

Grein þessi byggist á rannsókn sem birtast mun í riti Lagastofnunar Háskóla Íslands innan skamms. Sú grein ber heitið: Alþjóðlegar skuldbindingar um loftslagsbreytingar og íslenskur réttur: umfjöllun með áherslu á útstreymisheimildir og viðskipti með þær.“

Ég hef lokið lestri á grein Aðalheiðar Jóhannsdóttur, hæstv. forseti, og tel fulla ástæðu til að vekja athygli hv. alþingismanna og þeirra sem á mál mitt hlýða á henni. Grein hennar hefur a.m.k. orðið til þess að ég hef áttað mig á því að íslensk stjórnvöld hafa í raun ekki möguleika til þess, nema með nýrri lagasetningu, að leyfa uppbyggingu stóriðju á Íslandi fram yfir íslenska ákvæðið svokallaða. Ég tel þess vegna fulla ástæðu til þess að á Alþingi ræði menn þessa stöðu nákvæmar en gert hefur verið. Ég hafði ekki gert mér grein fyrir því að staðfesting Íslands á Kyoto-bókuninni hefði þetta gildi. En samkvæmt henni verður ekki með neinu móti bætt við útblæstri á lofttegundum að óbreyttu. En það er mikil ástæða til að menn ræði það í góðu tómi hér í Alþingi og ég vil að menn skoði þau mál nánar.

Ég hef svo sem ekki sérstaka ástæðu til að halda mikið lengur áfram ræðu minni. Ég veit að margir bíða eftir því að taka til máls. Hér eru margir á mælendaskrá sem vilja ræða þau málefni sem hér eru á dagskrá. Þau eru mikilvæg. Ég ákvað að nota tíma minn í ræðustól í dag til að fara yfir þessi tvö merkilegu plögg sem ég hef farið yfir. Annars vegar var það tilvitnun í ræðu fyrrverandi þingmanns Bryndísar Hlöðversdóttur. Hins vegar las ég upp merkilega grein sem ég tel að ætti að vera skyldulesning háttvirtra alþingismanna. Ég geri ráð fyrir því að við höldum áfram þessari umræðu fram eftir deginum. Ég hlakka til að hlusta á forsvarsmenn ríkisstjórnarflokkanna í framhaldi af ræðu minni. Ég veit að þeir hafa einhverjir ætlað í andsvör við mig þótt ég sjái þá ekki í salnum núna. En ég geri ráð fyrir því að þeir mæti í þau andsvör sem þeir ætluðu að veita.

Áður en ég fer úr þessum ræðustóli langar mig til að létta mönnum örlítið lundina með lítilli tilvitnun. En eftir áramótin varð mönnum ljóst að í umræðunni um rannsóknir á auðlindum í jörðu sem Alþingi fjallaði um löngum stundum fyrir áramótin hafði iðnaðarráðherra verið haldin einhverjum gríðarlegum misskilningi hvað þetta mál varðar. Ég hafði hugsað mér að fara svolítið yfir það mál hér en ég ætla að stytta það. En vegna þess í hve ámátlega stöðu hæstv. iðnaðarráðherra kom sér í í því máli, datt mér í hug kvæði sem ég hef oft lesið og er eftir Guðmund Böðvarsson. Þetta kvæði er í bókinni Saltkorn í mold eftir þann snilling.

Hæstv. forseti. Nú er einmitt formaður iðnaðarnefndar mættur í salinn (Gripið fram í: Þú verður að fylgjast með.) og ég get þess vegna hafið þessa tilvitnun sem mér finnst mikilvægt að hv. þingmaður hlusti á. Mér þykir fyrir því, en ég hef heyrt að Þórhallur miðill sé hættur að útvarpa sínum frægu þáttum. (Gripið fram í: Það er ekki gott.) Það er auðvitað ekki gott. Hann sér bæði aftur í tímann og fram í tímann. Það virðist sem Guðmundur Böðvarsson hafi séð fram í tímann þegar hann orti þetta kvæði sem ég ætla að vitna í því að hann, eins og Þórhallur, nefnir bókstaflega nöfn og staði í þessu kvæði. Þetta kvæði fjallar um afrek tiltekinnar konu. Kvæðið er svona, með leyfi hæstv. forseta:

Vallhumall vex í þúfu

Völku gömlu frá Tjörnum.

Stóð sú við sætingu og rakstur

sjaldan á engjateigi,

fornleg um þykkju og þel.

Langtímis fór hún á fjalli

að fé, með toppmjóa húfu,

gagnkunnug hálendishagans

holtum, móum og dýjum,

Einbúa og Útbrúnir þekkti,

Illasund, Háamel,

því hún rak á hverjum degi

hreppstjórans ær úr kvíum,

með sér að morgni tók hún

mal sinn, og blöndulegil,

staf sinn, og stytti sig vel.

Valka var vel að manni,

í vextinum stutt og digur,

ótæpt var í hana spunnið

andanum til að duga,

og ófremdin sárt henni sveið,

oft vó hún upp stórgrýti í vörður

og vann þar lofsverðan sigur,

en oflangt frá alfaraleið,

því henni brann það í huga

að hafa sér nokkuð unnið

til frægðar fyrri en væri

fram hjá í markleysu runnið

örfleygt ævinnar skeið.

Kristfinnur Kortsson af Skaga

var kaupamaður á Tjörnum,

kattliðugt kvikindi var hann

og krækti leikandi báðum

hælunum aftur fyrir haus,

list sína löngum á kvöldum

hann lék fyrir krakkaskarann

og hélt sínum fræknleik til haga

hreykinn af sínum dáðum,

galandi gort og raus,

kallandi kalls til Völku:

— klofstutt og rasssíð er Valka,

brauðstirð og liðalaus.

Það var á aftni einum

að örfáar gamalrollur

kreikuðu heim undir kvíar,

komnar án hunds og smala,

margs var þá spurt, — og spáð

að ef til vill álfasollur,

iðkandi brellur nýjar,

villt hefði um fyrir Völku,

var þá með nokkrum kala

munuð mörg þeirra dáð,

en ekki var um að tala:

afi var sendur að leita.

Drjúg eru reynds manns ráð.

Afi á Refsstaða-Rauðku

reið nú skætinginn glaðan,

margur var brekkubollinn,

Berjadalinn og Flatann

leitaði hann inn og út,

og vestur við Vatnsmýrarpollinn

Völku fann hann að lokum,

og dauðskelfdur datt hann af baki

og drottin um liðsinni bað hann,

því illa var ástatt um Völku:

öðrum stuttfæti sínum

krækt hafði hún yfir kollinn

og kom honum ekki þaðan,

allt var í hörðum hnút.

En Valka mín, — okkur öllum

sem ætluðum stórt að gera,

skal endast til hugarhægðar

í hjásetu á lífsins fjöllum,

sú lífsreynsla mín og margra,

að misheppnan afreksverksins —

fékk manni nokkurrar frægðar,

og fráleitt er því að bera

frá tapinu sorg og sút.

(Gripið fram í: Er þetta búið?)