132. löggjafarþing — 78. fundur,  7. mars 2006.

Vatnalög.

268. mál
[15:52]
Hlusta

Frsm. minni hluta iðnn. (Jóhann Ársælsson) (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það sem við höfum í raun og veru verið að segja er að við viljum að skilgreiningarnar verði óbreyttar. Það skapast væntanlega ekki nein skaðabótaskylda við það. Ég tel það svolítið undarlegt að menn skuli líta þannig á afstöðu okkar að hún hafi í för með sér einhverjar breytingar frá því sem verið hefur. Vatnalögin sem hafa verið í gildi eru skilgreind með þeim hætti sem við viljum halda í. Það sem verið er að fjalla um í þessu frumvarpi er að breyta skilgreiningunni og kalla hana eignarrétt í stað þess að hún er raunverulega skilgreind sem afnotaréttur í vatnalögunum sem slíkum. Þetta er munurinn á afstöðu okkar. (KÓ: Nei, …) Öll not af vatni eru því áfram með sama hætti og verið hefur ef við breytum ekki skilgreiningunni. Hins vegar er að mínu viti alveg ljóst að menn geta ekki með neinu móti spáð um hver breytingin verður í framtíðinni. Reynslan ein getur sýnt okkur til hvers breytingin af þeirri lagabreytingu sem hér er verið að ræða mun leiða. Það veit enginn.

Það er verið að nota annað orð, nota orðið eignarréttur um vatnið sem ekki hefur verið gert fram til þessa. Það á eftir að sýna sig hvað þetta þýðir. Ef marka má svör þess manns sem samdi þetta frumvarp, að það mundi kosta einhvers konar skaðabætur ef við breyttum skilgreiningunni sem er í lögunum um rannsóknir og nýtingu á auðlindum í jörðu núna, þá held ég að menn þurfi að huga vel að þessu máli, hvort menn ætla að taka það inn í heildarlagabálkinn í staðinn fyrir vatnalögin.