132. löggjafarþing — 78. fundur,  7. mars 2006.

Vatnalög.

268. mál
[15:57]
Hlusta

Frsm. meiri hluta iðnn. (Birkir Jón Jónsson) (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Hv. þm. Jóhann Ársælsson hefur haldið fimm klukkustunda langa ræðu um það málefni sem við fjöllum hér um, frumvarp til nýrra vatnalaga og heildarendurskoðun á þeim lögum. Hv. þingmaður hefur haldið því fram í þessari umræðu og í sinni löngu ræðu að Framsóknarflokkurinn væri á einhverri frjálshyggjuleið í þessum efnum. Ég fór yfir það í ræðu minni við upphaf þessarar umræðu, 2. umr. um þetta mál, að hér er ekki um neina stefnubreytingu að ræða. Framsóknarflokkurinn hefur staðið vörð um réttindi landeigenda áratugum saman, allt frá stofnun hans. Það hefur ekkert breyst og engin stefnubreyting á sér stað með því frumvarpi sem hér um ræðir enda þótt hv. þingmenn stjórnarandstöðunnar vilji gefa annað í skyn.

Ég hef farið yfir álit Karls Axelssonar, að hér sé einungis um formbreytingu að ræða en ekki stefnubreytingu. Ég get vitnað hér í rit Þorgeirs Örlygssonar um eignarhald á landi og náttúruauðlindum þar sem segir á bls. 585 í því riti, þar sem hann fer yfir 49. gr. núgildandi vatnalaga sem ég ætla svo sem ekki að fara nánar í, með leyfi forseta:

„Réttarframkvæmdin hefur og til fulls viðurkennt eignarrétt landeigenda að vatnsorku, m.a. þegar vatnsföll hafa verið tekin til virkjunar, og dómstólar hafa talið landeigendur eiga eignarrétt að vatni á landi sínu.“

Áfram heldur Þorgeir Örlygsson:

„Þegar til þess er litið sem að framan segir er ljóst að við setningu vatnalaga 1923 var með ótvíræðum hætti tekið af skarið um það að landeigendur ættu einir rétt til að hagnýta orku þeirra vatna sem um landareignir þeirra renna. Vatnsréttindi eru samkvæmt því með sama hætti og jarðefni og jarðhiti undir yfirborði eignarlanda þáttur í eignarrétti landeigenda sem verndar nýtur skv. 72. gr. stjórnarskrárinnar.“

Að þessari niðurstöðu hafa flestallir sérfræðingar á þessu sviði komist á 20. öldinni, alveg sama (Forseti hringir.) hvað hv. stjórnarandstaða heldur fram í fimm tíma löngum ræðum hér á Alþingi, hæstv. forseti. (Forseti hringir.)