132. löggjafarþing — 78. fundur,  7. mars 2006.

Vatnalög.

268. mál
[16:00]
Hlusta

Frsm. minni hluta iðnn. (Jóhann Ársælsson) (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Vatnalögin gengu út frá þeirri skilgreiningu sem ég vitnaði til áðan. Allar greinar vatnalaga sem um þetta hafa gilt hafa orðið til þess að ákveðin framkvæmd hefur komið og staðist tímans tönn. Sú framkvæmd er öll á þann veg að landeigendur hafi möguleika og rétt til að hagnýta sér orkulindir, hagnýta sér vatnið og þau gæði sem á landi þeirra eru. Það er engin þræta um þetta.

Hins vegar stendur hvergi í vatnalögum og var frá upphafi ákveðið að ekki skyldi vera þar, að landeigendur ættu vatnið. Þeir sem vilja ráða hér í pólitík nú á dögum telja allt í einu að það sé svo óskaplega mikilvægt að vatnið skuli vera séreign en ekki hagnýtingarrétturinn á vatninu. Um það snýst deilan og hún kann að virka mjög ankannalega í augum margra.

Ég tel hins vegar mjög óvarlegt að breyta skilgreiningunni. Ég er ekki á þeirri skoðun að það sé augljóst hvað af því leiðir. Hins vegar er ástæða til þess að velta því t.d. fyrir sér hvort sá sem á allt vatnið sem er á hans landi geti ekki farið að mótmæla því að settar séu á það þær hömlur sem eru í lögum núna. Það er nefnilega munur á að eiga eða eiga hagnýtingarrétt. Það kann vel að vera að það að breyta lögunum og skilgreiningunni með þessum hætti muni hafa afleiðingar sem enginn sér fyrir í dag.