132. löggjafarþing — 78. fundur,  7. mars 2006.

Vatnalög.

268. mál
[18:37]
Hlusta

Frsm. minni hluta iðnn. (Jóhann Ársælsson) (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Hv. þingmaður fór yfir álit fræðimanna til að reyna að afsanna mál mitt. Flest af því sem hann vitnaði í sneri að málefnum sem við höfum ekki verið með neinn ágreining um, þ.e. um hagnýtingu náttúruauðlinda og réttindi á landi manna. Við höfum ekki verið með neinn ágreining um það. Við höfum haldið því fram að sú skilgreining sem er í vatnalögum ætti að gilda áfram. Við teljum ekki rétt að setja inn þá nýju skilgreiningu að vatn sé séreign. Það felur ekki í sér neitt af því tagi sem hv. þingmaður hefur haldið fram um að við viljum taka einhver réttindi af mönnum. (Gripið fram í.)

Mér finnst mjög undarlegt, og ég ætla að leiðrétta hv. þingmann með það, að hann sagði að meiri hluti fossanefndar hefði viljað að réttindin yrðu eign ríkisins. Í plöggum sem ég hef segir að á fundi Verkfræðingafélags Íslands, sem fram fór rétt áður en þinghald hófst árið 1921, hafi Jón Þorláksson haldið ræðu þar sem kom fram, með leyfi forseta:

,,Jón kvað það misskilning að meiri hluti fossanefndar hefði lagt til að ríkið eignaðist öll vötn. Meiri hlutinn hefði kveðið upp úr um það að vatn væri engum eignarrétti undirorpið, hvorki ríkisins né einkaaðila.“

Þetta sagði Jón Þorláksson sem hefur lengi verið hafður mjög uppi sem ... (Gripið fram í.) Ég tel ástæðu til að menn taki eftir þessu. (Forseti hringir.)